Aukakíló á niðursettu verði

Bára Magnúsdóttir hjá JSB hefur í áratugi hjálpað konum að grennast og um þessar mundir eru hjá henni 50 konur, sem vilja léttast. Bára segir að til séu konur sem vilji bara fara í skurðaðgerðir til að léttast, eða láta sjúga úr sér fituna. En í raun og veru sé málið að innibyrða ekki meira en 14000 hitaeiningar á viku. Fyrsta skrefið til að grennast sé samt að taka ákvörðun. „Og þið eigið að hugsa, Það er góð ákvörðun að gera þetta núna. Þetta er einmitt rétti tíminn fyrir mig. Menn verða að hafa brennandi áhuga og ástríðu til að grennast og trúa því að þeir geti náð árangri“, segir Bára sem hefur áratugum saman séð aukakílóin fjúka af konunum sem til hennar koma. Hún segir að með því að mæta á námskeið hjá sér hafi konurnar ákveðið að léttast og hefur í raun bara þrjár reglur sem þær eiga að fylgja.

  • Borða, drekka vatn og hugsa grönn.
  • Aldrei að neita sér um nokkurn hlut.
  • Aldrei gera neitt sem þig langar ekki til.

Þetta úrskýrir Bára þannig að menn segi kannski eins og börnin, eftir að hafa freistast í bakaríinu, „Þetta skeði bara fyrir mér“. En menn þurfi að vera meðvitaðir. Það sé þeirra val að fara í bakaríið. „Og ekki kaupa nammi við kassann, þetta eru aukakíló á niðursettu verði“ segir hún. Það séu 1000 hitaeiningar í 500 gr. af laugardagsnamminu bland í poka, eða álíka mikið og í vel útilátinni veislumáltíð. En maður sé skipsstjóri á eigin skútu og þar sé maður við stjórn. „Það er mikill munur á því hvort þú ert að neita þér um eitthvað eða hvort þú vilt það ekki“, segir Bára, „Ekki breytast í fórnarlömb og ekki reka fólk í burtu, til dæmis vinkonu sem kemur í heimsókn með nýbakaða köku, eða segja“ Æi ég er á þessu námskeiði og verð að…“ og ekki fá ykkur hafragraut ef ykkur finnst hann vondur. Þið hafið tekið ákvörðun og þið bara ráðið þessu“.

Ritstjórn janúar 27, 2016 09:57