Maður verður fyrir alls konar fordómum og vitleysu

Guðrún Helgadóttir rithöfundur situr við að skrifa bók þessa dagana, framhald sögunnar Bara gaman, en þetta er 26. bók Guðrúnar sem er einn virtasti barnabókahöfundur landsins. Hin íslenska Astrid Lindgren. „Ég er búin að vera allt of lengi  með þessa bók, og bæði útgefendur mínir hér heima og í Þýskalandi eru farnir að reka á eftir mér,” sagði Guðrún þegar ritstjóri Lifðu núna leit til hennar í kaffi nýlega. Um síðustu helgi fagnaði svo Guðrún 40 ára rithöfundarafmæli sínu í Borgarbókasafni Reykjavíkur.  Guðrún á að baki langan feril í stjórnmálum sem borgarfulltrúi í fjögur ár og alþingismaður í sextán. Hún varð fyrst kvenna á Íslandi til að gegna hlutverki forseta sameinaðs Alþingis.”Það tók strákana 1000 ár að trúa því að kona réði við það. Og reyndar held ég að ég hafi orðið fyrst til að gegna þessu embætti á heimsvísu, en eftir kjör mitt kom skriða af konum í forsetastól þjóðþinganna, m.a. í Þýskalandi og Bretlandi. Hún á fjögur börn, 14 barnabörn og tvö langömmubörn. „Svo rignir núna yfir okkur  kærustum sem eru hver annarri fallegri, gáfaðri og menntaðri“ segir Guðrún. Ritstjóra lék forvitni á að heyra viðhorf hennar til aldurs.

Maður verður svolítið ósýnilegur

„Danska skáldkonan Tove Ditlevsen sagði þegar hún var orðin gömul: „Innan í mér er lítil stelpa sem neitar að deyja“ og það er nákvæmlega þannig sem þetta er. Ég get ekki breytt því að ég er orðin hundgömul, en mér finnst ég ekkert gömul. Mér finnst ég ekkert mikið hafa breyst. Ytra hylkið, eins og Þórbergur Þórðarson kallaði það, hefur svolítið verið að stríða mér og það er mér verst við. Það er allt í góðu að verða gamall, ef maður hefur góða heilsu. Ég var svo óheppin að brjóta mig fyrir nokkrum árum og það hefur reynst erfitt. Á einhverju stigi máls verður maður svolítið ósýnilegur þegar maður eldist og er farinn að tilheyra minnihlutahópi, þótt maður sé ekki í neinum minnihluta. Ætli þeir sem eru komnir á eftirlaun hér á landi séu ekki um 1/6 þjóðarinnar“.

Til bóta að yngja upp í kvennablómanum

„En það er litið öðruvísi á okkur konurnar þegar við eldumst. Við hættum til dæmis að fá boð um að koma til Krabbameinsfélagsins í skoðun. Ég hef spurt lækna en þeir yppta bara öxlum. Þeir hugsa líklega eins og karlinn í Skagafirði sem heyrði að til stæði að senda konu hans í uppskurð. “Tekur því?” sagði bóndi. “Þetta er nú gömul manneskja.” Óneitanlega breytist staðan í þjóðfélaginu á ýmsa vegu, einkum kvenna. Allt í einu þykir maður orðinn of gamall til að vera á Alþingi en karlarnir geta setið þar til eilífðarnóns. Það þykir hins vegar til bóta að yngja upp í kvennablómanum.Tökum líka fjölmiðlana sem dæmi. Það eru ekki margar konur á miðjum aldri og þar yfir að stjórna þáttum í sjónvarpi. Útvarpið stendur sig betur, enda sjást konurnar ekki þar. Maður sér konur á þessum aldri við stjórnvölinn í sjónvarpi erlendis, en hérna tíðkast þetta einhverra hluta vegna ekki. Fullorðið fólk sem búið er að koma frá sér börnunum og hefur tíma til að sinna starfi sínu ótruflað á ekkert létt með að fá vinnu. Þar eru yfirstressaðir lífsgæðakapphlauparar settir í forgang.

Ungu fólki ekki boðið uppá þetta

„Færi maður sig yfir í tískuheiminn, veðjar hann frekar á ungt fólk. Snyrtivöruframleiðendur gera út á fólk sem þarf bókstaflega ekkert á snyrtivörum að halda, á meðan við sem erum eldri þyrftum frekar að fá eitthvað magnað til að spartsla í hrukkurnar. Það vantar eitthvað í virðingu gagnvart eldra fólki sem einstaklingum.

