Sagan af Kela – Guðrún Hafsteinsdóttir

Guðrún Hafsteinsdóttir.

Guðrún Hafsteinsdóttir formaður Samtaka lífeyrissjóða skrifar.

Nýlega deildi góður vinur minn raunum sínum á Facebook sem þýðir að í raun deildi hann raunum sínum með alnetinu í öllu sínu veldi. Hann lýsti í löngu máli hvað hann væri búin að láta plata sig mikið í gegnum tíðina í þágu mannúðar … aðallega þó konunnar sinnar. Vandamálið var að hann hefur í mörg ár glímt við miklar hrotur. Það hefur svo sem ekki truflað hann mikið en það hefur aftur á móti haft töluverð áhrif á eiginkonu hans. Hann rakti í löngu máli allar tilraunir sínar til að létta líf eiginkonu sinnar svo nætursvefn hennar yrði betri. Hann sagðist reyndar vera búin að eyða töluverðum fjármunum í þetta vandamál og sýndi hann hinar ýmsu græjur sem hann hefur keypt aðallega í erlendum netverslunum. Hann byrjaði á því að kaupa sér nefúða sem hann átti að úða í nefið til að minnka hroturnar. Það virkaði ekki neitt. Þá fór hann að leita fyrir sér á netinu og fann þar sniðugt, lítið plaststykki sem hann stakk upp í nasirnar en það var ekkert sniðugt því það datt úr nefinu eitt sinn, lenti í munni hans og hrökk næstum ofan í hann svo næstum endaði illa. Þá fann hann apparat úr silikoni, mjúkt og fínt og tróð því í nefið. Ekki virkaði það. Þá keypti hann sér teygju sem hann vafði þvers og kruss um höfuð sitt en það virkaði ekki og kafnaði hann næstum því þar sem hann gat ekki opnað munninn. Það fór því í ruslið. Þá lét hann sérsmíða góm fyrir morðfé en þurfti síðan að fara í tannviðgerð stuttu seinna og þá gat hann ekki notað góminn auk þess virkaði hann ekki neitt. Svo sá hann á netinu græju sem honum leist vel á. „Konan verður rosa ánægð með þetta“ Græjan var frekar stór og með innbyggðri viftu sem kveikt var á og blés tækið þá súrefni í nefið en það virkaði ekki auk þess var tækið svo stórt að hann var eins og nashyrningur með það. Tækið passaði líka illa og vildi hann meina að það væri ekki hannað fyrir íslenska karlmenn heldur fíngerðari menn í fjarlægri heimi. Þá keypti hann sérstaka plástra frá Kína sem hann límdi á nefið en það gerði ekki nokkurt gagn. Á endanum gafst hann upp á þessu öllu og færði sig bara í annað herbergi og allir eru sáttir. Svo fer hann bara í gamla svefnherbergið sitt þegar hann þarf aðeins að „spjalla“.

Guðrún Hafsteinsdóttir febrúar 22, 2021 07:58