Ætlaði aldrei að verða ríkur

„Ég ætlaði aldrei að verða ríkur. Við sögðum alltaf strákarnir í kampinum þegar við fórum út að skemmta okkur, að nú ætluðum við að ná okkur í ríka konu. Þegar á hólminn var komið gleymdist það og ég held að enginn okkar hafi eignast ríka konu,“ segir Helgi Vilhjálmsson, eða Helgi í Góu og hlær. Helgi er sístarfandi, vinnur enn langan vinnudag. Hann ber hagsmuni lífeyrisþega fyrir brjósti, en líka þeirra sem yngri eru og hefur sett fram ýmsar hugmyndir um hvernig sé hægt bæta hag bæði gamalla og ungra.

Ólst upp bragga

inn sem þumlaHann er kvikur í hreyfingum, býður í fundarherbergið í höfuðstöðum Góu og Kentucky Fried Chicken á hraununum í Hafnarfirði. Þetta eru stór fyrirtæki á íslenskan mælikvarða en þar starfa um 200 manns. Það má með sanni kalla Góu og KFC fjölskyldufyrirtæki því þar vinna auk Helga, þrjár dætur hans, þrír tengdasynir og þrjú af barnabörnunum. „Samstarfið gengur vel þó við séum ekki alltaf sammála,“ segir hann. Helgi er fæddur 1942 og ólst upp í Kamp Knox. Hann fór snemma að heiman, enda efnin ekki mikil, stundaði ýmiss störf og  fór á sjóinn. Hann fór að vinna í salgætisgerðinni Nóa sem þá var til húsa við Skúlagötuna í Reykjavík. „Það var gott fólk sem átti það fyrirtæki, Geirsættin. Þegar ég var stofna Góu árið 1968 spurði ég sjálfan mig oft, hvort að ég gæti  keppt við þetta fólk. Það átti Skeljung, Ræsi, HP heildverslun, það átti þetta og hitt og svo átti ættin afa og ömmu í pólitíkinni. En maður reyndi,“ segir Helgi.

Hver ræður?

„Ég hef oft unnið mikið og ég held ég skili aflveg þokkalegri vinnuviku ennþá. Samt má segja að það hafi farið svolítið púðrið úr mér fyrir fjórum árum þegar ég missti son minn Hannes Þór sviplega og eiginkonuna  Jónu Steinunni Patricia Conway á sama árinu,“ segir hann og bætir að þrátt fyrir að hann hafi lent í slæmum hlutum þá hafi síðustu fimmtíu ár verið skemmtilegur tími. „Stundum veltir maður því fyrir sér hver stjórni þessu nú eiginlega því þó við höldum að við stjórnum miklu þá er ekki víst að við stjórnum neinu.“

Aldrei keypt sígarettuapakka

„Þetta voru mörg góð ár. Við Pattý vorum gift í 50 ár, tími sem ég myndi hiklaust endurtaka. Ég og konan mín, væri hún enn á lífi, myndum eiga aldar vinnuafmæli saman. Þetta gekk vel, bæði reksturinn á heimilinu og fyrirtækinu. Þegar vel er unnið og aldrei keyptur sígarettupakki eða bjórkippa þá verður dáldið eftir, þetta safnast saman með árunum,“ segir Helgi. Hann segir að þau hjónin hafi verið samhent. Konan hafi unnið við hlið hans alla tíð. „Við vorum með skrifstofuna í næstum 20 ár á eldhúsborðinu heima. Ég fór í bókahaldið þegar ég kom heim úr vinnunni. Hún fór svo í bankann daginn eftir með barnavagninn og borgaði reikninga.“

Þvottabali með motor

inn sem þumla tvö„Ég bý enn í húsinu mínu í norðurbænum í Hafnarfirði. Sennilega fékk maður einbýlishúsadellu af því alast upp í  bragga. Ég byggði mitt hús og þar er ég enn, en maður veit ekki hvað maður gerir í framtíðinni.“ Helgi segist fá stúlku tvisvar í mánuði til að þrífa en öðrum heimilisstörfum sinni hann sjálfur. „Það var nú oft sagt um konur, hún er bara heimavinnandi en ég verð að segja að eftir að ég varð einn þá sé ég heimavinnuna betur og er farin að átta mig á því að hlutirnir gerast ekki af sjálfu sér. Þvotturinn fer ekki sjálfur í þvottavélina og heldur ekki úr henni. Ég er búinn að komast að því að þvottavélin er ekkert annað en gamli balinn það er bara búið að setja mótor á hann og mála flott í kringum hann. Ég myndi gjarnan vilja setja í þvottavélina að morgni og þegar ég kæmi heim að kvöldi væri allt þurrt og samanbrotið. Það þarf að búa til litla vélasamstæðu sem sér um þvottinn,“ segir Helgi og bætir við að það hafi ekki orðið miklar breytingar á þessu sviði frá því að ömmur hans voru að þvo í þvottabala.

