Óska eftir að þau verði ekki eyðilögð

Nýlega lauk hjá Endurmenntun Háskóla Íslands námskeiði um ritun ævisagna og æviminninga, sem Páll Valsson stýrði. Blaðamaður Lifðu núna ræddi  við þrjá nemendur að námskeiðinu loknu.

“Ég fór aðallega á þetta námskeið vegna þess að ég er að rita sögu af því þegar tengdafaðir minn leitaði föður síns í ein fjörtíu ár”,  segir Helgi V. Viðarsson Biering þjóðfræðingur sem sótti námskeið Endurmenntunar HÍ um ritun ævisagna og æviminninga.  “Faðir hans var bandarískur hermaður sem kom hingað í seinni heimstyrjöldinni, þá um 17 ára gamall. Hann kynntist ungri 16 ára stúlku sem hann varði töluverðum tíma með. Þegar það svo kom skipun með örskömmum fyrirvara um að hann ætti að fara frá Íslandi ásamt hersveit sinni var hún orðin ólétt en ekki búin að láta hann vita, og hún lét hann aldrei vita. Hann var sendur héðan og til Guam í Kyrrahafinu án þess að fá tækifæri til þess að kveðja hana. Eftir að tengdapabbi komst á legg mundi hann að fínu frúrnar í Reykjavík kölluðu á eftir honum sem barni „Kanakrógi“ og fór að reyna að fá upplýsingar frá móður sinni sem vildi ekki segja honum neitt. En honum tókst að finna föður sinn og þeir náðu nokkrum árum saman áður en tengdafaðir minn lést fyrir rúmum tíu árum síðan. Faðir hans lést svo fyrir tveimur árum, þá 98 ára gamall. En í dag eru góð samskipti á milli Íslensku og Amerísku fjölskyldnanna”.  Helgi segist kominn vel á veg í upplýsingaöflun, en það hafi komið sér mest á óvart hversu erfitt var að nálgast upplýsingar um það sem Jóhanna Knudsen kom nálægt, en amma konu hans lenti í klónum á Jóhönnu.

Helgi V.Viðarsson Biering               Dögg Pálsdóttir                          Pétur Eggerz

Dögg Pálsdóttir lögmaður segir að það hafi strax kveikt hjá henni áhuga þegar hún sá námskeiðið auglýst. Ekki vegna þess að hún ætlaði að skrifa ævisögu eða endurminningar. Það hafi verið undirtitill námskeiðsins: Siturðu uppi með fróðleik um ættingja, vini eða tímabil sem þú veist ekki hvað skal gera með, sem varð til þess að hún skráði sig strax.

“Foreldrar mínir voru aðskilin á tímabilum í þeirra hjúskap og voru greinilega dugleg að skrifast á. Þessi bréf höfðu þau haldið upp á og varðveitt vandlega. Þegar heimili þeirra var tekið upp eftir að pabbi fylgdi mömmu eftir á hjúkrunarheimili fundust fjöldamargar möppur með þessum bréfum, frágengnum af mikilli alúð og kostgæfni eftir árum. Ég spurði pabba einhverju sinni hvað hann vildi að við gerðum við þessi bréf og hann sagði okkur ráða því.
Sömuleiðis fundust í  fórum foreldranna önnur bréf, m.a. milli móðurforeldranna sem og ýmis minningarbrot sem aðallega amma mín hefur  skrifað. Því sem amma hafði skilið eftir fylgdi ósk til mömmu,handskrifuð utan á umslagið sem varðveitti þessi skjöl: Gömul sendibréf, þau eru gamlar heimildir og minningar, óska að þau verði ekki eyðilögð. Ég tók að mér að varðveita þessi gögn og datt í hug að námskeiðið gæti gefið mér hugmynd um hvort og þá hvernig væri best að vinna úr þeim, fyrst og  fremst fyrir okkur afkomendurna”.

