Sinna afkomendum og listinni eftir starfslok

Hjónin Bjarna Daníelsson og Valgerði Gunnarsdóttur Schram þekkja margir, enda víða komið við á löngum ferli. Þau eru nýlega setzt í helgan stein, sinna afkomendum, heilsunni – og listinni. Bjarni tók upp pensilinn þegar hann hætti að vinna fyrir fimm árum, þá 68 ára, og málar myndir af kappi.

„Já, það er rétt, ég ætlaði mér alltaf að verða myndlistarmaður,“ segir Bjarni aðspurður. „Ég var alltaf svona með annan fótinn í myndlistinni. Það endaði líka með því á sínum tíma að ég tók myndlistarkennarapróf. Hafði alltaf gaman af að kenna. Svo fórum við til Ameríku uppúr 1980 og þá hélt ég áfram í myndlistarnámi, og kennslufræði myndlistar. Ætlaði þá eiginlega að verða akademíker.“

Skólastjóri, óperustjóri, sveitarstjóri

Úr því varð þó ekki. Árið 1986, þegar Bjarni var í miðjum klíðum að vinna að doktorsritgerð sinni, var hann skipaður skólastjóri Myndlistar- og handíðaskólans. „Þar með var nú búið að ráðstafa mínum tíma næstu árin. Svo fór ég til Kaupmannahafnar 1994; var hjá Norrænu ráðherranefndinni í sex ár,“ rifjar Bjarni upp. Eftir heimkomu árið 1999 tók hann við sem óperustjóri Íslensku óperunnar og gegndi þeirri stöðu í átta ár, til 2007. Segir þá hafa verið „kominn tími á sig“. „Þá varð ég sveitarstjóri austur í Skaftárhreppi og var þar í rúm þrjú ár,“ rekur Bjarni. Hann hafi svo endað starfsferilinn sem verkefnastjóri í Ráðhúsi Reykjavíkur, fyrst á skrifstofu borgarstjóra og svo á „hinni alræmdu skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, sem er kennt um hneykslisstráin og allt það“ (hlær við). Það hafi verið skemmtilegur vinnustaður.

„En í byrjun árs 2017 fór Vala til Lúxemborgar í tveggja ára starf, á vegum velferðarráðuneytisins. Ég ákvað að fara með henni, enda kominn á eftirlaunaaldur,“ segir Bjarni.

Sjúkraþjálfun og lýðheilsufræði

Valgerður segir að þau Bjarni hafi verið í Kaupmannahöfn 1976-1979, þar sem hún lærði sjúkraþjálfun. „Ég vann við sjúkraþjálfun lengi, í öllum geirum eiginlega, bæði á stofu og á spítala og hjá heilsugæzlunni. Var á Reykjalundi fyrst eftir að ég kom heim frá Danmörku,“ segir hún. Síðan flutti öll fjölskyldan saman til Madison í Wisconsin í Bandaríkjunum árið 1982, þegar Bjarni byrjaði í sínu framhaldsnámi. Börnin þrjú – Dýrleif, Finnur og Daníel – voru þá tólf, níu og þriggja ára. Reyndar lét Valgerður sér það ekki nægja að vera heimavinnandi húsmóðir þar vestra: „Ég fór líka í framhaldsnám, í þjálfunarlífeðlisfræði og endurhæfingu hjartasjúklinga.“

Hér eru þau Vala og Bjarni (lengst t.h.) í brúðkaupi elzta barnabarnsins Valgerðar, dóttur Dýrleifar (sem er 4.f.v.), sumarið 2017. Fimm manna fjölskyldu Finns Bjarnasonar vantaði til að allir afkomendurnir næðust saman á mynd.

Beint eftir heimkomu frá Bandaríkjunum árið 1985 hóf Valgerður störf á Landspítalanum og var að vinna við endurhæfingu hjartasjúklinga. „Var þar í átta ár, þangað til að Bjarni fór út til Danmerkur, þá þurfti ég að elta hann þangað. Á þessum seinni Kaupmannahafnarárum vann ég í tvö ár hjá Alþjóða heilbrigðisstofnuninni, WHO, og fór líka í annað mastersnám, í lýðheilsufræði við Kaupmannahafnarháskóla,“ segir hún.

