Ragnhildur Erla Bjarnadóttir skrifar
Stór hópur lesenda bíður eftirvæntingafullur þegar út kemur morðsaga eftir Arnald fyrir hver jól enda hefur hann verið vinsælasti höfundur landsins í áratugi. Því kom það á óvart að Sigurverkið er söguleg skáldsaga sem gerist bæði á Íslandi og í Danmörku á 18. öld en er þó svo spennandi að erfitt er að leggja hana frá sér.
Eins og segir á bókakápu þá er íslenskur úrsmiður í höll Danakonungs að gera upp forna glæsiklukku. Kvöld eitt rekst sjálfur einvaldurinn Kristján sjöundi, inn til hans; að nafninu til enn höfuð ríkisins en þykir ekki með öllum mjalla og hefur verið ýtt til hliðar af syni sínum og hirð. Þeir taka tal saman og svo fer að úrsmiðurinn rekur fyrir hátigninni dapurlega sögu föður síns og fóstru sem tekin voru af lífi að skipan fyrri konungs, föður Kristjáns.
Við hittum fyrir þá Jón Sívertsen og Kristján konung
Jón Sívertsen sat á kolli sínum framan við klukkuna og hafði orðið nokkuð ágengt við að hrinda vitringunum úr Austurvegi af stað þegar boð bárust til hans um að hann ætti að koma fyrir konung. Þetta var síðla kvölds og sendiboðinn var sjálfur yfirráðsmaður konungs sem leit með nokkurri fyrirlitningu á úrmakarann íslenska og allt draslið hans þarna í salnum. Yfirráðsmaðurinn mældi almúganmanninn út með þeim hofmóði sem tilheyrði starfi hans og hristi svo höfuðið, fitjaði upp á nefið eins og hann bæri of háa tignargráðu til þess að vera sendur eftir manni þessum og sagði, og var ekki laust við að furðu gætti í málrómnum, að hans hátign óskaði eftir nærveru klukkusmiðsins.
Jóni brá nokkuð í brún að heyra þetta. Það hafði ekki gerst áður að hann væri kallaður fyrir konung. Hans hátign hafði að jafnan komið til hans. Ranglað inn í safnið eins og fyrir tilviljun í flauelskápunni, sköllóttur með rósroðann og sest hjá honum og kannski kreist hálsinn á madeiraflösku og spurt um Habrect og hina og þessa klukkuparta sem vöktu forvitni hans. Hann virtist líka hafa lúmskan áhuga á frásögn Jóns af atburðunum við Breiðafjörð og í nálægum sveitum, og þegar hann hafði komið sér fyrir í stól sínum var þess aldrei langt að bíða að hann forvitnaðist um mál öll og hann hlustaði með vaxandi áhuga á sögur Jóns að vestan.”