Pétur Eggerz  var einn þeirra sem sótti námskeiðið.

“Þar sem ég starfa sem leiðsögumaður og leikari hefur undanfarið ár verið fremur óvenjulegt hjá mér og verkefnin ekki beinlínis komið á færibandi. Mér fannst því tilvalið að nýta tímann til að hrista aðeins upp í hausnum á mér og sækja námskeið hjá Endurmenntun Háskólans. Þar sem ég hef alla tíð fengist nokkuð við skriftir og vil gjarnan gera meira af því leitaði ég að námskeiði í þeim geira. Mér leist vel á þetta námskeið bæði vegna þess að ég þekki til Páls og hans verka og eins hef ég á undanförnum árum leiðst meira inn í sögulegt grúsk og skrif, vann meðal annars tvö leikverk um Skaftárelda, annars vegar Eldklerkinn, einleik um séra Jón Steingrímsson, og hinsvegar barnaleikritið Eldbarnið. Þar þurfti ég að vinna mikla heimildavinnu og finna leiðir til að koma sögulegum upplýsingum í áhugaverðan og lifandi búning. Þarna sá ég því möguleika á að fá aðeins meiri nasasjón af vinnubrögðum við skrif upp úr atburðum liðins tíma og þá vonandi hvatningu til frekari og fjölbreyttari verka”.

En hvað þótti Pétri gagnlegast við námskeiðið?

“Fyrst og fremst fannst mér örvandi að taka þátt, vera með í umræðum og fara að velta fyrir mér mismunandi nálgun við að rita minningar eða æviþætti. Þá var ekki síst hvetjandi að þurfa að setjast niður og skrifa út frá eigin minningum. Það er gjarnan þannig að hugurinn fer fyrst almennilega af stað þegar sett er á mann pressa og ekki val um annað en skila af sér efninu. Við það fannst mér ég einnig átta mig betur á að oft liggur meiri efniviður í einföldum minningum eða frásagnarbútum en í fyrstu kann að virðast og eins varð ég var við að um leið og maður byrjar að velta þessum hlutum fyrir sér og skrifa niður texta fylgja fleiri hugmyndir í kjölfarið”.

Dögg sagði að námskeiðið hefði verið bæði skemmtilegt og áhugavert. Hún gæti hiklaust mælt með því.

“Það gagnlegasta við námskeiðið fyrir mig var að koma mér af stað í að hugsa betur útí það hvernig sé best að vinna úr þeim fróðleik sem felst í þessum gögnum sem til eru. Ég byrjaði seint á síðasta ári að skrifa upp þessar heimildir,  fyrst og fremst þær sem komu frá afa og ömmu, bæði sendibréfi þeirra og minningarbrotin hennar ömmu. Sem byrjun var það aðgengilegt verkefni að takast á við. Auðvitað var ekki alltaf auðvelt að lesa úr skriftinni og stöku sinnum réð ég einfaldlega ekki við það en ég hafði
mikla ánægju af því verki og er ánægð með að eiga þessar heimildir núna á aðgengilegra formi. Páll Valsson hvatti mig eindregið til að halda því áfram að skrifa upp þetta efni. Með því sæji ég best hvað þar er að finna. Það er því næsta skref hjá mér að ráðast til atlögu við að skrifa upp bréfin milli mömmu og pabba. Svo sjáum við til með framhaldið. En þetta  námskeið ýtti mér áfram veginn í þessari skemmtilegu vinnu”.

Helgi Biering sagðist helst hafa fengið það út úr námskeiðinu að hann þyrfti ekki að vera fastur í skotheldum heimildum, heldur mætti færa í stílinn og skálda jafnvel upp stuttar samtæður sem enginn gæti hvort eð er véfengt, þar sem allir hlutaðeigandi væru fallnir frá.

Páll Valsson kennir nemendum á námskeiðinu í Endurmenntun áður en samkomubann var hert

 

 

Ritstjórn mars 30, 2021 06:57