Hreyfing – forsenda góðra efri ára

Stefanía Magnúsdóttir var kjörin formaður í félagi eldri borgara í Garðabæ árið 2016 til 5 ára og sá tími var liðinn nú í sumar. Hún segir að þetta hafi verið óskaplega skemmtilegur tími en gott að geta nú snúið sér að öðru. Eitt af baráttumálum Stefaníu hefur verið að hvetja til hreyfingar fólks þegar aldurinn færist yfir. Hún segist sjálf hafa gert sér grein fyrir því fyrir löngu síðan að það væri í hennar eigin höndum hvort henni ætti eftir að líða vel í líkamanum þegar hún eltist.

Eitt helsta baráttumál sem Stefanía stóð fyrir í starfi formanns var einmitt hreyfing eldri borgara í Garðabæ og þegar hún hætti voru félög eldriborgara í Garðabæ búin að taka að sér að sjá um alla þjálfun fyrir eldri borgara í bænum. Fram að því hafði bærinn séð um leikfimi og vatnsleikfimi fyrir karla og konur. ,,En nú skyldum við sjá um alla leikfimi. Við vorum búin að bæta við stólajóga, zumba, línudans og dansleikfimi og nú sá ég tækifæri til að nýta frábæra heilsueflingu Janusar sem hefur sannað gildi sitt.” Stefanía vildi að eldri borgarar í Garðabæ fengju að njóta þessa frábæra verkefnis.

Janusarverkefnið

Stefanía hóf viðræður við bæinn fyrir þremur árum um Janusarverkefnið. ,,Ég fékk ekki mikinn hljómgrunn til að byrja með,“ segir hún. ,,Þetta þótti dýrt og mönnum var til efs að þátttaka yrði nógu mikil. Verkefnið gengur út á að allir sem koma á námskeiðið séu teknir og metnir og mældir alveg í þaula. Samningur er svo við heilsugæsluna þannig að ef eitthvað er athugavert við heilsufarið er það skoðað. Síðan er boðið upp á gönguþjálfun og styrktarþjálfun með tækjum og ætlast er til að fólk hreyfi sig líka sjálft. En allt saman er gert undir styrkri stjórn. Aðstaðan er úti í Álftaneslaug þar sem er heilsurækt sem heitir Gym heilsa. Þar er salur með tækjum sem henta og fjórir þjálfarar alltaf til staðar í byrjun með um það bil 10 í hóp. Þetta er því næstum eins og  einkaþjálfun,“ segir Stefanía og brosir. ,,Fyrir utan þjálfunina og mælingarnar eru margir fræðslufyrirlestrar og eftirfylgni sem gagnast fólki verulega vel.“

Félagið gerði samninginn beint við Janus

Stefanía segir að nokkur bæjarfélög séu byrjuð á þessu verkefni og þá hafi bæjarfélögin gert samninga við Janus. ,,Þetta eru bæjarfélög eins og Reykjanesbær, Hafnarfjaðarbær, Grindavík, Vestmannaeyjar og Seltjarnarnes. Við erum fyrsta félag eldri borgara sem gerir þennan samning beint við Janus en auðvitað með stuðningi frá Garðabæ. Auk þess höfum við fengið styrk frá LEB (Landssambandi eldri borgara) en félagsmálaráðuneytið stendur að baki þeim styrk. Það kostar 12.500 á mánuði á mann ef fólk bindur sig til að vera með í 12 mánuði og þar er peningum vel varið,“ segir Stefanía ákveðin. ,,Inni í þessari upphæð er auðvitað öll eftirfylgnin og þjónustan er mun meiri en ef fólk er bara í leikfimi sem kostar 2.500 á mánuði.”

Komst ekki einn á salerni

Stefanía frétti fyrst af Janusi þegar hann var að skrifa doktorsverkefni  sitt og heyrði af dæmi sem hann sagði frá. Það var um mann sem var að bíða eftir að komast að á hjúkrunarheimili af því að hann gat ekki farið einn á salernið lengur. ,,Þegar svo er komið er maður algerlega upp á aðra kominn og þar vill enginn vera,“ var haft eftir Janusi. ,,Þessi maður var á tíræðisaldri og Janus endurhæfði hann þannig að hann þurfti ekki að fara á neitt hjúkrunarheimili því hann gat bara séð um sig sjálfur. Þannig viljum við auðvitað öll vera en það byggist svo mikið á okkur sjálfum,” segir Stefanía. ,,Við verðum að vera dugleg og það er svo einfalt þegar maður fær svona góða hvatningu eins og námskeiðin hjá Janusi bjóða upp á,“ bætir hún við. Eitt af slagorðunum í nýafstöðnum kosningum var: ,,Starfslok miðist við færni en ekki aldur“ og til þess að slík framtíðarsýn geti orðið að veruleika verður hver og einn að vera meðvitaður um að halda eigin líkama vel við. Það er aldrei of seint að byrja á markvissri þjálfun en Janus vill að slík þjálfun byrji við 65 ára aldur. Það var mikill ótti við að það yrði ekki næg þátttaka nú þegar við byrjuðum að bjóða Garðbæingum upp á Janusarverkefnið en það voru aldeilis óþarfa áhyggjur. Ég vissi að þörfin var mikil og þegar upp var staðið komust færri að en vildu en til að byrja með eru aldursmörkin 67+ hjá okkur. Mjög margir eru búnir að átta sig á að allir heimsins peningar eru einskis virði þegar heilsan brestur. Endurheimtin er síðan ómetanleg og þess virði að leggja á sig og borga fyrir,” segir Stefanía og er ánægð með sinn hlut í því að Garðbæingum gefst nú kostur á frábærri líkamsþjálfun.

Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar

 

Ritstjórn september 28, 2021 07:00