Mótmæla fáránlegum skerðingum

Aðalfundur Félags eldri borgara í Garðabæ, sem var haldinn í vikunni   mótmælir harðlega þeim fáránlegu skerðingum sem viðgangast í almannatryggingakerfinu gagnvart lífeyri úr lífeyrissjóðum. Fundurinn skorar á stjórnvöld að endurskoða þessar skerðingar og færa til betri og réttlátari vegar.

Stefanía Magnúsdóttir

Þessi ályktun var samþykkt með dynjandi lófaklappi, það var virkilega vel tekið undir þetta“, sagði Stefanía Magnúsdóttir formaður FEB í Garðabæ í samtali við Lifðu núna. „45% skerðing  af laununum frá lífeyrissjóðunum er svo grátlega óréttlát. Þetta eru að meirihluta til fjármagnstekjur, þannig að í raun ættum við að borga af þeim 22% fjármagnstekjuskatt, í stað þess að greiða af þeim fullan tekjuskatt. Þettta er fáránlegt fyrirkomulag og svo margþætt. Stefanía segist vera búin að senda áskorunina bæði til fjármálaráðherra og forsætisráðherra og bara allra sem henni hugkvæmdist.“Þeir hafa ekki staðið sig í þessu finnst mér“, segir hún og bætir við að hún verði mjög mikið vör við að fólki blöskri skerðingarnar. Hún hafi horft á Silfrið á sunnudaginn, en þar var Þórey S Þórðardóttir framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða í viðtali. „Hún talaði um að lífeyrissjóðirnir borguðu fólki stöðugt hærri lífeyri, en fólki fyndist það ekki bera neitt meira úr býtum, vegna þess að skerðingarnar væru svo miklar. Greiðslurnar hækka og hækka, en samt finnst fólki að það hafi ekki haft neitt upp úr því að leggja fyrir í lífeyrissjóði í áratugi“, segir Stefanía. Hún segir marga tala um að ríkissjóður sé stærsti lífeyrisþegi landsins, það fái mest úr lífeyrissjóðunum, eða öllu heldur, spari sér útgjöld með því að lækka framlagið til Tryggingastofnunar.  „Ég er svo rasandi yfir þessu. Ég seldi nýlega hlut í sumarbústað. Þeir taka alveg helminginn af því sem ég fékk í minn hlut. Ég var búin að greiða skatt af þessum peningum sem fóru í bústaðinn. Það er í raun verið að tala um tví- ef ekki þrísköttun. Þetta er margfalt óréttlæti“ segir hún að lokum.

 

Ritstjórn mars 7, 2019 10:29