Misboðið að fá „ellilífeyri“

„Mér var bara misboðið, þess vegna lét ég í mér heyra“, sagði Katrín Björgvinsdóttir í samtali við Lifðu núna, en hún hóf nýlega töku lífeyris hjá Lífeyrissjóði verslunarmanna.  Hún ákvað eftir að hún fékk fyrstu greiðsluna úr sjóðnum að senda stjórn lífeyrissjóðsins bréf en í því sagði meðal annars.

Þegar ég renndi yfir yfirlitið sem ég fékk frá lífeyissjóðnum kom fram að um ellilífeyri sé að ræða. Mér er fullkomlega misboðið. Hverjum datt í hug að nefna þetta þessu nafni? Það er bara verið að niðurlægja fólk með þessu. Ég skora á ykkur að taka þetta til rækilegrar endurskoðunar og finna nafn sem hæfir þessum greiðslum.

Blaðamaður minnist þess í samtalinu við Katrínu hversu undrandi hann var, þegar hann fékk tilkynningu frá Lífeyrissjóðnum sínum um „ellilífeyri“, þegar að því koma að fá greiddan út lífeyrinn úr sjóðnum. Hvernig mátti það vera að peningarnir sem greiddir voru í sjóðinn um langt árabil, breyttust á endanum í „ellilífeyri?“ Hvers vegna ekki eftirlaun, þar sem þetta er hluti af launum fólks, sem það greiðir í sjóðinn á meðan það er á vinnumarkaði? Þetta var virkilega eins og klapp á kollin, rétt eins og það væri verið að gefa í skyn að nú væri blaðamaður að verða gamall og ætti bara að hafa hægt um sig og þakka fyrir það sem að honum væri rétt.

Þórhallur Jósepsson svaraði bréfi Katrínar  fyrir hönd Lífeyrissjóðs verslunarmanna og sagði meðal annars.

Þú nefnir að þér sé í nöp við heitið ellilífeyrir. Þetta heiti á uppruna sinn fyrir mjög löngu í samningum og lögum um hina fyrstu lífeyrissjóði, ætli það séu ekki að verða hundrð ár frá því, jafnvel meira. Síðan var samið um stofnun lífeyrissjóða, þar á meðal um stofnun Lífeyrissjóðs verzlunarmanna milli launþega og vinnuveitenda á árinu 1955 og sjóðurinn stofnaður samkvæmt þeim samningi 1.febrúar 1956. Þar var talað um ellilífeyri.

Katrínu finnst það ekki rök í málinu að talað hafi verið um ellilífeyri í 100 ár, það eigi að breyta þessu, annað eins hafi verið gert í þessu samfélagi.  Þórhallur bendir aftur á móti á að bæði í kjarasamningum og lögum um lífeyrissjóði sé talað um ellilífeyri. Gerð hafi verið tilraun til að breyta þessu fyrir nokkrum árum og farið að nota í staðinn heitið „ævilangur lífeyrir“. Það gekk ekki segir Þórhallur, olli misskilningi enda var og er allt lífeyriskerfið, bæði á almennum vinnumarkaði og hjá hinu opinbera með þetta heiti „ellilífeyrir“ til að skilgreina réttindi sjóðfélaga og skyldur sjóðanna.  Þórhallur segir í samtali við Lifðu núna að mönnum hafi þótt þetta vont orð, og þess vegna reynt að nota annað, sem gekk svo ekki. „Við sitjum uppi með þetta þangað til lögunum verður breytt, en einfaldast væri fyrir fólk að knýja á um það hjá aðilum vinnumarkaðarins að þessu verði breytt“.

Ritstjórn október 24, 2019 07:07