Allir á rafskutlum

„Það eru allir á skutlum úti, þetta er alþjóðlegt farartæki eldri borgara. Íslendingar eru hins vegar svo pjattaðir að þeir vilja frekar sitja úti í horni, en nota hjálpartæki. Ég hikaði við það fyrsta árið en svo vildi ég ekki lengur vera fúll á móti og nota allt sem ég get fengið, göngugrind og önnur öryggistæki“, segir Wilhelm Wessman fyrrum hótelráðgjafi, þar sem blaðamaður Lifðu núna situr með þeim hjónum og drekkur kaffi á palli fyrir utan íbúðina þeirra í 105 Reykjavík. Í garðinum fyrir utan pallinn er rafskutla, en Wilhelm og eiginkona hans Ólöf Wessman hafa verið mikið saman á rafskutlum í sumar. Þau fara um allt, fara niður í miðbæ, út í Sundahöfn, inní Laugardal  og kaupa kannski inn í leiðinni. Wilhelm segir að Svíar séu búnir að gera rafskutluna að skyldu fyrir hreyfihamlað fólk. „Þeir telja þetta meira öryggi en að fólk hökti þetta áfram með stafi“, segir hann.

Höfðu Esjuna útaf fyrir sig

Þau Ólöf og Wilhelm voru vön því að gera flest alla hluti saman. Þau gengu mikið og stunduðu sund. Þau eru útivistarfólk og þegar þau bjuggu í Mosfellsbæ með börnin sín, segjast þau hafa haft Esjuna út af fyrir sig. „Við gengum sjálf og með börnin upp og niður og mættum kannski 1-2 manneskjum“, segja þau. „Við unnum saman í útlöndum og höfðum oft ekki nema félagsskap hvors annars. Við höfum verið sjálfum okkur nóg“, bætir Wilhelm við. Þetta breyttist hins vegar þegar Wilhelm greindist með vöðvabólgusjúkdóm, sem leggst á vöðvana og eyðileggur þá. „Hjá mér eru þetta upphandleggs- og lærvöðvarnir“ segir Wilhelm, sem á ekki lengur gott með að gang.

Nýr heimur opnaðist

Ólöf og Wilhelm ánægð að geta ekið saman á rafskutlunum

Rafskutluævintýri þeirra hjóna hófst með því að sonur Wilhelms gaf honum rafskutlu og hann fór að nota hana heimavið og í næsta nágrenni við húsið þar sem þau Ólöf búa. Þau fóru svo til Tenerife skömmu fyrir síðustu áramót og þá opnaðist fyrir þeim nýr heimur. „Við leigðum tvær rafskutlur og gátum allt í einu aftur farið allt saman“, segja þau. Wilhelm segir að ferðaþjónustan á Tenerife sé mjög vel skipulögð. Í fyrstu hafi það helst verið unglingar sem fóru um á rafskutlum. „Þeir voru að koma við á börunum og á endanum bannaði lögreglan þeim að vera á skutlum. Það voru eingöngu eldri borgarar og hreyfihamlaðir sem máttu vera á þeim. Ég var orðinn svo slappur vegna vöðvasjúkdómsins og gat lítið gengið en þetta var alveg nýtt líf þegar við komum út“, segir hann.

Ekið á rafskutlu inná veitingastaði

Þau segjast hafa getað farið meðfram allri ströndinni á rafskutlunum og stundum hefði verið hægt að aka á skutlunum inná veitingastaði og sitja á þeim við borð!! Það er bannað að keyra skutlurnar undir áhrifum áfengis, þannig að þau urðu að stilla barheimsóknum á skutlunum mjög í hóf.  Þegar heim var komið sótti Wilhelm um það hjá Sjúkratryggingum Íslands að fá styrk til rafskutlukaupa en Ólöf fékk rafskutluna sem þau áttu áður. Það hefur sannarlega viðrað til rafskutluaksturs í sumar og þau hafa notað þær óspart. „Þær eru rafknúnar“, segja þau „Annað okkar tengir úr eldhúsglugganum en hitt út um gluggan á aukaherberginu“. Þau búa á jarðhæð og geyma skutlurnar fyrir framan húsið.

Kappklædd í dásamlegu veðri

Ólöf er svolítið slæm í fótum en getur gengið, en hún segist vera með Wilhelm í þessu. „Við förum út nánast á hverjum degi“, segir hún og svarar því aðspurð að rafmagnsreikningurinn hafi ekki hækkað við þetta að heitið geti. „Það eina sem ég set útá er að þurfa að vera kappklædd í úlpu með trefil og húfu, þegar veðrið er dásamlegt. En menn þurfa að klæaða sig vel,alveg eins og þarf þegar menn eru úti á hjóli. Skutlan fer á 15 kílómetra hraða, sem er góður skokkhraði“, segir hún. Skutlurnar sem þau eru á draga um 50 kílómetra, en straumurinn er fljótur að fara,  ef raki kemst að rafhlöðunni. Þær eyða líka meiru ef farið er á þeim upp brekkur.  Þau segja raunhæft að ætla að þau komist 35-40 kílómetra á hleðslunni.

Reikna með að leggja skutlunum yfir veturinn

Þeir sem selja rafskutlur hér á landi eru til dæmis,  Öryggismiðstöðin, Fastus og Eirberg. Það er hægt að fá þær í þremur stærðum og verðið er mismunandi. Skutlan sem Wilhelm sótti um að fá að kaupa kostaði 500.000 krónur en styrkurinn frá Sjúkratryggingum Íslands var 420.000 krónur. Þau segjast ekki sjá fyrir sér að þau noti skutlurnar yfir vetrartímann í snjó og hálku. Wilhelm segir hins vegar í lagi að vera á þeim þó það rigni svolítið. En þau reikna með að leggja þeim yfir veturinn.

 

 

Ritstjórn ágúst 15, 2019 08:49