Kaldur hugur en hlýtt hjarta

Guðrún og Guðni Th. Jóhannesson á þingi SI.

Guðrún og sambýlismaður hennar Hans Kristján.

Hafi einhver haldið að minnsta hætta væri á að fráfarandi formaður Samtaka iðnaðarins, Guðrún Hafsteinsdóttir, hefði orðið handbendi einhverra afla er það mikill misskilningur. Guðrún var hvött af félagsmönnum SI til að gefa kost á sér til formanns á móti þáverandi formanni sem hafði setið í tvö ár. Hún aftók í fyrstu að gefa kost á sér af því hún hafði ekki áhuga á að fara í mótframboð gegn konu. Eftir nokkra umhugsun og mikla hvatningu lét hún þó til leiðast en í hennar huga voru líkurnar ekki með henni en annað kom í ljós. Hún sat öll sex árin og fékk endurnýjað umboð árlega. Síðasta árið fékk hún 96% fylgi félagsmanna sem var staðfesting á að almenn ánægja hefði verið um störf hennar. En varstu ekki hrædd um að karlarnir hefðu viljað þig í starfið af því þeir héldu að þú værir leiðitöm? “Nei ég hafði engar áhyggjur af því. Eflaust hafa einhverjir haldið það en komust snarlega að raun um annað,” segir Guðrún og brosir kankvís. Hún bætir við að hún væri ekki heiðarleg ef hún segðist ekki finna fyrir eftirsjá eftir að hún hætti sem formaður SI en hún er sátt. Nú taki önnur og spennandi verkefni við

Upphafið á stjórnarsetunum

  “Aðalheiður Héðinsdóttir kom í heimsókn til okkar í Kjörís 2010 með FKA og þegar hún kvaddi sagðist hún ætla að hringja í mig fljótlega,” segir Guðrún. “Ég sagði henni endilega að gera það einhvern tímann. Svo leið og beið og næsta febrúar hringdi hún og spurði hvort ég hefði ekki áhuga á að vinna fyrir Samtök iðnaðarins. Þetta var 2011 og Aðalheiður hafði verið önnur konan til að komast í stjórn Samtakanna og hún segir: “Nú er ég að klára tímabilið sem ég má sitja í stjórninni, þ.e. 6 ár, og ég ætla ekki að láta strákana fá þetta sæti aftur,” sagði Aðalheiður ákveðin og hvort ég væri ekki til í að gefa kost á mér. “Fyrstu viðbrögð mín voru að þessu nennti ég nú ekki en af því ég er sannarlega talsmaður þess að konur eigi að taka að sér ábyrgðarmikil störf sagði ég; “Jú jú, ég skal gera þetta.” Þá segir Aðalheiður: “Ok frábært. Ertu þá til í að senda umsóknina inn núna af því tíminn er að renna út á eftir.” Ég fékk því ekki tíma til að velta þessu mikið fyrir mér því á meðan hún var í símanum sendi ég umsóknina inn. Svo liðu tvær vikur og þá hringir Aðalheiður og spyr hvernig gangi í kosningabaráttunni. Ég kom af fjöllum því ég hafði ekki áttað mig á því að slegist væri um þessi stjórnarsæti. Ég hef unnið mikið í kosningum með Aldísi systur og þekki því ágætlega til hvernig unnið er að þeim markmiðum.. Þar með reykspólaði ég af stað og flaug inn í stjórnina. En ef Aðalheiður hefði ekki hringt í mig á sínum tíma hefði ég aldrei fetað þennan veg.”

Var kastað út í djúpu laugina

Á kajak á Stokkseyri fyrr í sumar. „Maður þarf ekki að fara langt til að upplifa ævintýrin“

Þegar Guðrún var 23 ára lést faðir hennar fyrirvaralaust úr heilablóðfalli, þá aðeins 59 ára gamall. Hafsteinn Kristinsson, stofnaði Kjörís 1969 ásamt fleirum en fyrirtækið hefur verið fjölskyldufyrirtæki frá upphafi. Guðrún starfaði hjá föður sínum öll uppvaxtarárin og síðasta árið hans vann hún mjög þétt með honum. Hafsteinn hafði ekki verið veikur svo andlát hans kom öllum í opna skjöldu. “Þar sem ég hafði starfað mikið með pabba árið áður en hann lést var eðlilegt að ég tæki við starfi hans en ég kunni auðvitað ekki að vera forstjóri. Daginn áður en hann dó, sem var föstudagseftirmiðdagur, höfðum við verið að ræða tiltekið mál og ég segi; “Jæja, nú ætla ég að drífa mig heim.” Þá segir hann: “Já, Guðrún mín, svona er business,” sem urðu síðustu orð hans til mín í þessu lífi. Daginn eftir kom mamma að honum þar sem hann hafði verið að vinna úti í skúr. Við systkinin fengum fyrirtækið því í fangið með engum fyrirvara og þurftum að þreifa okkur áfram. En þetta gekk bara mjög vel og þétti hóp okkar ef eitthvað var. Mamma hafði ekki starfað í fyrirtækinu en þarna varð hún stjórnarformaður og hefur verið það síðan, orðin áttræð.”

