Mundi ekkert frá því hann var barn

Erna Indriðadóttir

Erna Indriðadóttir fjölmiðlakona skrifar

Aldrei hefði mér dottið það í hug þegar ég var ung kona, að ég ætti eftir að skrá mig á námskeið um ritun ævisagna og æviminninga. En enginn veit sína ævina fyrr en öll er og nú er ég búin að sitja á slíku námskeiði í nokkur skipti hjá Endurmenntun HÍ ,en því er enn ekki lokið.

Ég hef á síðustu árum lesið nokkrar bækur, þar sem fólk rekur endurminningar sínar, eða segir sögu forfeðra sinna og formæðra, foreldra eða annarra skyldmenna. Sumir skrifa styttri texta, en aðrir fylla heilar bækur. Þeir sem skrifa eiga það yfirleitt allir sammerkt að vera komnir yfir miðjan aldur.

Mér hefur þótt þetta afar áhugavert lesefni, jafn spennandi og skemmtilegustu skáldsögur.  Eftir að hafa starfað meira og minna við blaðamennsku allt mitt líf, sé ég betur og betur að fólk sem ég tek viðtöl við hefur frá svo mörgu að segja. Það á hver einasta manneskja sína sögu, sem er ólík sögu allra annarra. Það væri hægt að rita ævisögu margra þeirra sem ég hef rætt við, kannski allra.

Það er líka þannig að ég á mér mína sögu, móðir mín á sína sögu og faðir minn skrifaði bók um föðurætt sína. Á síðustu árum hefur mér fundist að ég ætti að setja eitthvað niður á blað um líf mitt, ekki til að gefa út ævisögu mína, alls ekki, heldur til að gefa börnunum mínum og barnabörnum sem eiga örugglega eftir að velta því fyrir sér þegar þau komast á minn aldur, hvernig manneskjur þau voru afi og amma? Þá væri gott að einhverjar upplýsingar lægju fyrir. En efst í huga var mér þó að fá að vita meira um líf móður minnar, sem er komin á tíræðisaldur og man sem betur fer ennþá margt frá sinni löngu ævi sem gaman væri að færa  í letur. Ég endaði á að hljóðrita við hana nokkur viðtöl, en þau lýsa einungis broti af lífshlaupi hennar.

Á námskeiðinu eru sóttvarnir hafðar í heiðri

Það hefur ekkert orðið af því ennþá að ég færi að skrifa eitthvað niður um mitt líf eða móður minnar. Einhvers staðar verður að byrja. Það var þess vegna sem mér datt í hug að skrá mig á námskeið í Endurmenntun um ritun ævisagna og æviminninga. Bara til að kynna mér þetta efni og aðferðir. Kannski gæti það komið mér á sporið að skoða líf mömmu og mitt, þannig að ég gæti látið afkomendum mínum eftir eitthvað skriflegt um lífshlaup okkar.

Það voru margir nemendur sem settust á skólabekk á þessu námskeiði sem Páll Valsson kennir, en hann hefur sjálfur skrifað nokkrar ævisögur.  Þetta er virkilega gaman. Það eru aðvitað til alls kyns ævisögur, eins og allir vita sem hafa lesið slíkar bækur. Og hvernig á að skrifa þær, á að segja frá í fyrstu persónu eða þriðju persónu?  Eru til gömul bréf eða dagbækur?  Hvernig voru tímarnir þegar manneskjan var uppi sem við ætlum að skrifa um? Hvað mótaði hana og hvers vegna varð hún eins og hún varð? Ef menn ætla að skrifa um einhvern annan en sjálfan sig, þarf að vinna töluverða undirbúningsvinnu og afla heimilda.

Við vorum beðin um að skrifa æskuminningu á námskeiðinu sem á að lesa upp í síðasta tímanum. Mér brá hálf við þetta, því ég mundi hreint ekki neitt frá því ég var barn. Páll sagði okkur einmitt á námskeiðinu frá manni að nafni Georges Perec, ég vona að nafnið sé rétt stafsett, sem skrifaði æskuminningar sínar þrátt fyrir að hann myndi ekkert úr eigin æsku. Það var rosalegt, því hann lenti í því að þurfa að leiðrétta æskuminningarnar. En ég fór að leggja höfuðið í bleyti og tókst að fiska upp alls kyns minningar. Þær voru samt meira eins og leiftur, eða púsluspil  sem þurfti að leggja.  Út varð þessi æskuminning frá sumrinu 1962 sem ég læt fylgja hér með til gamans og vona svo sannarlega að ég þurfi ekki að leiðrétta síðar meir.

