Signý Pálsdóttir kveður ráðhúsið eftir tæp 20 ár

Signý á skrifstofu menningar- og ferðamálasviðs sem þá var í Ingólfsnaustum

Þegar Signý Pálsdóttir skrifstofustjóri menningarmála hjá Reykjavíkurborg, gekk út af skrifstofunni sinni í ráðhúsinu í gær, lauk 19 ára starfi hennar hjá borginni. Hún segist skilja skrifstofuna eftir í góðum höndum, en Sif Gunnarsdóttir sem var síðast forstjóri Norræna hússins í Færeyjum tekur við af henni. Signý ætlar að fara á eftirlaun 68 ára, þó hún hefði getað unnið til sjötugs. „ Ég hætti að eigin ósk og langar til að njóta frelsisins eftir að hafa unnið mikið alveg frá því ég var 25 ára gömul“, segir hún.

Tækifæri til að rækta sjálfa sig, fjölskyldu og vini

Signý sér tímann framundan í hillingum. „Það verður dásamlegt að ráða sínum tíma sjálfur, hvenær þú vaknar og hvað þú gerir það sem eftir lifir dagsins. Þú getur valið og hafnað, hvort sem það er leikur eða einhver verkefni.  Það er gott að vera engum háður, hvorki kerfi né stjórnmálamönnum sem embættismaður. Ég sé fram á fleiri tækifæri til að rækta sjálfa mig andlega og líkamlega og  einnig fjölskylduna og vini mína.  Allt þetta þrennt, hefur oft þurft að sitja á hakanum vegna vinnu. Ég ætla ekki að kveðja þennan heim, án þess að hafa náð að gera það. Hjúkrunarfræðingar segja að á dánarbeði sjái enginn eftir því að hafa ekki unnið nóg, en mjög margir sjái eftir að hafa ekki sinnt sínum nánustu betur“.

Signý og Árni, ásamt golfvinunum Þóreyju Aðalsteinsdóttur og Baldri Gíslasyni

Mun sníða sér stakk eftir vexti

„Þó ég sjái fram á tekjulækkun, eftir að hafa greitt í mörg ár í misgóða lífeyrissjóði, mun ég sníða mér stakk eftir vexti“, segir Signý hvergi bangin. Hún er við öllu búin enda í  þremur golfklúbbum, Golfklúbbi Reykjavíkur, Golfklúbbi borgarstarfsmanna og svo eru hún og maður hennar, Árni Möller, nýgengin í Nesklúbbinn á Seltjarnarnesi.  Henni finnst golfið „fáránlega skemmtilegt“ og segist hafa stundað það lengi, eða alltof lengi miðað við getu!  Það var Árni sem gaf henni fyrsta golfsettið, en hann var að hennar sögn alinn upp í golfi.

Menn verða oft félagar í golfinu

„Ég leit á golfið sem leik og góðan félagsskap. Það er það skemmtilega við golfið. Maður kynnist fólki af öllum stéttum með ólíkan bakgrunn. Menn verða oft félagar, bæði innan og utan vallar. Það myndast hópar, bæði kvennahópar og parahópar“.  Hún er þakklát Árna fyrir að hafa kynnt hana fyrir golfinu. „Það reynir bæði á hug og hönd og svo er það útiveran. Menn fara líka í golfferðir. Vinahópar sækja gjarnan golfvelli út fyrir bæjarmörkin og svo eru utanlandsferðir einu sinni til tvisvar á ári“.

Börnin, Torfi Frans, Guðrún Jóhanna og Melkorka Tekla Ólafsbörn ásamt barnabörnunum

Getur dvalið meira hjá börnunum í útlöndum

Signý ólst upp í stórri fjölskyldu í Skerjafirði, en hún er dóttir hjónanna Páls S Pálssonar hæstarréttarlögmanns og Guðrúnar Stephensen kennara. „Ég kem úr átta systkina hópi sem hefur haldið mjög vel saman. Ég á þrjú börn og 5 barnabörn og Árni tvo syni. Tvö barnanna búa erlendis og ég sé fram á að geta dvalið meira hjá þeim eftir að ég fer á eftirlaun og haft meiri samskipti við barnabörnin“. Spurð hvort það hafi ekki verið óvanalegt á þessum tíma að börnin væru átta í einni og sömu fjölskyldunni, sagði Signý að svo hefði verið, en hér hefði verið „babyboom“ eftir stríð. „Útskriftarhópurinn minn úr MR hélt að hann væri stærsti árgangur skólans frá upphafi, en reyndist vera sá næst stærsti“, segir Signý „Það er ótúlegt að við séum núna að undirbúa 50 ára stúdentsafmæli á næsta ári“.

