Ekki föðurættinni að kenna að þú fitnar

Bára Magnúsdóttir hjá Dansrækt JSB í Reykjavík hefur árum saman hjálpað konum að léttast og er núna með stóran hóp kvenna sem beitir hennar aðferðum til að grennast. Þetta eru engin geimvísindi. Það gildi að borða minna og hreyfa sig. „Það eru hitaeiningarnar sem stjórna holdarfarinu, en næringin sem stjórnar heilsunni og útlitinu“ segir hún. „Það er hægt að borða lífrænt ræktaða fæðu og það er hægt að lifa á kóki og súkkulaðikexi – og grennast! Ég get verið þvengmjó og alveg að deyja úr aumingjaskap“ segir Bára sem fordæmir allar öfgar. Ekki borða þetta og ekki hitt, sykur er eitur. Hún blæs á svoleiðis bull.  Áður fyrr lifðu menn á því sem náttúran gaf. Þeir gátu borðað og fitnað þegar fæðan var næg á sléttunni, en lifað á forðanum þegar hún var minni og þá grenntust þeir. Þetta var nauðsynlegt.   Meðalmanneskjan þarf 2400 hitaeiningar á dag. En ef menn ætla að grennast þurfa þeir að borða minna en 2000 hitaeiningar daglega, kannski 1500-1800. Menn eiga ekki að sögn Báru að borða meira en 14000 hitaeiningar á sjö dögum. Ef við borðum of lítið léttumst við, segir hún. Það er nefnilega ekki galli að fitna, það er hæfileiki líkamans til að bregðast við og ef við gefum honum minna en hann þarf, fer hann að taka af forðanum „Það er ekkert óskiljanlegt við það að við fitnum og það er ekki af því að allir í föðurættinni séu feitir. Þú fitnar ekki af því sem aðrir borða. Þú átt nóg með þig, þó þú farir ekki að fitna af því sem föðurbróðir þinn borðar“, segir Bára og hlær.

Ritstjórn janúar 19, 2016 11:42