Gaf út fyrstu skáldsöguna sjötug

Á þrítugsaldri skrifaði Anne Youngson bók í hádegishléum í vinnunni. Handritið lá alltaf ofan í skúffu. Þegar hún fór á eftirlaun skrifaði hún fyrstu skáldsögu sína og var hún tilnefnd til virtra bókmenntaverðlauna í Bretlandi.

Í viðtali við The Guardian á dögunum segist Youngson hafa orðið hissa þegar umboðsmaður hennar sagði henni að útgefandi hefði fengist að skáldsögunni. „Ég sagði: „Vilja þeir ekki hitta mig?“ Ég var sannfærð um að þegar þeir uppgötvuðu hvað ég væri gömul myndi viðhorf þeirra breytast.“

Youngson var þá 69 ára og 70 ára þegar þessi frumraun hennar, Meet Me at the Museum (Hittu mig á safninu), var gefin út. Eðlisávísunin sagði henni að aldurinn hlyti að vera fyrirstaða. „Ég hélt að þeir myndu horfa á mig og hugsa: „Ó, Guð, hvernig eigum við að markaðssetja þetta?“

Önnur skáldsaga hennar, Three Women and a Boat (Þrjár konur og bátur), kom út í fyrra. Nú þegar hún er 73 ára er hún hálfnuð með þriðju bókina — þ.e.a.s. ef handritið í skúffunni er ekki talið með, sem hún skrifaði fyrir þrítugt. Á þeim tíma voru börnin hennar tveggja og fimm ára og skriftir voru bara áhugamál sem hún fór leynt með.

Youngson var yfirverkfræðingur hjá bílaframleiðandanum Rover í Bretlandi í 30 ár. Öðru hverju laust þeirri hugmynd niður í hana að skrifa sögu. „Það hvarflaði ekki að mér að segja neinum frá því, en ég var ánægð með ákvörðunina innra með mér,“ segir hún.

Hvers vegna vildi hún ekki segja neinum frá því? „Ég held að mér hafi fundist að ef einhver sæi það sem ég var að skrifa og segði: „Ó nei, þú verður aldrei rithöfundur“, þá hefði ég misst kjarkinn. Vegna þess að einhvers staðar, djúpt í hjartanu, hélt ég alltaf að ég gæti orðið það.“

Sumir sálfræðingar segja að einn af höfuðkostum þess að eldast sé að geta orðið á mistök án þess að líða fyrir það. Youngson getur ekki tekið undir þetta. „Þetta á við um allt, nema eitt — það að skrifa,“ segir hún. „Þegar ég hætti að vinna fór ég í hestamennsku, og þótt ég vissi að ég væri ekki lagin á hestbaki skipti það ekki máli. Ég fór að mála plöntur og teikna, en ég var ekki góð í því, hafði bara gaman að því. En skriftir voru mér svo mikilvægar. Ef einhver segði mér að ég væri virkilega léleg í því að skrifa myndi það taka eitthvað úr lífi mínu sem ég saknaði að eilífu — ekkert gæti komið í staðinn fyrir það.“

Þegar Ford keypti Rover lét Youngson, þá 56 ára, af störfum og skráði sig í ritlistarnám. Síðar lauk hún meistaragráðu við Oxford Brookes-háskólann. Þegar doktorsgráðan var í höfn var sjálfstraustið loksins orðið nógu gott og hún byrjaði að skrifa Meet Me at the Museum.

Óttinn við að taka ákvörðun er raunar leiðarstef í sögunni — hvernig við ákveðum að brjótast úr viðjunum. „Fólk spyr mig oft: Vildi ég að ég hefði byrjað fyrr? Ég veit það satt að segja ekki. Það hefði raskað lífi mínu umtalsvert.“ Hún hefði einnig skrifað allt öðru vísi bækur á yngri árum. „Ég hefði ekki skrifað svona íhugular skáldsögur, því að ég hefði ekki verið nógu kjörkuð til að halda að einhver hefði áhuga á því sem ég hugsaði.“

Youngson segist vera mikill aðdáandi ellinnar. „Við fáum betri tilfinningu fyrir sjálfum okkur þegar við eldumst. Við förum að skilja hvar við pössum inn í, og við höfum ekki lengur svo miklar áhyggjur af því hver við erum og hvað öðru fólki finnst um okkur. Það er frelsandi. Mér finnst að allir ættu að upplifa það að verða gamlir.“

Söguþráðurinn

Bókin Meet Me at the Museum er bréfaskáldsaga, sem svo er kölluð. Sagan byggist á bréfaskriftum Tínu Hopgood, eiginkonu bónda nokkurs í Bury St. Edmunds á Englandi, og Anders Larsens prófessors, sýningarstjóra á dönsku safni. Það sem byrjar sem sakleysisleg fyrirspurn um keldulíkið fræga, sem fannst mjög heillegt í mýri í Tollund á Jótlandi árið 1950 — og áform Tínu um að heimsækja safnið — verður fljótlega að mikils metinni vináttu þeirra í milli. Þau fara ekki aðeins út í ýtarlegar samræður um sagnfræði og fornleifafræði, heldur byrja að deila nánum upplýsingum um fjölskyldulíf sitt. Smám saman breytist sagan í ljúfsára hugleiðingu um horfnar ástríður, eftirsjá, ást, sorg og einmanaleika. Undir niðri liggur vonin um breytingar.

Ritstjórn ágúst 31, 2021 07:00