Vinsæll fræðari kveður Háskólann

Hvernig er vinsæll háskólakennari kvaddur þegar hann, orðinn sjötugur, þarf að að fara á eftirlaun eftir langan og farsælan feril? Gott dæmi um það mátti upplifa í Háskóla Íslands í gær, mánudaginn 23. maí,, þegar haldið var kveðjumálþing til heiðurs hinum þjóðkunna stjórnmálafræðiprófessor Ólafi Þ. Harðarsyni.

Kenndi þúsundum

Undir yfirskriftinni „Lýðræði, kjósendur og stjórnmálaflokkar“ boðaði Félag stjórnmálafræðinga og Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála til málþingsins, sem haldið var í rúmgóðum fyrirlestrarsal í Odda. Í fundarboði segir:

Ólafur Þ. Harðarson við kennarapúltið í Odda 101

„Ólafur er flestum landsmönnum vel kunnugur sem einn af okkar helstu sérfræðingum um kosningar, stjórnmál, kjósendur og stjórnmálaflokka. Í störfum sínum hjá Háskóla Íslands hefur hann kennt þúsundum nemenda stjórnmálafræði og rannsóknaaðferðir, hann hefur byggt upp Íslensku kosningarannsóknina, gefið út fjöldann allan af greinum og bókum og verið tíður viðmælandi í fjölmiðlum sem álitsgjafi um stjórnmál.“

Á málþinginu fluttu nokkrir af nánum samstarfsmönnum Ólafs erindi honum til heiðurs þar sem meðal annars var fjallað um hans framlag til stjórnmálafræðinnar, hvort sem það er í formi rannsókna, kennslu eða upplýstrar álitsgjafar til almennings um stjórnmál.

Fyrsta erindið flutti Gunnar Helgi Kristinsson, kollegi Ólafs til áratuga, um „Erindi stjórnmálafræðinnar“. Einkenndist erindi Gunnars Helga af gamansömum sögum af samfylgd þeirra Ólafs í gegn um fjögurra áratuga þróun rannsókna og kennslu í stjórnmálafræði við HÍ.

Eva H. Önnudóttir talaði bæði sem formaður Félags stjórnmálafræðinga og sem  lærimey Ólafs og samstarfskona í stærsta verkefni hans ferils sem háskólamanns, Íslensku kosningarannsóknarinnar, sem Ólafur hrinti fyrst af stokkunum í kring um Alþingiskosningar árið 1983.

Silfurhærða kosningaskýrendatvíeykið

Þá talaði Bogi Ágústsson, sem eins og Ólafur er líka nýorðinn sjötugur, um það vandasama verkefni „að miðla og greina svo allir skilji“, en því hlutverki hafa þeir tveir sinnt af stakri prýði ótal sinnum í kosningasjónvarpi RÚV, eins og alþjóð er kunnugt. Bogi talaði eins og það væri langt í frá að þeir Ólafur væru hættir að sinna slíkri greiningarvinnu í sjónvarpi – en það væri undir næstu kynslóð komið hvort eftirspurn héldist eitthvað lengur eftir kröftum þeirra. Að öðrum kosti mætti örugglega sjá líkindi með þeim og herramönnunum Statler og Waldorf í Prúðuleikurunum (sbr. mynd).

Bogi Ágústsson sló a létta strengi: kannski myndu þeir Ólafur enda líkt og nöldurseggirnir Statler og Waldorf í Prúðuleikurunum?

Guðmundur Heiðar Frímannsson, heimspekiprófessor við Háskólann á Akureyri, flutti heimspekilegt erindi þar sem víða var komið við í hugmyndasögu mannkyns. Og á krá í Lundúnaborg, þar sem þeir vinirnir voru samstúdentar á áttunda áratug síðustu aldar. Erindið bar yfirskriftina „Vinur minn Ólafur Þ. Harðarson: Af kjósendum, heimspekingum og öðrum bjálfum.“

Hafnar „boðandi stjórnmálafræði“

Botninn í dagskrána rak hinn heiðraði sjálfur: Ólafur rakti í níu liðum atriði sem honum þykir mikilvægt að halda til haga á þessum tímamótum. Sneru þau að mestu að starfsferli hans og þróun stjórnmálafræðinnar innan Háskólans og í íslensku samfélagi frá því kennsla í stjórnmálafræði hófst við HÍ árið 1973. Ólafur hóf að kenna stjórnmálafræði við skólann árið 1980 og var þá þriðji kennarinn í því fagi. Í kveðjuorðum sínum var honum meðal annars í mun að halda því til haga að til væru stjórnmálafræðingar sem vildu stunda „boðandi stjórnmálafræði“ og leggja kjósendum línurnar um hvað þeim bæri að kjósa. Slíka stjórnmálafræði legði hann ekki stund á; hann héldi sínum persónulegu skoðunum alveg fyrir sig en legði þeim mun meira upp úr greinandi og skýrandi stjórnmálafræði. Óskaði hann veg hennar sem mestan framvegis.

Ólafur tjáði blaðamanni að málþingi loknu að þótt hann væri nú orðinn prófessor emeritus, þá væri hann alls ekki seztur í helgan stein. Rímar það við orð vinar hans Boga Ágústssonar sem gaf sterklega í skyn í sínu máli að þeir tvímenningarnir muni sjást á skjánum í að minnsta kosti einum kosningum enn…

Fundarstjóri var Guðbjörg Andrea Jónsdóttir, forstöðumaður Félagsvísindastofnunar HÍ.

Prófessorar: Ólafur Þ. Harðarson með Hannes H. Gissurarson sér á hægri hönd og Gunnar Helga Kristinsson á þá vinstri.

Auðunn Arnórsson, blaðmaður Lifðu núna, skrifar

Ritstjórn maí 24, 2022 07:00