Framtíð heilbrigðisþjónustu við aldraða

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra mælti í vikunni fyrir þingsályktunartillögu um „Mótun stefnu í aðdraganda aðgerðaáætlunar í heilbrigðisþjónustu við aldraða til ársins 2030“. Í framsögu sinni á Alþingi sagði hann tillöguna byggða á stefnudrögum sem þáverandi heilbrigðisráðherra lét vinna vorið 2021 og að framsetning hennar taki mið af áherslum í samþykktri heilbrigðisstefnu til ársins 2030.

Þingsályktunartillagan felur í sér stefnumarkandi ramma fyrir væntanlega aðgerðaáætlun í heilbrigðisþjónustu fyrir aldraða út þennan áratug. Ráðherraskipaður vinnuhópur muni í framhaldinu vinna umrædda aðgerðaáætlun, en fulltrúar samtaka aldraðra munu eiga sæti í vinnuhópnum, og gert er ráð fyrir ríkulegu samráði við alla hagaðila – fyrst og fremst veitendur og þiggjendur þjónustunnar.

Tengist áratugi farsællar öldrunar

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra

Í framsöguerindi sínu vakti ráðherra athygli á því að Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur helgað farsælli öldrun áratuginn 2021-2030. „Um er að ræða stefnumótandi sýn sem lýtur að breytingu á viðhorfum í samfélaginu samhliða virkni og þátttöku eldra fólks og nærsamfélagsins. Áherslan er á að þjónustan verði samþætt samhliða aukinni fjölbreytni og eflingu þjónustunnar hvað varðar stuðning við eldra fólk til að búa sem lengst sjálfstæðri búsetu. Ég hygg að hér sé um að ræða lykilsetninguna þegar við erum að horfa til breyttra viðhorfa og aukinnar virkni í þessum aldurshópi,“ sagði Willum Þór.

Í máli sínu vék ráðherra einnig að því að ör fjölgun í hópi eldra fólks sé einstök áskorun bæði hér á landi og á heimsvísu. Á sama tíma verði færri hendur til að sinna umönnun aldraðra í framtíðinni vegna breyttrar aldurssamsetningar þjóðarinnar. „Það er því ljóst að nýta þarf tæknina eins og kostur er, leita nýrra lausna og úrræða til að tryggja fullnægjandi þjónustu við aldraða,“ sagði hann.

Ráðherra talaði líka um að í lögum um heilbrigðisþjónustu (nr. 40/2007) er heilbrigðisþjónustu skipt í þrjú stig, þar sem fyrsta stigið er almennt heilsugæsluþjónusta og heimahjúkrun sem og hjúkrunarheimili og annars og þriðja stigs heilbrigðisþjónusta sem er sérhæfðari þjónusta.

Tillit tekið til umsagna

„Meginþorri eldra fólks, rétt eins og aðrir íbúar landsins, sækja þjónustu á fyrsta stigi heilbrigðisþjónustunnar. Þurfi einstaklingar aukna þjónustu gerir skipulagið ráð fyrir að hún sé veitt á því þjónustustigi sem hæfir þörfinni. Þar er gert ráð fyrir að 10-20 prósent aldraðra þurfi mismikinn stuðning eða tímabundna aðstoð til að búa heima. Þau 4-5 prósent sem mesta aðstoð þurfa flytja búferlum vegna dvalar á hjúkrunarheimili eða dvalar á sjúkrastofnun,“ sagði ráðherrann, og tók fram að við vinnslu þessarar þingsályktunartillögu hafi verið tekið tillit tekið til umsagna sem bárust vegna fyrrgreindra stefnudraga sem unnin voru á vegum heilbrigðisráðuneytisins vorið 2021. Alls hafi 35 umsagnir borist við stefnudrögin, en að auki voru drögin birt í Samráðsgátt stjórnvalda og bárust alls tíu umsagnir þá leiðina, sem ráðherra fullyrðir að hafi jafnframt verið tekið tillit til í fyrirliggjandi þingsályktunartillögu.

Ályktunin hefst á þessum orðum:

Alþingi ályktar að aldrað fólk á Íslandi skuli búa við örugga og hagkvæma heilbrigðisþjónustu þar sem aðgengi allra er tryggt. (…) Til þess að framtíðarsýnin verði að veruleika verði lögð áhersla á eftirfarandi meginviðfangsefni heilbrigðisstefnu til ársins 2030:

1 Forysta til árangurs

2 Rétt þjónusta á réttum stað

3 Fólkið í forgrunni

4 Virkir notendur

5 Skilvirk þjónustukaup

6 Gæði í fyrirrúmi

7 Hugsað til framtíðar

Búsetuúrræði í brennidepli

Þónokkrir þingmenn tóku til máls um tillöguna eftir framsögu ráðherra. Þingmennirnir fögnuðu henni allir, en það sem bar mest á í athugasemdum þeirra var umræða um búsetumál aldraðra og skortinn á hjúkrunarheimilisplássum. Furðuðu sig sumir – þar á meðal Helga Vala Helgadóttir Samfylkingu og Guðbrandur Einarsson Viðreisn – á því hve litlu af því fé sem innheimtist á hverju ári í nefskatt af íslenskum skattborgurum í svonefndan Framkvæmdasjóð aldraðra færi í raun í framkvæmdir sem nýttust til að bæta þjónustu við aldraða.

Fyrri umræðu um tillöguna verður fram haldið á mánudaginn. Þingfundur hefst samkvæmt dagskrá kl. 15 á óundirbúnum fyrirspurnum, en framhaldsumræðan um tillöguna er næst á dagskrá eftir það. Þegar fyrri umræðu lýkur gengur tillagan til velferðarnefndar Alþingis.

 

Auðunn Arnórsson, blaðamaður Lifðu núna, skrifar. 

Ritstjórn mars 19, 2022 07:00