Yrsa í sínu besta formi

Eitt það skemmtilegasta við að lesa sakamálasögur er að reyna að púsla saman þeim vísbendingum sem höfundurinn dreifir um síðurnar og reyna að finna út hver er morðinginn og hvers vegna hann hefur framið voðaverkið sem allt snýst um. Frýs í æðum blóð er nýjasta bók Yrsu Sigurðardóttur er vel uppbyggð, spennandi og skemmtileg sakamálasaga og þar eru einmitt ótal þræðir sem kvíslast um Grindavík, Reykjavík og tvö fiskiskip. Þetta er Yrsa í sínu besta formi.

Við hefðbundið eftirlit í Sorpu finnast mannabein. Skömmu síðar býðst ungri konu afleysingapláss á loðnubát sem rær frá Grindavík. Hún er kokkur og hefur dreymt um að komast í fast pláss lengi. Henni er því mikið í mun að standa sig en fær áfall þegar hún finnur matreiðslubók föður síns um borð því hún vissi ekki betur en hún hefði sokkið í hafið með honum sjálfum þegar skipið sem hann var á fórst. Á sama tíma eru þau Ketill og Karó send til Grindavíkur til að reyna að skakka í leikinn í hatrömmum nágrannadeilum. Málið vindur upp á sig og flækist enn frekar þegar tekst að bera kennsl á líkamsleifararnar.

Yrsa kann sannarlega að byggja upp spennu og halda lesandanum við efnið. Í Frýs í æðum blóð eru margar áhugaverðar persónur og saga hverrar og einnar forvitnileg. Það er sömuleiðis athyglisvert að sögusviðið er Grindavík áður en náttúruhamfarirnar hófust og hraunið í kring. Að þessu sinni er flétta hjá Yrsu einstaklega vel unnin og þetta er frábær bók.

Ritstjórn mars 11, 2024 07:00