Ég man til dæmis eftir fréttum frá Sólvangi í Hafnarfirði í fyrravetur, þar sem sagt var frá mikilli notkun svefnlyfja, róandi lyfja og að fólk væri fjötrað niður. Þetta þótti einkennilegt og farið var að athuga þetta. Þetta stafaði þá af því að öll herbergi voru tveggja manna og sambýlingarnir misjafnlega á sig komnir, svo það var dúndrað í blessað fólkið róandi lyfjum og sumir bundnir niður í rúmin. Hvernig er hægt að bjóða fólki uppá annað eins? Það býður enginn yngra fólki uppá þetta. Þetta er náttúrulega svívirðilegt ofbeldi.

Þykir dónalegt ef aldrað fólk fer að draga sig saman og verður ástfangið

Þá er afstaða manna til tilfinningalífs þeirra sem eldri eru einnig sérkennileg. Það þykir nánast dónalegt ef aldrað fólk fer að draga sig saman og verður ástfangið. Hvað er athugavert við það? Ég lét plata mig til að taka þátt í viðamikilli íslensk-amerískri öldrunarrannsókn fyrir nokkrum árum. Þetta var mikil skýrslugerð og ég var spurð ótal spurninga um íþróttir, hreyfingu og hvaðeina sem er hollt fyrir líkamann. Ekkert var gamlinginn spurður um kynlíf sem þó er talið til meiriháttar hollustu. Það er ekki „in“ að svoleiðis fólk sé að sofa hjá. Ég spurði ungan lækni af hverju ekki væri spurt um þetta og aumingja pilturinn ætlaði að velta niður af stólnum, honum brá svo mikið. Þannig verður maður fyrir alls konar fordómum og vitleysu“.

Þarf að breyta hugsanaganginum í þjóðfélaginu

„Það er dásamlegt að fá að lifa lengi og njóta lífsins og ná að fylgjast með afkomendum sínum vaxa úr grasi. Ég get ekki verið mjög leiðinleg því að afkomendur mínir sækjast ákaft eftir að líta inn á Túngötunni. Litlu langömmubörnin rella á leiðinni heim af leikskólanum um að heimsækja langömmu. Enda er sérstakt barnahús í garðinum mínum. En til þess að eitthvað gerist af viti í málefnum aldraðra þarf að breyta öllum hugsanagangi í þjóðfélaginu. Ég hef alltaf verið andstæðingur svokallaðra ellliheimila eins og þau voru rekin. Þau eru sem betur fer að breytast. Helst á gamalt fólk að búa með sínu fólki og taka þátt í daglegri önn eins lengi og það getur. Amma mín var níræð að hjálpa til við húsverkin heima og það var dásamlegt að alast upp með afa og ömmu á heimilinu. Mér finnst eitthvað sorglegt við skylduheimsóknir á elliheimilið á sunnudögum. Þegar ég var í borgarstjórn barðist ég fyrir því að hús yrðu byggð með aukaíbúð fyrir eldra fólkið. Hvers vegna byggja menn ekki blokkir með fjölskylduíbúðum og íbúðum fyrir aldraða saman? Það er hægt að gera þetta á ýmsan hátt.“

Til hvers er maður settur á þessa jörð?

Með aldrinum gerir maður sér grein fyrir að tíminn er á hraðferð frá okkur. Öllu er afmörkuð stund, sagði skáldið. Ég verð að horfast í augu við að ég á ekki marga áratugi eftir ólifaða, kannski bara einn. Þegar maður fær snert af dauðaskelfingunni fer maður að hugsa. Hvernig tek ég á þessum dvínandi fresti ? Ég reyni að taka hverjum degi eins og hann kemur. Reyni að gera eitthvað gott á hverjum degi og vera til einhvers gagns. Það er nú misjafnt hvernig það tekst að vísu. Bara vera, eins og það heitir á fínu máli, hér í núinu. Ekki vera að ergja mig yfir mistökum í fortíðinni eða fremur óvissri  framtíð. Þakka fyrir hvern dag sem ég fæ að lifa. Og maður veltir fyrir sér til hvers  maður sé settur á þessa jörð. Það hefur staðið í mörgum að komast að niðurstöðu um það. Ég held að maður geti ekki gert neitt betra en reyna að njóta dvalarinnar og láta vonandi eftir sig eitthvað sem hefur orðið til góðs. Ég vona að bækurnar mínar verði lesnar eitthvað áfram og að börnin mín klári sig vel í lífinu. Svo er eitt og eitt þingmál sem hefur gert fólki gott. Mér tókst til dæmis að koma í veg fyrir að börn gætu hrakið foreldra sína úr íbúð ef annað þeirra lést. Áður þurfti leyfi barna til að sitja í óskiptu búi. Þetta hefur skipt máli fyrir fólk og lögfræðingastéttin hefur metið þetta við mig, ég veit það. Umboðsmaður barna var líka mitt „baby”.

