Sambúðarsamningar fyrir þá sem ekki láta pússa sig saman

Dögg Pálsdóttir

Þegar fólk tekur saman á seinni helmingi ævinnar er staðan oft ólík því sem gerist þegar fólk giftir sig á unga aldri og stofnar fjölskyldu saman. Eldra fólk er oft með meiri eignir og á gjarnan uppkomin börn.  Sumir eru í fjarbúð, en aðrir fara að búa saman. Stundum ruglar fólk saman reytum, en aðrir hafa aðskilinn fjárhag og aðskildar eignir. „ Það eru alls kyns hlutir sem þarf að hugsa út í þegar fólk tekur saman á efri árum, segir Dögg Pálsdóttir lögmaður. „Jafnvel þótt viðkomandi par hafi allt á hreinu, geta börnin komið og farið að gera kröfur þegar foreldarnir falla frá. Það er því skynsamlegt að gera samkomulag um fyrirkomulag fjármálanna. Ef fólk giftir sig er hægt að gera kaupmála, en ef fólk skráir sig í sambúð er hægt að gera sambúðarsamning“, bætir hún við.

Dögg segir að sambúðarsamningar séu iðulega gerðir en það hafi ekki oft reynt á þá fyrir dómstólum. Þeir séu hins vegar gildir eins og hverjir aðrir samningar, nema eitthvað sérstakt komi til.

Við sambúð stofnast enginn erðaréttur. Það er hins vegar hægt að ívilna sambúðarmaka með erðaskrá. Erfðaréttur er algerlega bundinn við hjúskap og blóðtengsl. „Sambúð skapar aldrei erfðarétt þannig að ef fólk með börn er í sambúð og annað þeirra deyr, renna allar eignir þess sem lést til barnanna“, segir Dögg sem ráðleggur þeim sem fara í sambúð á efri árum að gera sambúðarsamning, ekki síst í þeim tilvikum þegar annar flytur inn í eign sem hinn á.   Hún segir óskynsamlegt að stofna til sambúðar eða hjónabands án þess að fara yfir þessa hluti. Það geti endað í miklum leiðindum, hvort sem aðilar ákveða að ljúka sambúðinni eða sambandinu lýkur með andláti annars þeirra.

 

Ritstjórn maí 11, 2021 13:14