Skerðingarnar sem svo eru kallaðar hafa lengi brunnið á eldra fólki, sem er farið að fá tekjur sínar frá Tryggingastofnun að öllu eða einhverju leyti. Fyrir nokkrum árum kviknaði sú hugmynd hjá Gráa hernum að rétt væri að höfða mál gegn ríkinu, til að fá úr því skorið hvort skerðingarnar samræmist stjórnarskrá. Eldra fólk býr nefnilega við ákveðið skatta- og skerðingakerfi, sem aðrir í samfélaginu gera ekki. Aðalmeðferð málsins í Héraðsdómi Reykjavíkur var fyrirhuguð 7. september en var frestað þar til í byrjun október.
Skerðingarnar aukast ef menn fresta því að taka út ellilífeyrinn
Þáttur um kjör aldraðra var á dagskrá sjónvarpsstöðvarinnar Hringbrautar í gærkvöldi og þar var meðal annars rætt um skerðingarnar. Ingibjörg H. Sverrisdóttir, formaður Félags eldri borgara í Reykjavík, lýsti því hvernig skerðingar í kerfinu aukast hjá fólki sem frestar því til sjötugs að taka ellilífeyri úr almannatryggingakerfinu. Við það hækkar upphæðin sem menn eiga rétt á, en að sama skapi aukast skerðingarnar í kerfinu. „Menn fresta því til sjötugs að taka út lífeyrinn og ímynda sér að þeir hafi þá meira á milli handanna, en það sem skeður við sjötugt er að skerðingarnar aukast. Fyrir fólk sem er í sambúð verða þetta 73,26%, en fyrir einbúann nærri 80%,“ sagði Ingibjörg. „Þetta eru þá skattarnir og skerðingarnar.“
Skerðingarofforsið er þvílíkt
Stefán Ólafsson, sérfræðingur hjá Eflingu og fyrrum háskólaprófessor, sagði að Íslendingar ættu sennilega heimsmet í því hversu langt er gengið í skerðingum í almannatryggingakerfinu, þær hefjist um leið og menn eru komnir í meira en 25.000 krónur úr lífeyrissjóði. „Alltof stór hluti lífeyrisþega býr við lágtekjuvanda og það liggur í því að margir hafa ekki unnið sér inn full réttindi og fá ekki háar upphæðir úr lífeyrissjóðunum,“ sagði hann og bætti við að þetta kæmi meira niður á konum, sem hefðu til dæmis tekið fæðingarorlof og nytu þá ekki lífeyrissjóðsréttinda á meðan. „En skerðingaofforsið er þvílíkt um leið og þú ert kominn í meira en 25.000 krónur úr lífeyrissjóði,“ sagði hann.
Eiga 100 þúsund eftir þegar búið er að greiða húsaleiguna
Það kom fram í þættinum að eldra fólk í sambúð sem hefur engin lífeyrissjóðsréttindi fær 266.000 krónur á mánuði frá Tryggingastofnun. Sá sem býr einn fær 67.000 krónur til viðbótar og af þessum tekjum er greiddur skattur. Ingibjörg Sverrisdóttir sagði einnig að húsaleigukostnaður í dag væri alveg gífurlegur. „Það er ekki mikill afgangur og auðvelt að lenda í fátækt þegar svona stendur á. Það er hræðilegt að vita til þess að fólk eigi ekki fyrir mat helminginn af mánuðinum og kaupi þá jafnvel eitthvað í matinn sem er ekki nógu næringarríkt. Það hefur komið til mín fólk sem hefur ágætis laun, en býr ekki í eigin húsnæði. Það eru þá kannski 100.000 krónur eftir þegar búið er að borga húsaleiguna,“ segir hún.
Skerða til að ná endum saman í ríkisfjármálunum
Því var einnig velt upp í þættinum hver væri ástæðan fyrir því að skerðingar væru meiri hér en annars staðar. Bent var á að þetta væri ákveðin þróun, jafnvel leti, menn nenntu ekki að stokka upp kerfið. Stefán Ólafsson sagði að stundum þegar væri verið að hnýta saman fjárlögin, væri gefið í varðandi skerðingarnar til að ná endum saman. „Ástæðan fyrir því að það er gengið svona langt er að skerðingarnar eru meira og minna ósýnilegar. Þær eru ekki ein stærð sem allir í samfélaginu sjá. Þetta bitnar misjafnlega á einstaklingum og fer eftir því hversu mikið þeir fá úr lífeyrissjóði og hvort þeir eru í vinnu og svo framvegis. Þetta er svona ósýnilega kjaraskerðingin og er notuuð í alltof miklum mæli hlýtur að vera, við eigum heimsmet í þessu og útgjöld þjóðarinnar vegna ellilífeyris almannatrygginga eru meðal þeirra lægstu innan OECD-ríkjanna.“
Þriðjungur lífeyrisþega með minna en 350 þúsund krónur í mánaðartekjur
Stefán sagði einnig að ójöfnuðurinn væri meiri meðal lífeyrisþega en þjóðarinnar almennt og lágtekjuvandann mætti lesa um í skattframtölum. Um þriðjungur lífeyrisþega væri með minna en 350 þúsund krónur í mánaðartekjur fyrir skatt. Þá hefði skattbyrði lífeyrisþega stóraukist síðustu áratugina. „Árið 1990 var upphæð sem nemur 350 þúsund krónum í dag skattfrjáls, en í dag borga menn af þessu meira en 50 þúsund krónur í skatt á mánuði,“ sagði hann.
Það var víða komið við í þættinum á Hringbraut, sem Sigmundur Ernir Rúnarsson stýrði. Þátttakendur auk Ingibjargar og Stefáns voru þau Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, Helgi Pétursson, formaður Landssambands eldri borgara, og Bryndís Hagan Torfadóttir, sem situr í öldungaráði VR.