Lifum lengur – 108 ára bloggari

Guðrún Hafsteinsdóttir.

Guðrún Hafsteinsdóttir formaður Samtaka lífeyrissjóða skrifar.

Nýverið var sýnd í sjónvarpinu mynd sem fjallaði um einn vinsælasta bloggara Svíþjóðar Dagnýju Carlsson. Það er svo sem ekki í frásögur færandi þó fólk segi frá lífi sínu og tilveru á samfélagsmiðlum en það sem þykir óvenjulegt í þessu tilfelli er að bloggarinn er 108 ára gömul kona í Stokkhólmi. Í myndinni birtist Dagný okkur sem einstaklega jákvæð og glaðlynd kona. Forvitin, fróðleiksfús og áhugasöm um allt sem mannlegt er. Fyrir mér er Dagný Carlsson áminning um að við hættum aldrei að lifa. Hvert einasta æviskeið er heillandi og við þurfum í raun aldrei að hafa áhyggjur af því þó eitt ár eða áratugur bætist á okkur.

Ég hafði aldrei heyrt um þessa skemmtilegu konu en hún hefur ekki vikið úr huga mér síðan ég sá myndina. Daginn eftir var ekki um annað talað í morgunsundinu í sundlauginni minni í Hveragerði. Eldsnemma á morgnana mætir sami hópur í sund og nýtur þess bæði að synda en ekki síður að hitta annað fólk og fara yfir stöðuna í samfélaginu og lífi hvers og eins. Einn fastagestur sundlaugarinnar er hann Ásgeir sem syndir daglega árið um kring í hvaða veðri sem er. Kemur gangandi eða á hjóli og lætur fátt stöðva sig þó hann sé orðinn 93 ára gamall. Ásgeir minnir mig á mikilvægi virkni og hreyfingar í hvert skipti sem ég sé hann.

Fyrir hálfu ári síðan fagnaði ég hálfrar aldar afmæli. Það þykir í sjálfu sér ekki merkilegt en þegar ég hugsa til baka hundrað ár eða svo að þá var meðalaldur okkar Íslendinga lítið hærri en 50 ár. Ég er því afskaplega þakklát fyrir það að búa í landi sem hefur aukið lífaldur og lífsgæði íbúanna svona stórkostlega á síðustu áratugum. Á síðustu 30 árum hefur meðalaldur íslenskra karla hækkað um 8 ár og það er ekki lítið og er nú 80 ár en meðalaldur íslenskra kvenna er um 84 ár.

Í vetur horfði ég á áhugaverða þætti eftir Helgu Arnardóttur sem hétu „Lifum lengur“. Þar rannsakaði Helga langlífi í mörgum löndum. Það sem flestir áttu sammerkt að mínu mati í þáttunum sem náð höfðu háum aldri var; fæðan byggðist mikið á grænmeti og hollum olíum, fólk drakk 1-2 rauðvínsglös á dag, hreyfing var dagleg rútína, fólk var trúað og ræktaði trú sína og síðast en ekki síst var fólk í góðum félagslegum samskiptum við vini og vandamenn. Mér þóttu þetta merkilegar niðurstöður og mér leið eins og þarna hefði mér verið gefinn vegvísir í átt að því að lifa lengi og lifa vel.

En þar sem ég sit nú og velti fyrir mér mínum hækkandi lífaldri get ég ekki annað en brosað yfir því að ef ég næ að lifa jafn lengi og vinkona mín Dagný Carlsson að þá á ég að minnsta kosti 58 ár ólifuð og ég því ekki hálfnuð með mína ævi!

Ég ætla að geyma myndina af Dagnýju í huga mér og eiga hana að sem fyrirmynd og nota næstu fimmtíu ár vel. Lifa í núinu, kanna heiminn, rækta tengsl við ættingja og vini, borða góðan mat, dansa, eignast ný áhugamál en umfram allt ætla ég að halda í gleðina og njóta þess að lifa meðan ég fæ að lifa. Lífið er gjöf og það er okkar hvernig við förum með þá gjöf.

Guðrún Hafsteinsdóttir september 7, 2020 07:54