Flóamennskan

Í sjóstangveiði á Lofoten í Noregi. „Lofoten er eins og Vestfirðir á sterum. Ég var alveg heilluð af að upplifa þetta svæði.“

Guðrún segir að faðir þeirra hafi gefið þeim systkinunum  stærstu gjöfina sem hann gat gefið þeim þegar hann lést sem var að nota tímann og meta lífið því það sé ekki sjálfgefið. “Pabbi dó upp á dag tveimur vikum eftir brúðkaupið mitt. Hann var hrókur alls fagnaðar í veislunni og minningar allra um hann eru svo góðar. Við systkinin erum þakklát fyrir að hafa átt þennan frábæra pabba. Við erum blessunarlega laus við kapphlaup um veraldlega hluti því okkur var kennt að meta það sem við hefðum því við vissum ekki hver staða okkar yrði á morgun sem hefur margsannað sig, ekki síst undanfarið,” segir Guðrún. “Við erum alin upp í svokallaðri “Flóamennsku” sem þýðir að maður eigi að vera stoltur í hljóði,” segir Guðrún þegar nefnt er að hún hafi hlotið meiri vegtyllur en meðalkonan á Íslandi. “Auðvitað er ég þakklát og ánægð með ferilinn hingað til. Ég hef alltaf haft að leiðarljósi í mínum störfum að horfa á heildarhagsmuni fremur en sérhagsmuni. Þegar maður starfar fyrir marga félagsmenn eins og til að mynda hjá Samtökum iðnaðarins má maður aldrei missa sjónar á þessu.“

Heilræði frá Madonnu

“Betra er að vera tígrisdýr í einn dag en rolla alla ævi,” er motto frá Madonnu sem Guðrún er hrifin af. Hún hefur þessa fínu mynd af tígrisdýri sem skjámynd á símanum sínum til að minna sig á hverjum degi á að láta ekki af gildum sínum, sama á hverju gengur.

Lærðu það sem nærir þig

Systkinin Sigurbjörg, Guðrún, Aldís og Valdimar á áttræðisafmælisdegi móður þeirra.

Þegar Guðrún var 13 ára gömul var kvennalistinn að þeysast fram á sjónarsviðið og Guðrún drakk í sig tíðarandann. Í hópi Kvennalistakvenna var Sigríður Dúna Kristmundsdóttir og Guðrún tók strax eftir þessari skeleggu og glæsilegu konu og langaði að vera eins og hún þegar hún yrði stór. Guðrún komst svo að því að Sigríður Dúna var mannfræðingur og sagði foreldrum sínum að hana langaði að læra mannfræði. Þau voru ekki upprifin og pabbi hennar sagði strax að hún yrði að hugsa um að “verða eitthvað” sem myndi tryggja  framtíð hennar og nefndi prest, hjúkrunarfræðing, lögfræðng eða lækni o.s.frv.,” segir Guðrún og brosir. “Hann var sannarlega af gamla skólanum en alveg með gildin sín á hreinu,” segir Guðrún. “Ég held að við systkinin höfum fengið í veganesti þennan trausta gamla tíma sem hefur gagnast okkur mjög vel í lífinu.” Kjöríssystkinin ólust upp í þessu litla samfélagi, Hveragerði, þar sem faðir þeirra rak stærsta fyrirtækið í bænum og margir bæjarbúar hafa komið að  með einum eða öðrum hætti í gegnum tíðina. Guðrún fór eftir ráðleggingum foreldranna og undirbjó sig undir framtíðina með því að fara í Verslunarskólann til að byrja með. En þegar faðir hennar var látinn og lífið án hans tók við, segir Guðrún að stefnubreyting hafi orðið í lífi hennar. Hún fór fljótlega að hugsa um að hefja nám í mannfræði sem hafi þó tekið sinn tíma því hún fór í nokkur barneignarfrí, flutti til útlanda tímabundið og var þess vegna orðin 37 ára þegar hún lauk mannfræðináminu frá HÍ. „Mannfræðin hefur gagnast mér ótrúlega vel í því sem ég hef tekið mér fyrir hendur,” segir hún. “Að setja sig inn í rekstur fyrirtækja allt í kringum landið er viss mannfræðistúdía,” segir hún.