Kjarnorkuógnin

Ég sit út undir fjósvegg á Geldingsá þar sem ég er í sveit níu ára gömul og tíkin Týra sest við hliðina á mér. Sólin skín og flugurnar suða. Ég er hrædd, en Týra er hjá mér og hjartað hættir smám saman að ólmast í brjóstinu. Ég  fer ég að horfa í kringum mig á fjólubleiku fíflana sem vaxa meðfram fjósveggnum. Þeir eru svo fallegir. Mér finnst þeir fallegustu blóm sem ég hef séð og ég hef hvergi séð þá nema hér. Af hverju vaxta þeir bara hér og hvergi annars staðar?  Ég horfi líka út á hól og sé Láru frænku mína ganga frá húsinu þangað niðureftir, í búið sitt. Þar eru kjálkar sem eru kýr og kindahorn sem eru kindur. Þarna eru gripahús og hlaða og við höfum oft unað okkur þarna tímunum saman við leik í búinu. Þar ríkir friður, nema þegar litlu frændsystkinin vilja fá að vera með og rugla öllu sem við erum að gera.

Amma Láru, hún heitir líka Lára, kemur út með stórt vaskafat með blárri rönd  og  stráir úr því  korni handa hænunum sem eru á vappi á hlaðinu. Hún er í stóru víðu og síðu pilsi og lopapeysu utanyfir, með klút um höfuðið, sem hún bindur fyrir ofan ennið. Hún er á gúmmiskóm, gengur í rólegheitum  í kringum hænurnar og syngur „Í vor kom ég sunnan með sólskin í hjarta, hún seiddi mig dýrðin á landinu bjarta…“. Hún syngur svo hátt og snjallt að ég er viss um að það hljóti að heyrast um allan fjörðinn og yfir til Akureyrar!  Það sem mér finnst lagið fallegt – og sorglegt. Ég á æ síðan eftir að muna þennan söng og þegar ég heyri lagið í útvarpinu sé ég hana Láru fyrir mér í glampandi sólinni, syngja fyrir allan Eyjafjörðinn sem var sléttur eins og spegill þennan dag. Ég efast um að jafn fagur söngur hafi heyrst í frægustu óperuhúsum heimsins  „Við íslensku vötnin er fegurð og friður og fagnandi ríkir þar vornæturkliður……“ Söngur villiandarinnar eftir Davíð Stefánsson átti heima í þessari sveit.

Ég er víðsfjarri þeim löndum þar sem mikið er talað um stríð, um kjarnorkustyrjöld, þar sem ég sit undir fjósveggnum í friðsælli sveitinni. Kjarnorkuógnin er alltaf í fréttunum og ég reyni að hlusta ekki, reyni jafnvel að halda fyrir eyrun svo ég heyri ekki þessar skelfilegu fréttir. Það er talað um Kúbu og Rússa og þulurinn í útvarpinu segir að líkurnar á  kjarnorkustríði fari vaxandi. Allir hlusta á fréttirnar í útvarpinu í hádeginu um leið og við borðum í stóra eldhúsinu, að þessu sinni steinbít sem bóndinn hafði veitt á trillunni sinni úti á firðinum. Það er erfitt að halda fyrir eyrum á meðan maður borðar. Ég verð hræddari og hræddari. Ég vil ekki að fólk sjái það og flýti mér út, kalla á Týru og við göngum út að fjósinu, þar heyrist ekki í útvarpinu. Mér finnst ég ekki geta talað við nokkurn mann um þessa angist. Dagarnir líða, enn er stöðugt talað um kjarnorkustríðið sem kunni að vera yfirvofandi. Veðrið í firðinum breytist. Sólin hverfur. Það fer að rigna, það er stöðugt kalsaveður og ég ákveð að strjúka úr sveitinni. Það er rigning þegar ég legg af stað og blautt á. Ég er bara á peysunni í rigningunni og verð fljótlega blaut, líka í fæturna, og mér verður kalt, en ég held áfram því það er mikið í húfi, ég ætla  nefnilega að vera heima hjá mömmu minni þegar kjarnorkustríðið skellur á.

 

 

Ritstjórn mars 16, 2021 08:04