Harmræn og launfyndin

Hugmyndin að bók Hlínar Agnarsdóttur, Hilduleikur, kviknaði þegar móðir hennar lést fyrir þremur árum. Þá fór Hlín að hugsa um það hvernig aðstæðurnar verði þegar hún verður sjálf kominn á þennan aldur sem hún kallar í bókinni “aflifunaraldur”.

Um bókina Hilduleik er sagt í kynningu frá bókaforlaginu Ormstungu að í henni sé ,,Spennandi, harmræn og launfyndin framvinda með óvæntum endi sem kallast á við óvenjulegt pestarástand samtímans með gagnrýnum undirtón”.

Hlín og systkini hennar voru búin að sækja um vistunarmat fyrir móður þeirra og fá höfnun þrisvar sinnum. ,,Það var komið að því að hún færi á hjúkrunarheimili en við fengum þrisvar sinnum ljósritað bréf með nákvæmlega sama orðalaginu þar sem beiðninni var hafnað án skýringa og við það gátum við ekki unað,” segir Hlín.

Hilduleikur er þriðja skáldsaga Hlínar Agnarsdóttur. Í bókinni býr Hlín til nýtt tungumál yfir umönnun aldraðra og til verður fyrirtæki sem sér um alla umönnunina fyrir ríki og aðstandendur. Þetta fyrirtæki býr svo til nýjan orðaforða til að fegra aðgerðir sínar. Þetta er framtíðarsaga og lýsir manneskjunni Hildu sem er að glíma við þetta fyrirtæki og reyna að átta sig á því hvernig hún á að skilja bréfin sem hún fær frá því. Þegar fólk er komið á ákveðinn aldur á það ekki rétt á að búa heima hjá sér. Þá tekur fyrirtækið yfir og fólki er komið fyrir í svokallaðri ellikúpu. ,,Þetta er eiginlega framtíðarhryllingur en þessi veruleiki er ekki langt undan,” segir Hlín og minnist óþægilegrar reynslu með eigin móður. ,,Ég er að blanda saman því sem er að gerast og því sem gæti mögulega gerst. Hvernig eiga vestræn samfélög að bregðast við því þegar hópur eldri borgara er orðinn stærsti þjóðfélagshópurinn, stærri en þeir vinnandi eins og nýjar tölur frá Noregi sýna. Þess vegna fékk ég þessa hugmynd að kynna til sögunnar persónu, sem er læknir að mennt og fær þessa snilldarhugmynd að búa til fyrirtæki sem hann nefnir Eilíf framtíð. Þar er öllum öldrunarmálunum sinnt á forsendum fyrirbæris sem kallað er viðskiptaverufræði. Þessi fræði fjalla um það hvernig hægt er að nýta hagfræðiþekkingu til að búa til arðvænleg fyrirtæki í heilbrigðiskerfinu,” segir Hlín.

Hér á eftir fer kafli úr bókinni:

Jóhanna hringdi í kjölfarið á bréfi Angeliku Dobrescu og vildi endilega drífa Hildu á opið hús til að skoða Al­varium senum eða Ellikúpur. Hún talaði fjálglega um þetta einstaka húsnæði sem var úthugsað fyrir fólk eins og Hildu sem þyrfti að fara að minnka við sig:

Þær eru svo vel hannaðar Ellikúpurnar, litlar en snotrar, bjartar og fallegar með yfirbyggðum súrefniskassa á litlum svölum, það er hugsað fyrir öllum þörfum íbúanna, en umfram allt eru þær látlausar og smekklegar. Þú þarft ekki að taka neitt með þér nema fötin, ekki einu sinni sængina eða koddann en auðvitað máttu taka nokkra persónulega muni sem þú getur ekki hugsað þér að vera án eins og myndina af Ragnari fyrir framan Fujiyama. Þú þarft auðvitað að grisja fataherbergið því skápaplássið er takmarkað og engin húsgögn eru leyfð, einfaldlega vegna þess að fólk staldrar oftast ekki svo lengi við í Ellikúpunum svona á lokasprettinum, sagði Jóhanna, og hló vandræðalega þegar hún áttaði sig á hvað þetta var óheppilega orðað.