Mismunandi langanir og þrár þeirra ungu

Guðrún hefur gaman að matargerð og er hér á matreiðslunámskeiði í Toskanahéraði á Ítalíu.

“Ég nefni leið mína að náminu sem mig langaði í sem dæmi um það að ef þú hefur sterka tilfinningu og sannfæringu áttu að fylgja henni. Mannfræði gengur fyrst og fremst út á að reyna að skilja hegðun og hugmyndir fólks. Hún snertir alla mannlega strengi og ég hef ótrúlega gaman af að stúdera fólk. Það gat ég sannarlega nýtt mér sem formaður Samtaka iðnaðarins. Skemmtilegasti parturinn af því starfi var einmitt að hitta félagsmenn sem starfa hringinn í kringum landið í margvíslegum atvinnugreinum. Þegar ung manneskja spyr mig um ráð varðandi menntun þá segi ég hiklaust: “Lærðu það sem hugur þinn stendur til og stattu þig vel í því, ekki einblína á launaumslagið. Það er svo miklu meiri hamingja fólgin í gefandi starfi þótt launin séu lægri en í starfi sem gefur þér meira í vasann en nærir þig ekki andlega. Dæmið um forstjórann með háu launin sem sagði við mig að sig hefði alltaf langað til að vera bóndi situr alltaf í mér. Er ekki sorglegt að hafa eytt ævinni í að vinna við eitthvað sem nærði þig ekki andlega? Þannig er tímanum illa sóað.“

Á fermingardegi Hauks með börnunum sínum þremur þeim Hafsteini, Dagnýju Lísu og Hauki.

Notaði eigin fjölskyldu sem dæmi.

“Í ræðu á Iðnþingi fyrir nokkrum árum notaði ég eigin fjölskyldu sem dæmi,” segir Guðrún. “Þannig er að frumburður minn, Hafsteinn, hefur alltaf verið með rosalegan tækja- og bílaáhuga og frá því hann var barn hefur hann rifið allt í sundur og sett saman aftur til að skilja hvernig hluturinn virkaði. Það gátu verið brauðristar eða sjónvörp og þannig lærði hann. Þegar hann var búinn með 10. bekk sagði hann okkur að sig langaði í Vélskólann. Við fórum að skoða það og ég komst að því að meðalaldur nemenda þar var frekar hár eða um 27 ár og mér þótti hann ekki passa þar inn aðeins 16  ára svo ég hvatti hann til að klára stúdentinn fyrst og þá væri honum allir vegir færir. Hann fór þá í Menntaskólann á Akureyri en þegar hann hafði verið þar í tvö ár, þá orðinn 18 ára og sjálfráða tilkynnti hann okkur að hann ætlaði í Vélskólann. Hann þurfti ekki lengur að spyrja og gat gert það sem hann vildi. Í námi hans þurfti ég ekki að hafa áhyggjur af að áhuginn væri ekki nægur heldur þurfti hann að velja og hafna atvinnutilboðum því skorturinn á iðnmenntuðu fólki var svo mikill. Ég tók þetta nærtæka dæmi sem sönnun þess að ekki ætti að hvetja alla í langskólanám.”

Mismunandi áherslur

Guðrún kynnir árlegan ís ársins í Fjarðarkaupum í janúar með Elínu Wöndu Guðnason. „Fátt finnst mér skemmtilegra en að hitta viðskipti og gleðja þá með ís.“

Guðrún varð nýverið fimmtug og er því komin í hóp miðaldra. Hún segir að hún sé löngu farin að hugsa um hvernig hún ætli að gæta sína að verða skemmtilegt gamalmenni þótt ekki sé komið að því alveg strax. „Það langar engan aðumgangast áhugalaust og neikvætt fólk svo ég ætla ekki að verða þannig,“ segir hún og hlær. „Ég legg mig fram um að fylgjast vel með öllu því sem er að gerast og setja mig inní það sem unga fólkið okkar er að fást við. Ég vil alls ekki verða gamaldags óþarflega snemma, segir þessi lifandi kona á miðjum aldri sem hefur tekið áskoranir þegar þeim hefur verið kastað til hennar. Það hefur hún gert með kaldan hug en hlýtt hjarta.

 

 

 

 

 

 

 

Ritstjórn ágúst 27, 2020 22:04