Ekki hefð fyrir samræðupólitík hér

„Stjórnmálaumræðan hér hefur alltaf verið afskaplega erfið. Það er nefnilega engin hefð fyrir samræðupólitík á Íslandi. Þegar ég bjó í tvö ár í Skotlandi kynntist maður öðru. Þar vissu kunningjar að ég var sósíalisti. „Oh well indeed,“ sögðu menn og fannst ekkert athugavert við það, en Íslendingar voru strax komnir upp á háa c-ið ef farið var að ræða um pólitík. Ég vorkenni stjórnmálamönnum satt að segja alltaf svolítið. Ég lenti í mörgum erfiðum málum í pólitíkinni, eins og hvalamálinu til dæmis. Ég var á móti því að hlusta ekki á vísindamenn heimsins, vildi fara varlega í hvalveiðar og var hötuð fyrir það. Eitt sinn var ég í viðtali í sjónvarpinu, þar var með mér ágætur vestfirðingur. Ég reyndi að skýra mitt mál, að ég vissi ekki hversu margir hvalir væru í sjónum en að ég vildi hlusta á vísindamenn sem væru mér vitrari um hvalastofna og hvalveiðar. Þá glaðnaði yfir vestfirðingnum. Heyriði sagði hann, manneskjan hefur ekki hugmynd um hvað eru margir hvalir í sjónum, hún veit ekkert hvað hún er að tala um, og ég varð undir í umræðunni. Það er heldur betur að hefna sín núna. Þetta er dæmigerð íslensk pólitísk umræða. Öll umræða hér er óskaplega óþroskuð. Hér komast menn upp með að röfla dögum saman um störf forseta þingsins og tefja fyrir því að hægt sé að afgreiða mál.  Ég var lengi í Norðurlandaráði og það sló mig hversu mikill munur var á umgengni þingmanna þar hvers við annan. Þeir sýndu mun meiri virðingu en við gerum hér heima. Menn töluðu ekki illa hver um annan, þó þeir væru ósammála. Ég missti þingsætið 1995, ég lét Ögmundi Jónassyni eftir 2. sæti listans og ætlaði að komast inn í því 4. eins og ég gerði í upphafi, en það var of mikil bjartsýni. Ýmsir svokallaðir félagar vildu nýjar konur, en þeim hefur nú ekki haldist vel á þingsætunum og raunar sumum strákunum ekki heldur. Mátulegt á þá. En ég fór bara heim að skrifa. Það var ómetanlegt að hafa að einhverju öðru að hverfa, en ég saknaði þingsins. Það var yndislegur vinnustaður og ég átti óskaplega góð ár þar“.

Hægt að verða ástfanginn alla ævi

Það er farið að líða á daginn þegar ritstjóri Lifðu núna þakkar Guðrúnu fyrir kaffibollann og tygjar sig til brottfarar. Getur samt ekki stillt sig um að bæta við einni spurningu. Er hægt að verða ástfanginn á öllum aldri?

„Já, alveg hikstalaust”, segir Guðrún, „ gríðarlega”. Það breytist ekki nokkurn skapaðan hlut og fólk getur lifað blómlegu kynlífi alla ævi.  Ég veit ekki hver það var sem fann það upp, að kynlíf fólks lognaðist útaf á miðjum aldri. Þvílíkt bull. Þetta er ein af þessum óþolandi goðsögnum um gamalt fólk, en fólk hefur kokgleypt þessa vitleysu eins og það bull að nær ógerlegt sé að hætta að reykja. Ég trúði því lengi sjálf. Svo hætti ég bara 15.október 2008 og hef ekki snert sígarettu síðan. Án þess að nýta mér nikótín- þetta eða hitt sem gróðaöflin plata fólk til að nota í staðinn fyrir tóbak og þetta var ekkert erfitt. Maður á ekki að trúa öllu sem manni er sagt án þess að hugsa. Ég hef stundum sagt í galsa að það eina sem hafi breyst við að hætta að reykja, sé að ég hafi orðið bæði heimskari og leiðinlegri við það. En það á ekki að trúa svona bulli, þetta er bara innihaldslaus staðhæfing, eins og hugmyndir manna um ástina og aldurinn“.

 

Ritstjórn desember 29, 2014 12:20