„Ég held að ég hafi aldrei selt jafn marga mannbrodda og í vetur. Þeir hafa hreinlega flogið út,“ segir einn skemmtilegasti skósmiður landsins, Hafþór Edmond Byrd en hann er með skóvinnustofu í Garðastræti. Það hefur ekki farið fram hjá nokkrum manni að það hefur oft verið hált í vetur og erfitt að fóta sig. Margir hafa dottið og meitt sig. „Ég hef heyrt af nokkrum sem hafa beinbrotnað af því þeir duttu í hálku,“ segir Hafþór. Svo eru aðrir sem þora ekki út fyrir hússins dyr af ótta við að detta. Það er hins vegar ástæðulaus ótti því það eru til margskonar gripklær og grófir sólar til að verjast hálkuslysum.
Hægt að nota innahúss
Hafþór og samstarfsmaður hans Logi Arnar Sveinsson draga fram magar tegundir af broddum og sólum. „Þetta er mjög vinsælt,“ segja þeir og draga upp karbítsóla með stífri gúmmíteygju. Henni er smeygt upp á tábergið og aftur fyrir hælinn. Það má ganga á sólunum innan húss, það þarf því ekki að rífa þá undan skónum þegar fólk kemur inn í hús. Kosturinn er líka sá að það heyrist ekki mikið í karbítsólunum þegar gengið er um innandyra. Sólarnir kosta 3300 krónur parið og endast í einn til tvo vetur. Dýrustu og öflugustu broddarnir kosta 4700 krónur en það eru nokkurskonar skóhlífar með öflugum broddum. Góðir í mikilli hálku og ef fólk er dettið. Svo eru til broddar sem hægt er að hreyfa til og fela undir hælnum þegar fólk kemur inn í hús.
Broddar fyrir háa hæla
Pjattrófur sem vilja ganga í háum hælum geta líka fundið brodda við hæfi. Fyrir þær fást nettir broddar sem smeygt er upp á tábergið. Þeir duga til að konur geti skotist út úr bíl og inn í hús án þess að detta. „Þeir eru svo nettir að það er hægt að stinga þeim í veskið þegar inn er komið,“ segir Hafþór. Fyrir áratug eða meira þóttu broddar hallærislegir og eiginlega bara fyrir sérvitringa, en það viðhorf á ekki lengur upp á pallborðið. „Núna lít ég þannig á að það sé jafn vitlaust að vera án mannbrodda eða grófra sóla og vera á bíl á sumardekkjum í hálku,“ segir skóarinn að lokum og hlær dátt.