Tengdar greinar

Manstu gamla daga?

Gísli Sigurgeirsson sjónvarpsmaður

Gísli Sigurgeirsson skrifar með kærri kveðju að norðan

Manstu gamla daga? Já, reyndar. Ég er hins vegar nýbúinn að átta mig á þeirri staðreynd, verandi kominn á áttræðisaldur, að það sem gerðist á mínum yngri árum eru ,,gamlir dagar“. Til skamms tíma hef ég litið á þessa ,,gömlu daga“ sem æskuár pabba og mömmu, jafnvel afa og ömmu. Mín æskuár hafa ekki verið inni í þeirri mynd. Fjarri því! Svo var ég á dögunum að segja mínu fólki einhverja sögu, bráðskemmtilega og görótta, frá mínum æskuárum. Þá gall í einum sona minna; svona hefur þetta þá verið í ,,gamla daga“ pabbi!

Já, það hefur margt tekið breytingum frá því í ,,gamla daga“. Ég ólst upp á Akureyri, við Spítalaveginn og við Spítalaveginn bý ég enn. Hef þó fært mig milli húsa. Á mínum æskuárum voru bæjarbúar nokkuð auðlesnir. Framsóknarmenn versluðu í kaupfélaginu, íhaldsmenn fóru til kaupmannsins, en kratar og kommar fóru oftast í Kaupfélag verkamanna, eða til einhvers kaupmanns, sem þeir töldu hallan til vinstri. En svo var reyndar þessi þögli meirihluti, sem fór dult með pólitískar skoðanir sínar og verslaði bara þar sem kaupin gerðust best! Reyndar tókst Skarphéðni og Laufeyju í Amaro að brjóta niður alla pólitíska þröskulda, því þangað þyrptust allra flokka kvikindi á þeim árum þegar oftast klingdi í peningakössum þeirra hjóna.

Norðlenska smjörlíkið er nú horfið

Það mátti sem sé gera skoðanakönnun um fylgi flokkanna með því að telja inn í búðirnar. Ef stöðugur straumur var til Yngva í Hafnarbúðinni eða kollega hans, benti það til vaxandi fylgis hjá Sjálfstæðisflokknum. En ef kaupmennirnir báru sig illa og KEA opnaði nýtt útibú, þá var uppgangur hjá Framsóknarflokknum. Reyndar sviku menn stundum lit. Fyrst og fremst voru það húsfreyjurnar, sem sýndu sjálfstæði. Ef framsóknarfreyjurnar sættu sig ekki við KEA pylsurnar læddust þær í Hafnarbúðina hjá Yngva og keyptu SS-pylsur. Ef íhaldsfreyjurnar sættu sig ekki við smjörlíkið frá Akra hjá kaupmanninum, þá sendu þær einhvern krakkagrislinginn í kaupfélagsbúðina eftir Flóru-smjörlíki eða Gula-bandinu, sem hvorutveggja kom frá  Svavari vini mínum í Smjörlíkisgerð KEA.

En þrátt fyrir alla þessa flokkadrætti held ég að Akureyringar hafi átt eitt sameiginlegt. Þeim þótti bestur heimafenginn baggi. Ég hafði lengi til siðs, að kaupa framleiðslu frá fyrirtækjum á Akureyri, fremur en hroðann að sunnan. Ég tók fremur Pólitexmálningu frá Sjöfn en glundrið frá Hörpu. Ég tók líka sápur og sápulög frá sömu efnaverksmiðju fram yfir illa lyktandi löður frá Frygg eða öðrum sápuverksmiðjum syðra. Appelsínið frá Egils kom ekki til greina þegar Valash frá Sana var í boði. Og aldrei datt manni í hug að smakka súkkulaði frá Sirius, Nóa eða Ópal. Þess í stað hraukaði maður í sig sætindunum, sem Eyþór í Lindu framleiddi af stakri snilld. Þær voru líka gómsætar bolsíurnar frá Nella í Flóru og karamellurnar frá Akra. Allar mjólkurvörur voru frá Eyfirskum bændum og á Akureyri var ekki litið við

