Vilja verða 100 ára eða eldri

Á sjötta áratug síðustu aldar voru lífslíkur fólks 68 ár í Bandaríkjunum. Í dag eru helmingslíkur á að barn þar í landi sem er 10 ára í dag nái 104 ára aldri, þetta kemur fram á vefnum aarp.org.

Flestir Bandaríkjamenn 65 ára og eldri myndu vilja verða 100 ára eða eldri – að gefnum ákveðnum forsendum. Meira en helmingurinn hefur áhyggjur að því að svo háum aldri fylgi of mikil  heilsufarsleg og fjárhagsleg áhætta. Þetta kemur fram í nýrri könnun sem Háskólinn í Phoenix gerði  sem tók til rösklega 2000 manns.

Í könnuninni kom fram að 89 prósent fólks 65 ára og eldri vildi verða 100 ára  ef það héldi andlegri og líkamlegri heilsu. 78 prósent sögðust vilja ná svo háum aldri ef maki þeirra eða aðrir ástvinur yrðu svo gamlir. 71 prósent sagði að það væri í lagi að lifa svo lengi ef þeir litu þokkalega út.

 En 54 prósent hópsins taldi of marga óvissuþætti þegar kæmi að heilsu þeirra og fjárhag og því væri það ekki þess virði að verða svo gamall. Næstum helmingur hópsins taldi að það yrði enginn til að hugsa um þá ef þeir lifðu í 100 ár eða lengur.

Margir í hópnum sögðust vera tilbúnir til að breyta lífsháttum sínum ef það mætti verða til að þeir lifðu lengur. Tveir þriðju sögðu að þeir væru tilbúnir að borða hollari mat, og álíka margir sögðust tilbúnir að fara að hreyfa sig daglega. 65 prósent kváðust tilbúnir að breyta svefnvenjum sínum til betri vegar.

Hins vegar voru aðeins 38 prósent tilbúnir til að spara meira svo þeir ættu einhverja peninga lifðu þeir svo lengi, 34 prósent sagðist reiðubúin að flytja til að búa nær fjölskyldu sinni og vinum.  27 prósent var reiðubúin að eignast nýja vini sem lifðu heilbrigðu lífi og fjórðungur var tilbúinn að vinna fram yfir hefðbundinn eftirlauna aldur.

Ritstjórn janúar 16, 2019 07:34