„Svo komum við heim og ég byrjaði að vinna hjá Íslenskri erfðagreiningu við gagnagrunn á heilbrigðissviði. Vann þar með mjög skemmtilegu fólki og þetta var mikið ævintýri. Svo var það nú allt búið 2003-2004. Þá gekk ég til liðs við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og var aðallega að vinna við uppbyggingu rafrænnar sjúkraskrár. Þaðan fór ég inn í heilbrigðisráðuneytið árið 2008 og var þar þangað til ég hætti, sjötug,“ greinir Valgerður frá.

Á árunum 2017-2019 vann Valgerður á vegum ráðuneytisins á Lýðheilsuskrifstofu Evrópusambandsins í Lúxemborg, en það hafa þónokkrir starfsmenn ráðuneytisins gert skv. samningi um slík tímabundin vistaskipti embættismanna. „Hún fékk það hlutverk að venja Evrópubúa af áfengisdrykkju,“ segir Bjarni kíminn. Valgerður brosir og segir að hún hafi vissulega verið að vinna þar við áhugaverð og krefjandi verkefni.

Eftir dvölina í Lúxemborg var stutt í starfslokin; Valgerður vann í heilbrigðisráðuneytinu fram að sjötugsafmælisdeginum 2020. „Þar var mjög gott að vera, afbragðs fólk sem vinnur þar,“ segir hún.

Skemmtilegt og krefjandi nám með vinnu

Bjarni bætir því við að á Kaupmannahafnarárunum hafi hann líka farið í nám með vinnu, tók mastersgráðu í opinberri stjórnsýslu við Viðskiptaháskólann (CBS). Hann segir það hafa komið sér ágætlega í framhaldinu að hafa lokið þessu námi; þar hafi t.a.m. áhugi hans á sveitarstjórnarmálum kviknað, enda hafi margir sveitarstjórnarmenn víða að úr Danmörku verið með honum í þessu námi. „Þá ákvað ég eiginlega að ef mér skyldi einhvern tímann bjóðast að vera sveitarstjóri þá myndi ég slá til. Sem svo gekk eftir mörgum árum síðar,“ segir hann.

Með þessu var Bjarni samt ekki fullsaddur náms. „Meðan ég var í Ráðhúsinu fór ég líka í leiðsögumannanám í Endurmenntun HÍ, og það er bara eitthvert skemmtilegasta nám sem ég hef farið í,“ segir hann. Hann hafi í kjölfarið aðeins byrjað að fara túra með ferðamenn, „en svo datt nú botninn úr því þegar ég fór á eftir Völu til Lúxemborgar. Og hef ekki byrjað á því aftur.“

Skútusiglingar og önnur ævintýri

En þau hjónin hafa í gegnum tíðina fengizt við ýmislegt annað. Um alllangt árabil áttu þau, ásamt fleirum, seglskútuna Skútu og fóru í margar eftirminnilegar siglingar á henni. Skúta hefur m.a. átt heimahöfn í Stykkishólmi, þar sem þau Bjarni og Vala, ásamt vinahjónum, ráku sumarveitingahús í nokkur ár – Sjávarpakkhúsið (sem enn er í rekstri undir enska grín-þýðingarheitinu „The Sea Bastards’ Inn“).