Iðunnarskórnir þóttu flottir

öðru en norðlensku hangikjöti fyrir jólin. Við gengum gjarnan í Iðunnarskóm, Hekluúlpu eða mokkajakka frá Sís. Jón vinur minn M saumaði eftir máli fyrir þá vandlátu og Maddi bróðir hans saumaði gallabuxur og annað fatnað í Burkna. Skipasmíðastöð KEA og Skapti í Slippnum smíðuðu skipin. Valbjörk húsgögnin, sem Nói hannaði. Svona mætti áfram telja. Akureyri var iðnaðarbær og gat verið sjálfbær um allar nauðsynjar bæjarbúa. Og fleiri kunnu vel að meta, því flutningabílum var ekið daga og nætur við að koma framleiðslu frá Akureyri suður yfir heiðar. Tugir tonna voru flutt í hverri viku. En svo hrundi þessi paradís á einni nóttu. Það er nánast engin sér ,,Akureyrsk“ framleiðsla til lengur – með örfáum undantekningum þó. Sem betur fer. En hvað gerðist?

Það er ekki til neitt einfalt svar við þessari spurningu. Megin skýringuna er þó að finna í tollaeftirgjöf, sem leiddi til aukins innflutnings í samkeppni við innlenda framleiðslu. Þetta setti marga framleiðendur á hvínandi hausinn, en aðrir leituðu sameiningar við keppinauta. Framleiðslufyritæki á Akureyri voru sameinuð fyrirtækjum í Reykjavík og þróunin varð sú í flestum tilvikum, að framleiðslan var flutt til Reykjavíkur. Lindukonfektið er enn til, en það er framleitt í Reykjavík. Engin framleiðsla eða verslun er lengur undir merki KEA. Jú, KEA skyrið er enn til, en það er framleitt á Selfossi. Sana framleiðir ekki lengur Valash, Jolly-Cola eða Cream-soda, en á þeim grunni stendur þó Viking-brugg. Það er huggun harmi gegn! Skál fyrir því!

Gefjun framleiddi alls kyns fatnað

Hér á undan hef ég til gamans brugðið upp myndum frá því ,,gamla daga“. en öllu gamni fylgir nokkur alvara.  Það geysar faraldur, sem hefur einangrað lönd og þjóðir. Á sama tíma hafa stjórnvöld á Íslandi látið undan stanslausum áróðri frá talsmönnum þeirra, sem stjórna smásöluverslun á Íslandi. Slakað hefur verið á innflutningstollum, sem þýðir aukinn innflutning á margvíslegum nauðsynjum. Ekki hefur það leitt til verðlækkunnar til neytenda. Hins vegar  skekur þessi innflutningur afkomu framleiðenda hér á landi, sem geta ekki náð niður framleiðslukostnaði með magnframleiðslu, eins og keppinautar þeirra í Evrópu gera. Næst gengur þetta bændum og vinnslustöðvum úr þeirra afurðum.  Það hriktir í stoðum íslenskrar matvælaframleiðslu.k

Í ,,gamla daga“ keypti ég vörur framleiddar á Akureyri þegar því var við komið. Stend mig reyndar að því enn, ekki síst þegar ég fer í Ríkið við Hólabraut! Faraldurinn undanfarnar vikur og mánuði hefur sýnt okkur, að það er ekki á vísan að róa með innflutning matvæla og annarrar dagvöru til eylands lengst norður í hafi. Tryggjum afkomu bænda og treystum grunnin undir þeim fyrirtækjum sem vinna þeirra afurðir. Tryggjum að við getum verð sjálfum okkur nóg við matvælaframleiðslu til langs tíma. Veljum íslenskt.

Ritstjórn nóvember 27, 2020 07:38