Hjónaskilnuðum fer fjölgandi í hinum vestræna heimi og það gildir einnig um hjónaskilnaði eldra fólks. Margir sem eru komnir á miðjan aldur, leita nýrra leiða fyrir sambönd sín í dag. Á að skilja ef hjónabandið er orðið leiðinlegt, eða á að reyna að endurvekja gamlan blossa? Menn finna sér ýmsar leiðir í því. Um þetta er nokkuð fjallað á síðum fyrir eldri borgara í Bandaríkjunum og hér kemur hugleiðing sem byggist að hluta á grein af systursíðu Lifðu núna í Bandaríkjunum. aarp.com.
Nokkur ráð til að endurlífga hjónabandið
Að endurlífga samband sem er tekið að dofna byrjar á erfiðum spurningum. Hvernig hjónaband vil ég? Hvernig er hjónabandið sem ég er í? Svörin geta valdið kvíða. En þau geta einnig myndað grundvöllinn að nýju sambandi sem er meira í takt við umrædda einstaklinga eins og þeir eru í dag. Ekki í takt við það hvernig þeir voru fyrir 25 árum. Hér koma nokkur ráð varðandi leiðir til að endurvekja hjónabandið.
Byrjið á byrjuninni. Hugsaðu um sambandið eins og það var í byrjun. Hvað gerði að verkum að þið hrifust hvort af öðru? Hvað var það við konuna þína sem heillaði þig? Geturðu náð sama sambandi við hana aftur? Farðu í rannsóknarleiðangur í gegnum lífið. Skoðaðu fullt af gömlum myndum og myndböndum af ykkur tveimur þegar þið voruð sem hamingjusömust. Lesið bréf sem þið senduð hvort öðru. Rifjið upp hvað það var sem gerði að verkum að þið smulluð saman. Það getur verið að þið hafið fjarlægst hvort annað, að þið hafið einbeitt ykkur of mikið að börnunum og vinnunni í áranna rás. En ef þið viljið endurheimta það sem þið áttuð saman, ætti það ekki að koma í veg fyrir að þið getið aftur orðið náin.
Gerið eitthvað saman. Það má vera hvað sem er, allt frá því að hámhorfa á alla Crown þættina á Netflix eða sækja Íslendingasagna námskeið í Endurmenntun. Bara að það sé eitthvað sem þið gerið saman. Eitthvað sem verður „okkar“ en ekki „mitt“. Uppgötvið eitthvað nýtt, það kemur í ljós hvort ykkur líkar það eða ekki, en drífið ykkur í að gera það saman.
Haldið okkar og mínu aðskildu. Þó það sé mikilvægt að gera eitthvað nýtt saman, er alveg jafn nauðsynlegt fyrir báða aðila að halda í áhugamál sín og það sem þeir eru vanir að fást við. Það er rétt að hafa á hreinu hvað þið ætlið að gera saman og hvað þið ætlið að gera sitt í hvoru lagi. Setjið hvoru tveggja á dagskrá. Þú getur sagt við makann. „Mig langar að gera eitthvað með vinkonum mínum tvö kvöld í viku. Það væri frábært ef þú gerðir eitthvað slíkt líka“.
Umgangist fleiri. Það getur verið yfirþyrmandi að vera of mikið tvö ein saman, jafnvel fyrir þá sem eru virkilega hamingjusamir. Það er örvandi að hitta aðra. Bjóðið fólki að vera með ykkur, bæði hjónum og einstaklingum. Farið út með öðrum öðrum, skreppið í stutt ferðalög með vinum, bjóðið mismunandi hópum í mat, farið í sumarleyfi með uppkomnu börnunum. Allt þetta bætir nýrri vídd við samband sem auðveldlega getur virst full einhæft og úr sér gengið.
Gerðu ráð fyrir hægfara breytingu en ekki byltingu. Hjónabönd verða ekki skyndilega að einhverju sem þau hafa aldrei verið. Fólkið sem á í hlut breytist heldur ekki svo glatt. Reynið að gera breytingar í rólegheitum. Bjóðið makanum í óvissuferð um helgi. Verið innileg í ferðinni. En ekki búast við 360 gráðu snúningi. Ef makinn þinn hefur aldrei viljað fara með þér í leikhús á langri samleið, fer hann ekki að taka uppá því á efri árum.