Hún átti það til að orða hlutina klaufalega eins og þegar hún sagði í viðtali að gamalt fólk væri ekkert öðruvísi en annað fólk, bara í eldri og slappari húðpoka. Facebook fór á yfirsnúning og eftir það var hún ekki kölluð annað en „húðpokinn“ á samfélagsmiðlunum.

En hún lét það ekki slá sig út af laginu, ekkert frekar en annað óheppilegt sem hrökk upp úr henni á óviðeigandi augnablikum.

Sko, ef þú ert heppin, hélt Jóhanna áfram, geturðu kannski fengið íbúð með útsýni sem ég veit að þú munt sakna mest úr Sólheimum en þá þarftu að drífa þig að skoða, þær fara svo fljótt, jafnvel loft- og lyftuhræddir fá sér kúpur hátt uppi. Við Gunnar viljum að þér líði vel þessi síðustu ár þín og sért sátt og ég get fullvissað þig um, elsku Hilda mín, að flestir sem fara í gegnum þetta ferli finna fyrir miklum feginleika þegar allt er um garð gengið.

Eftir þessa innilegu og kærleiksríku ræðu Jóhönnu leið Hildu eins og handónýtum húðpoka. Hún var reyndar búin að skoða Ellikúpurnar á vefnum og sagði að þær væru lítið annað en geymsluhólf stillt á lágmarkshita til að gera ferðina yfir í kæliskúffu líkhússins aðeins bærilegri. Einn gluggi í öðrum enda hólfsins hleypti síðustu birtunni inn í líf viðskiptamanna. Ellikúpunni var skipt upp í tehólf, svefnhólf og úrgangshólf. Fimmta flokks plastparkett á litlum gólf- fletinum, húsgögnin föl eins og flensa á læknabiðstofu og það sem verra var: speglar og klukkur sem veggskraut, sú stærsta á veggnum fyrir ofan sófann, örugglega einn metri í þvermál, önnur stafræn í loftinu fyrir ofan rúmið, tifandi eins og tímasprengja, hægt að stara á sekúndurnar mjaka sér úr sporunum um andvökunætur. Sú þriðja á veggnum fyrir ofan hálft matarborðið því hálfar manneskjur verðum við öll þegar við erum orðin ein. Alveg ein.

Eina klukkan sem hafði komið Hildu að gagni var klukkan í myrkraherberginu þegar hún var að framkalla hér áður fyrr. Annars var tíminn fyrir henni eitt af líf- færum heimsins sem tifaði í takt við hennar innra stundaglas. Og fátt var jafn skelfilega þreytandi og speglar í óhófi. Þeir voru eins og óþolandi sambýlismenn, þessir sem eru vitni að öllu atferli manns, smáu sem stóru, frá morgni til kvölds. Hún skildi ekki hvaða tilgangi allir þessir speglar ættu að þjóna.

Jú, sjáðu til, þeir vega upp á móti þrengslum og einmanaleika, sagði Jóhanna. Þú ert aldrei ein í kúpunni, þú sérð sjálfa þig alls staðar, speglarnir stækka hólfið og lengja ævikvöldið, speglarnir eru bæði sjónvarp og tölva, engir takkar og engar fjarstýringar, ekkert sem þú þarft að læra á, engin lykilorð sem þú þarft að muna, þú talar bara við þá, en svo er líka hægt að fá klukkulausar Ellikúpur án spegla en þeim er oftast úthlutað til viðskiptamanna sem þola ekki sjálfa sig eða þjást af alvarlegu öldrunarþunglyndi eða til þeirra sem eiga það til að detta, fólks sem neytir áfengis og lyfja í óhóflegu magni og fer sér að voða þegar það sér sjálft sig í spegli. Þú getur valið, Hilda mín, hvort þú vilt fá speglahólf eða hlutlaust hólf en mundu að þú verður alltaf drottning í þinni eigin kúpu, þar ræður þú öllu eins og býflugnadrottning! Getur sleikt þitt hunang hvenær sem þú vilt, bíað þig út og lifað unaðslífi, aldrei svöng, alltaf södd, gengið í endurnýjun lífdaga! Ellikúpan er nýir Sólheimar!

 

Ritstjórn desember 10, 2020 16:18