Nemendur drukku bjór í tímum

Signý kynntist fyrri manni sínum , Ólafi H. Torfasyni rithöfundi, fjölmiðlamanni og kvikmyndafræðingi  Í MR og saman héldu þau til náms í Kaupmannahöfn, eftir að hafa kynnt sér námið í Háskóla Íslands í einn vetur. „ Ég ætlaði í leiklist en þá var ekki leiklistarskóli hér og innritaði mig í leikhúsfræði“, segir Signý. „Þetta var í kjölfar 68 byltingarinnar og í heimspekideildinni í Köben var allt með öllu frjálslegra sniði en verið hafði í HÍ. Mér brá að sjá  nemendur drekka bjór í tímum og rífa kjaft við kennarana,“ segir hún. Þetta voru spennandi tímar og stöðugur straumur ungra Íslendinga lá til Kaupmannahafnar. Þau Ólafur bjuggu miðsvæðis og það var afar gestkvæmt. „Ég var farin leggja alltaf nokkra diska aukalega á borð, því við vissum aldrei nema óvænta gesti bæri að garði“, rifjar Signý upp.

Börnin í Stykkishólmi ásamt lítilli frænku

Var opinberun að flytja út á land

Eftir Kaupmannahafnardvölina réði unga parið sig sem kennara í Stykkishólmi. Á þeim tíma þurfti ekki að hafa kennsluréttindi til að taka að sér slík störf og kaupið var gott. Þau áttu þá orðið tvö börn og það þriðja bættist fljótlega við.  „Það var opinberum fyrir okkur að búa úti á landi og frábært að ala upp börn í Stykkishólmi. Þetta var okkar besti skóli, að kynnast lífinu í litlum bæ á landsbyggðinni. Þarna var mikið félagsstarf og ég var í Leikfélaginu Grímni, leikstýrði, lék og sinnti formennsku.“ Signý segist þannig hafa kynnst vel þversniðinu af bæjarbúum og fengið marga til að stíga á svið sem ekki höfðu gert það áður.

Skemmtilegasti vinnustaðurinn

En Signý var alltaf spennt fyrir að vinna í leikhúsi og þegar hún sá auglýst starf leikhússtjóra hjá Leikfélagi Akureyrar sótti hún um og fékk það. Fjölskyldan flutti þá aftur í danskan bæ, sem var tíu sinnum stærri en Stykkishólmur, en sagt var um báða bæi að þar væri töluð danska á sunnudögum.  Signý segir að Leikfélag Akureyrar sé skemmtilegasti vinnustaður sem hún hafi unnið á og hefur hún þó lagt gjörva hönd á margt.  Þegar Ólafur vildi flytja suður eftir fjögur ár, hætti hún hjá leikfélaginu, varð leikhúsritari Þjóðleikhússins, en var ráðin aftur norður fimm árum síðar. Þá voru þau hjónin skilin. En starfið fyrir norðan varði þá ekki nema tvö ár.  „Það var karlmönnum að kenna í bæði skiptin að ég hætti“ segir Signý og brosir. En hún hafði þegar hér var komið sögu kynnst bónda á Suðurlandi, fyrrnefndum Árna Möller og tók sig upp enn á ný og flutti til hans á Þórustaði í Ölfusi.

Brúðkaup Signýjar og Árna. Sr. Hjálmar Jónsson gaf þau saman

Gæti verið að grúska allan daginn

Signý var um tíma „free lance“. Hún skrifaði og leikstýrði og gerð einnig útvarps- og sjónvarpsþætti, þar til hún varð framkvæmdastjóri Listahátíðar í Reykjavík. Því starfi gegndi hún í fimm ár þar til hún var ráðin til að stýra menningarmálum Reykjavíkurborgar árið 1999.  Formlegu starfi er lokið, en hún er bæði í norrænu og íslensku dómnefndarverkefni og segist ekki leggja tærnar alveg upp í loft. Hún hefur til dæmis gaman af alls kyns grúski. „Ég gæti þess vegna verið að grúska heima hjá mér, í myndum, textum og sendibréfum allan daginn. Ég er með myndasöfn sem þarf að skanna og vinna úr. Svo hef ég alltaf haft gaman af að skrifa“.  Hún sér líka fram á að geta lesið meira, þegar hún verður komin á eftirlaun. „Frá því ég varð læs 4ra ára gömul hefur það verið mín besta skemmtun að lesa“, segir hún.

 

Leikhússtjóri LA kvaddur 2002 en Viðar Eggertsson tók við.

Fljótandi leikhús og tónleikasalur

Signý segir að samskipti við listamenn í öllum listgreinum, sé það sem standi uppúr á hennar starfsferli. Þó hún hafi ekki sjálf orðið listamaður, hafi það gefið henni mikið að hafa samskipti við listamenn og fylgjast með því sem þeir séu að gera. En svo á hún sér draum, sem hún á kannski eftir að láta rætast. „Það er að festa kaup á afskráðu skipi og hafa það við Grandann, stutt frá þar sem ég bý. Þar myndi ég reka leikhús og tónleikasal. Á sumrin myndi skipið sigla hringinn í kringum landið með leiksýningar og tónleika. Þá væri líka hægt að búa í skipinu árið um kring“, segir Signý dreymin. Miðað við feril hennar fram til þessa, þyrfti  ekki að koma á óvart þó draumur hennar um fljótandi leikhús og tónleikasal ætti eftir að verða að veruleika í fyllingu tímans.

Hér má sjá skemmtilegar myndir úr albúmi Signýjar.

 

Ritstjórn júní 1, 2018 11:15