Lifið hamingjusöm til æviloka – í sitt hvoru lagi.
Ann og David eru skólabókardæmi um fólk sem leitaði nýrra leiða í sambandinu. Óvenjulegt samband þeirra hófst með erfiðleikum í hjónabandinu. Lísa var ekki hamingjusöm og vildi breytingar. Eftir 25 ár. Hún komst að þeirri niðurstöðu að hún vildi ekki búa lengur með manninum sínum. Dagleg samskipti þeirra einkenndust af biturð. David vann heima og Ann fannst hún ekki hafa nokkurt pláss. Þegar börnin þeirra voru uppkomin og flutt að heiman, fór hún að skyggnast um eftir húsi fyrir sjálfa sig, án þess að láta hann vita.
„Þegar ég var að skoða íbúðirnar og fór að hugsa um hvernig það yrði að skilja og sundra fjölskyldunni, varð ég mjög döpur“ segir hún. Var þetta virkilega nauðsynlegt? Kannski þyrftum við bara meira pláss. Mér fannst það strax rétta leiðin“. Hún ræddi þetta við manninn sinn og sagði „Mig langar að athuga hvort við getum ekki endurnýjað sambandið, mig langar að athuga hvort það getur gengið“.
Þau fóru að skipuleggja lífið án þess að búa saman. David yrði áfram á þeirra gamla heimili og þau myndu kaupa hús fyrir Ann rétt hjá. Þau hafa haft sömu rútínuna í sjö ár. Hún gistir hjá honum þrjú kvöld vikunnar. Hann gistir hjá henni einu sinni í viku, en kemur í mat tvö önnur kvöld. Þau hittast ekkert á miðvikudögum, en samræma dagskrár beggja og það gildir einnig um sumarfríin.
Að búa sitt í hvoru lagi, hefur leyst alla vega vandamál og þau hafa orðið nánari tilfinningalega. „Það kemur stundum upp ágreiningur, en hann er ekki gangi alla daga vikunnar. Við höfum gefið hvort öðru rými þannig að við getum notið þess sem virkar í sambandinu en dregið úr því sem ekki gerir það. Við erum opnari og heiðarlegri við hvort annað“, segir Ann.
Að hjón búi í sitt hvoru húsinu er flókið og dýrt fyrirkomulag. En það eru til einfaldari leiðir til að lífga hjónabandið við, segir hjónabandsráðgjafi sem rætt er við í bandarísku greininni. Fólk á miðjum aldri er opnara en áður fyrir sveigjanlegu fyrirkomulagi. Það er líklegra til að íhuga fjarbúð og taka sumarfrí í sitt hvoru lagi“ segir hann.
Nýtt valdajafnvægi.
Það er oftar en ekki konan sem ræður því hvort það er þess virði að bjarga hjónabandinu. Þær ráða því líka hvort hjónabandiu lýkur með skilnaði. Miðaldra konur taka meira frumkvæði í lífi sínu en áður að mati hjónabandsráðgjafans. Ástæðan fyrir því er sú að nýjar kynslóðir kvenna eru orðnar sjálfstæðari og ekki lengur háðar öryggi hjónabandsins. Valdahlutföllin hafa þannig breyst. Konurnar vilja vera í hjónabandi sem þær langar að vera í, ekki hjónabandi sem þær neyðast til að hanga í. Þær vilja gott kynlíf, tilfinningalegt samband og nánd. Þetta eru nýjar kröfur.
Raunveruleikinn er hins vegar sá að jafnvel þó bæði hjónin vilji endurlífga hjónabandið, þá er það ekki alltaf mögulegt. Það sem ræður mestu um það, er hvort hjónabandið var gott frá byrjun. Sum sambönd eru ekki lífvænleg. Ef fólk var mjög ástfangið í upphafi eru líkurnar á að hægt sé að bjarga hjónabandinu meiri. Þetta snýst um hvort menn vilja í einlægni eitthvað sem þeir áttu áður. Sum pör vita ekki hvort þau vilja það og það er ekki gott, að mati hjónabandsráðgjafans.