Eilíft að skapa eitthvað nýtt

Helgi segist hafa byggt að jafnaði 400 fermeta á ári í hálfa öld. Á starfsævinni hafi hann því byggt á milli 15-20 þúsund fermetra. Hann hefur gaman að því að byggja. Helgi á lóð á Völlunum í Hafnarfirði, þar sem upphaflega stóð til að byggja nýjan KFC stað. Þar vill Helgi nú byggja hús með 15 til 20 litilum íbúðum fyrir ungt fólk. Helgi bendir á að margir ungir geti keypt sér litla íbúð þó þeir geti ekki keypt 100 fermetra. En bæjaryfirvöld í Hafnarfirði tóku þunglega í hugmyndir Helga og sögðu lóðina í iðnaðarhverfi þar sem ekki væri gert ráð fyrir íbúðabyggð. Þrátt fyrir þessar undirtektir ætlar Helgi að berjast fyrir þessum árformum sínum. „Ég hef verið að byggja síðustu fjóra áratugina, verksmiðjur, íbúðir og einbýslishús. Ég veit því hvað ég er að tala um. Ég borga mína skatta og skyldur í Hafnarfirði og er með hæstu skattgreiðendum. Ef bæjaryfirvöld samþykkja þetta ekki þá er eitthvað mikið að. Þetta skapar vinnu, eykur tekjur bæjarfélagsins. Þetta er í raun allra hagur,“ segir hann.

Hugmyndalausir þingmenn

næst besta myndinHelgi segist hugsi yfir hugmyndum Péturs Blöndals alþingismanns um að hækka lífeyrisaldurinn í áföngum upp í 70 ár. „Ef fólk á að fresta því að taka lífeyri verður að koma eitthvað á móti, til dæmis að fólk borgi bara hálfan skatt frá sextíu og sjö ára aldri og þangað til það verður 70 ára. Eftir það ætti það ekki að borga neinn skatt,“ segir Helgi. Hann segir að ef fólki yrði umbunað með einhverjum hætti og það fengi að vinna lengur ef það vildi, myndi það spara í heilbrigðiskerfinu. „Fólki myndi líða betur,“ segir hann. Hann horfir á blaðamann kímileitur og segir svo: „Ég skil ekki um hvað þeir eru alltaf að rífast niður á þingi. Þeir eru ekki að rífast um neitt sem skiptir máli. Mér finnst vanta að þingmenn fái einhverjar hugmyndir aðrar en leggja á okkur nýja skatta.“

Litlar íbúðir fyrir aldraða

Helgi birti auglýsingar í fjölmiðlum um áramótin þar sem hann vakti athygli á því að enginn lífeyrissjóður hafi enn nýtt sér heimild í lögum um að fjárfesta í húsnæði fyrir aldraða. Helgi hefur undanfarinn áratug velt stöðu lífeyrissjóðanna fyrir sér og  því hvernig þeir fara með þá fjármuni sem þeir fá til ávöxtunar frá þeim sem greiða í sjóðina. Hann hefur til að mynda  bent á að lífeyrissjóðirnir hafi hagnast um 300 milljónir á síðasta ári og heildareign þeirra nemi um 2.800 milljörðum króna. Ef sjóðirnir notuðu tvo milljarða á ári til að byggja litlar íbúðir fyrir ellilífeyrisþega væri hægt að útrýma húsnæðisskorti aldraðra á áratug eða svo. „Það er ekki verið að biðja um einhverja ölmusu, þeir sem hafa greitt í sjóðina eiga þessa peninga og eiga líka að fá ráðstafa þeim að vild,“ segir hann.  Helgi bendir á að það skorti sárlega húsnæði fyrir aldraða sem uppfylli þarfir þeirra hvað varðar einkalíf. Litlar íbúðir þar sem fólk hafi sitt prívat og geti tekið á móti ættingjum og vinum. Honum finnst illa búið að mörgu öldruðu fólki. Hugmyndir Helga um að lífeyrissjóðirnir taki að sér að byggja yfir aldraða hafa vakið mikla athygli og margir hafa þakkað honum fyrir benda á þetta.  „Mér finnst að lífeyrissjóðirnir hafi gleymt okkur. Við sendum þeim peninga en þeir hugsa lítið um hvernig þeir geti auðveldað fólki ævikvöldið. Ég byrjaði að helgi loiktala um lífeyrissjóðina fyrir tíu árum þá námu eignir þeirra 400 milljörðum, en nema nú um þrjú þúsund milljörðum. Þeir fá 12 prósent af laununum okkar en þeir sem greiða hafa ekkert um það segja í hvað peningarnir eru notaðir.“

Hugsað fyrir öllu

Helgi segir að lífeyrissjóðirnir séu misjafnir.  Þegar hann byrjaði að greiða í lífeyrissjóð árið 1964 hafi menn ekki haft neitt val um í hvaða sjóð þeir greiddu það sé nú sem betur fer breytt. Hann segir að menn ættu að huga vel að því í hvaða sjóði þeir greiði og líka hvert viðbótarlífeyrissparnaðurinn fari. „Ég og mín fjölskylda fórum að greiða í Frjálsa lífeyrissjóðinn fyrir tíu til tólf árum. Þegar drengurinn minn dó greiddu þeir tíu milljónir inn í dánarbúið. Það kom hins vegar ekki króna frá Gildi sem hann var búinn að greiða í mörg ár.  Svipað gerðist þegar konan mín fór, þá fékk ég átta milljónir eftir hana en dæturnar eina og hálfa milljón hver. Það skiptir svo miklu máli þegar fólk missir maka sinn að það fái lífeyrisgreiðslur,“ segir hann alvarlegur á svip og ítrekar að fólk hugi vel að þessum málum.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ritstjórn febrúar 20, 2015 10:42