Fjögur atriði sem stuðla að farsælum efri árum

Wikepedia skilgreinir farsæla elli sem „líkamlega, sálræna og félagslega vellíðan á efri árum“.  Rannsóknir hafa einnig sýnt farsæl efri ár séu samspil þriggja þátta;  góðrar heilsu og lítilla veikinda, góðrar andlegrar og líkamlegrar virkni og virkrar þáttöku í lífinu.  En hvernig náum við þessu, hvernig getum við átt farsæl efri ár? er spurt á bandaríska vefnum Sixtyandme.com og við stiklum á stóru í svörunum við því, í þessari grein.

  1. Samfélagið

Flestir hafa áttað sig á mikilvægi félagslegra tengsla í Covid faraldrinum sem nú geisar í heiminum.  Þar sem við sitjum öll heima hjá okkur og dreymir um betri tíma þar sem við getum hitt fjölskyldu og vini áhyggjulaust.

Rannsóknir sýna einmitt að félagsleg tengsl hafa mikil áhrif á vellíðan fólks og heilsu.  Einmanaleiki er stór áhættuþáttur í félagslegri hnignun og jafnvel ótímabærum dauða, hjá fólki sextugu og eldra.  Samfélagið og félagsleg tengsl við aðra eru sérstaklega mikilvæg fyrir konur. Þó fjölskyldan sé stór er það ekki endilega ávísun á góð félagsleg tengsl.  Fjölskyldan getur verið byrði á konum og þær skyldur sem henni fylgja. Því eru vinir og vinkonur líka mikilvægar. Góð félagsleg tengsl, hvort sem það er við fjölskyldu, nágranna, vinnufélaga eða æskuvini skipta því miklu máli fyrir farsæl efri ár.

Það er líka nauðsynlegt að umgangast fólk með svipuð gildi og þú hefur sjálfur.  Fólk með sömu áhugmál og fólk sem dregur fram það besta í þér, hjálpar þér að vaxa og vera þú sjálfur.

  1. Halda áfram að vaxa

Alveg eins og hárið og neglurnar vaxa þá gerir heilinn það líka alla ævi, með nýrri reynslu og lærdómi.  Samkvæmt kenningum er hægt að skapa nýjar taugaleiðir í heilanum fram til dauðadags.  Að halda sér virkum með því að læra eitthvað nýtt er því nauðsynlegt.  Skoðaðu vel hvað skiptir þig máli, hver gildi þín eru og taktu stefnuna áfram.  Gerðu áætlun um að læra og upplifa eitthvað nýtt.

Nýr reynsluheimur. Að gera eitthvað nýtt er skemmtilegt og þarf ekki að vera erfitt.  Farðu aðra leið en venjulega, hvort sem það er í heimsókn eða í sund.  Farðu á námskeið eða heimsæktu nýjan stað.  Reyndu að komast út fyrir þægindarammann, þar bíða ævintýrin.

Aftur í skóla. Jafnvel eftir sextugt getur skólinn skipt miklu máli.  Kannski ekki eins og í gamla daga en til að halda sér skörpum ævilangt.  Prófaðu eitthvað sem þig hefur alltaf langað til að læra, verið forvitinn um, en ekki haft tíma til að sinna, með því að fara í skóla eða á námskeið.

Sökktu þér í menninguna. Önnur leið er að kynna sér menningu sem þú hefur alltaf verið forvitin um.  Að sökkva sér í eitthvað nýtt, upplifa eitthvað annað hvort sem það er matur, tónlist eða að kynnast nýju fólki, getur verið mjög gefandi.

Áhugamál. Þau eru mikilvæg. Tónlist og dans koma gráu sellunum á mjög góða hreyfingu og æfa alls konar samhæfingu.  Reyndu að fara út fyrir rammann og finna það sem þér finnst skemmtilegt. Það skiptir miklu til að halda sér klárum í kollinum, að æfa heilann eins og hvern annan vöðva í líkamanum.

  1. Gefðu til baka.

Sjálfboðaliðastörf eru mjög gefandi og veita oft mikla vellíðunartillfinningu. Það að stunda sjálfboðaliðastarf reglulega er gott fyrir heilsuna og gefur lífinu tilgang.

Rannsókir hafa sýnt  lægra hlutfall þunglyndis meðal fólks sem bíður sig fram til starfa og einnig minni líkur á það falli frá fyrir aldur fram.  Hvort sem það er að aðstoða fjölskyldumeðlim, gefa til góðgerðamála eða aðstoða við hitt eða þetta,  getur það veitt mikla vellíðan á efri árum.

  1. Heilsan er nr. eitt tvö og þrjú

Já, við vitum öll hvað við eigum að gera til að halda heilsu, borða hollt og hreyfa okkur.  En það er ekki alltaf jafn auðvelt.  Oft þarf ekki mikið og það er auðveldara að byrja smátt og taka lítil skref í einu frekar en að stökkva út í djúpu laugina af fullum þunga.

Einbeittu þér að einu í einu, byrjaðu á stuttum göngutúr eða sundferð eða þeirri hreyfingu sem þú getur hugsað þér og finnst skemmtileg.  Smám saman verður þetta að vana og hægt að fara lengri ferðir.  Eins með matinn, reyndu að velja hollari kostinn fram yfir þann óhollari. Borðaðu lítið í einu og áður en þú veist af er súkkulaðið hætt að laumast með heim í innkaupakerrunni.

 

 

Ritstjórn janúar 28, 2021 08:34