„Við fórum nokkrar miklar ævintýraferðir á þessari skútu. Við sigldum í Eystrasaltinu, um skerjagarðinn og til Álandseyja. Bjarni sigldi einu sinni frá Noregi til Færeyja. Skútan er búin að þvælast nokkrum sinnum yfir hafið milli Íslands og grannlandanna, bæði Norðurlandanna og Bretlandseyja,“ segja þau. Og Bjarni bætir við: „Það er mjög gaman að vera á skútu. Maður er ekki búinn að vera lengi um borð þegar maður er kominn alveg á vald náttúruaflanna. Þannig er sannarlega auðvelt að gleyma öllu skrifstofustressi.“

Afkomendurnir í þremur löndum

Bjarni og Vala eiga þrjú börn, Dýrleifu, Finn og Daníel, en tvö þeirra eru búsett erlendis – Dýrleif í Bandaríkjunum og Finnur í Englandi. Yngri sonurinn Daníel er búsettur hérlendis. Valgerður segir: „Dýrleif fór í nám vestur yfir haf á sínum tíma með sínum manni og hefur ekki flutt til baka. Hún á þar annan mann núna og tvö börn. Finnur fór í söngnám til Englands og ílentist þar. Daníel var líka erlendis við nám og störf en er nú búsettur hér heima og starfar sem tónskáld og hljómsveitarstjóri,“ segir Valgerður og brosir til Ríkharðs Daníelssonar, 11 ára, sem situr við borðið með okkur og teiknar.

Bjarni bætir við: „Okkur finnst náttúrulega stundum svolítið langt á milli. En við höfum vanizt því í áratugi að fjölskyldan búi í tveimur-þremur löndum. Maður verður að sætta sig við það.“ Vala segir: „Tölvurnar bjarga miklu, að minnsta kosti þekkja barnabörnin mann í sjón!“

Svo er auðvitað flogið. „Við höfum við auðvitað reynt að fara reglulega á milli, bæði þau og við.“

Af barnabörnunum níu búa sex erlendis, segir Valgerður. Nýlega fæddist fyrsta barnabarnabarnið, og það er, enn sem komið er að minnsta kosti, búsett á Íslandi. „Sonur Dýrleifar býr hérna og er nýbúinn að gifta sig og eignast lítinn strák, Arnald.

Myndlistin „rosalega gefandi“

Bjarni við trönurnar heima á Seltjarnarnesi.

Eins og fram er komið tók Bjarni aftur til við myndlistariðkun þegar hann hætti í vinnu 68 ára. „Þegar ég sá möguleika á því fór ég aðeins að mála, en áður hafði ég alltaf viljað vera í skúlptúr. En það var ekkert pláss til slíkrar iðju. Ég keypti mér því trönur og liti og tók til við að mála, mér til skemmtunar og dægradvalar. Það kom mér satt að segja á óvart hvað þetta er gaman; þegar maður fer að vinna með liti þá opnast fyrir manni alveg nýr heimur – maður fer að sjá litbrigði sem maður hefur ekki séð í 40 ár. Þetta er svolítið eins og að vakna upp úti í náttúrinni snemma morguns. Rosalega gefandi,“ segir Bjarni um leið og hann sýnir blaðamanni nokkur nýleg verk sín, og trönurnar þar sem hann málar þau.

Valgerður bætir við að þau hafi líka verið að reyna að passa upp á heilsuna, „eins og manni er uppálagt að gera.“ Þau njóti góðs af kraftmiklu starfi Janusar Guðlaugssonar íþróttakennara, sem hafi gert samninga við sveitarfélögin um heilsuræktarprógramm fyrir eldri borgara. „Maður mætir!,“ segir Bjarni. „Það er erfitt að koma sér undan því þegar maður er kominn í svona félagsskap.“

Að endingu vekur Bjarni athygli á því að „nýjasta uppátækið“ sé að byggja sumarbústað uppi í Hvalfirði. „Ég kenni frú Valgerði algerlega um það. Hún var alltaf á móti því að kaupa sumarbústað, en hún kvað upp úr um það að nú væri kominn tími til þess,“ segir hann. Bústaðurinn verði tilbúinn í sumar. Þau hugsi sér gott til glóðarinnar að dvelja þar og njóta „milljón dollara útsýnisins“.

 

Auðunn Arnórsson, blaðamaður Lifðu núna, skrifar. 

Ritstjórn febrúar 4, 2022 07:00