Heyrnin er okkur nauðsynleg til að tengjast umhverfinu. Ef hún er farin að dala getur það hjálpað mikið að fá sér heyrnartæki, en þau verða stöðugt aðgengilegri og ódýrari, segir á AARP vef eftirlaunafólks í Bandaríkjunum. Þar er orðið hægt að kaupa sér tæki í apótekum, á sama hátt og menn kaupa í dag gleraugu án „recepts“ í ýmsum verslunum.
En hvort sem heyrnartækin eru fengin hjá sérfræðingum eða keypt í apótekum, þarf að venjast þeim og það getur tekið 2-4 vikur. Á meðan þarf að beita þolinmæði og prófa tækin virkilega vel. Hér fyrir neðan eru 8 atriði sem gott er að hafa í huga þegar menn byrja að nota nýtt heyrnartæki.
- Að venja sig á nýja heyrnartækið
Byrjaðu rólega, þegar þú ferð að nota heyrnartækið. Þín eigin rödd getur hljómað undarlega í gegnum það. Hljóðið berst ekki lengur í gegnum loftið og beint í eyrun á þér. Það má frekar lýsa því þannig að míkrafónn fangi hljóðið sem er síðan magnað upp og sent í gegnum sérstakan sendi aftur til eyrans. Það tekur yfirleitt tíma að venjast nýja hljóðinu. Mörgum fallast hendur þegar þeir byrja að nota heyrnartæki af því þeim finnst öll hjóðin vera of há. Umhverfishljóð verða meira ábherandi og það tekur heilann tíma að læra hvaða hljóð á að leggja áherslu á og hvaða hljóð á ekki að hlusta á.
- Að venjast eigin rödd og nota tækið allan daginn
Þér kann að finnast hjálp í því að fara með uppáhaldsbókina þína inn í herbergi, velja þægilegan stól og lesa upphátt fyrir sjálfa/n þig nokkrar mínútur á dag. Fólki er ráðlagt að nota heyrnartækið allan daginn á hverjum degi, í tvær vikur samfleytt. Þannig venst það hljóðum sem það tók ekki eftir áður en það fékk heyrnartækið. Það er þreytandi að nota nýtt heyrnartæki. Ef fólki finnst of mikið að nota það allan liðlangan daginn, er í lagi að taka það úr eyranu og hvíla svolitla stund, áður en það er sett í aftur.
- Láttu laga píphljóðið í tækinu
Margir hafa áreiðanlega veitt því athygli að stundum gefur heyrnartækið frá sér píp, svipað og flaut, ef eitthvað kemur of nálægt eyranu. Til dæmis ef þeir setja á sig húfu, trefil, eða taka utanum aðra manneskju. Hljóð sem berst að eyranu, fer þá beint í hljóðnemann í heyrnartækinu og úr verður leiðinda ískur eða píp. Mörg nútíma tæki eru hins vegar þannig útbúin að þau loka á slíkt hljóð, en það er miserfitt og getur farið eftir aðstæðum hvort það tekst eða ekki.
- Ekki sætta þig við óþægindi
Það er ýmislegt sem getur haft áhrif á það hversu vel heyrnartækin passa í eyrað. Ef fólk léttist getur það haft áhrif, of mikill eyrnarmergur getur líka orðið að tappa. Eyrnaverkur og kláði í eyranu getur bent til þess að mergur sé að safnast upp. Ef litla slangan sem liggur úr tækisfestingunni og inní eyrað sjálft hefur harðnað er ástæða til að ætla að það passi ekki lengur. Þá er rétt að leita ráða hjá sérfræðingi, til að tryggja að heyrnartækið virki eins og það á að gera.
- Lærðu að tempra hljóðin í tækinu
Heyrnartæki útiloka aldrei alveg hljóð sem við myndum helst vilja sleppa við, svo sem ískur í bremsum eða hnífapörum. Heldur ekki skrjáf í pappír eða hávaða frá ergilegu ungbarni. Fólki sem heyrir vel, finnst þessi hljóð heldur ekki þægileg. Ný heyrnartæki hafa skynjara sem geta dregið úr skyndilegum óhljóðum. Sum geta líka haldið í skefjum stöðugum hávaða frá íþróttaleikjum og tónlistarhátíðum. Enn önnur geta dregið verulega úr hljóði vegna vinds. Ef þér finnst of há umhverfishljóð í tækinu þínu þannig að það virkar truflandi, hafðu þá samband við heyrnarsérfræðing og athugaðu hvort tækið sem þú keyptir, eða ætlar þér að kaupa hafi slíkan útbúnað.
- Tengdu hljóðið við það sem þú sérð
Að hlusta á orð og lesa þau um leið, endurþjálfar heilann í að tengja saman hljóð og tungumál. Þetta er hægt að gera meðal annars með því að lesa textann um leið og þú horfir -og hlustar- á sjónvarpið. Einnig með því að lesa bók og hlusta samtímis á hana sem hljóðbók. Það hefur líka svipuð áhrif að fá einhvern til að lesa hátt grein í blaði eða tímariti, um leið og þú lest hana sjálf/ur af blaði.
- Haltu tækjunum hreinum.
Heyrnartækjum fylgja yfirleitt vörur til að þrífa þau. Klútur sem er notaður til að þurrka af þeim og lítill bursti til að hreinsa óhreinindi af tækinu. Besti tíminn til að þrífa heyrnartækið er á morgnana, þegar eyrnamergurinn á þeim hefur þornað yfir nóttina. Það eru til þurrkunartæki fyrir heyrnartæki sem notuð eru til að þurrka tækin yfir nótt, en líklega eru þau ekki mikið í notkun hér á landi. Fólk er varað við því að nota rennandi blauta klúta, venjuleg hreinsiáhöld eða sterk hreinsiefni á heyrnartækin.
- Passaðu eyrun
Flestir ættu að heyra lág hljóð og há í heyrnartækjunum sínum, en þau eiga ekki að vera óþægileg. Samt sem áður eru þeir til, sem finna til sársauka þegar háu hljóðin berast í heyrnartækinu. Ef sú er raunin, er best að fara til heyrnarsérfræðingsins sem seldi þér tækin og láta endurstilla þau, þannig að háu hljóðin verði ekki óbærileg en lægri hljóðin haldi sér eins og áður.