Sýnum eldra fólki áhuga og gefum því tíma

Þeim einkaaðilum sem veita eldri borgurum þjónustu heima hefur farið fjölgandi á síðustu árum. Auk sveitarfélaganna má nefna Sinnum og Sóltún Heima á höfuðborgarsvæðinu, sem nú veita fólki slíka þjónustu. Hjá  Sóltúni Heima er boðið uppá almenna heimaþjónustu, heimahjúkrun, félagsstarf og  heilsueflingu.

Hjúkrunarheimilið Sóltún hefur komið á fót heimaþjónustu

Hvernig þjónustu vill fólk?

„Fólk hefur ýmist samband við okkur sjálft, eða aðstandendur gera það. Fólk hefur oft einhverja aðstoð, en finnst það þurfa meiri hjálp eða sú aðstoð hentar ekki af einhverjum ástæðum“, segir Inga Lára Karlsdóttir hjúkrunarfræðingur og hjúkrunarstjóri hjá Sóltúni Heima. „Það er ekki alltaf ljóst hvernig aðstoð menn þurfa, það veit það oft ekki sjálft og þá hittum við fólk og ræðum við það, og komum með tillögur um hvað best sé að gera. En stundum er þetta klippt og skorið og menn vilja til dæmis aðstoð við að komast á fætur, eða hjálp við ákveðin verk á heimilinu. Þetta er mismunandi. Stundum er beðið um aðstoð fyrir einhvern sem er orðinn framtakslaus eða veikburða. Við ræðum við fólkið og reynum að meta hvað þarf að gera. Við ræðum það líka við viðkomandi einstakling, hvað hann hefur áhuga á að gera. Finnst honum gaman að fara út að ganga, en getur það ekki lengur? “

Félagslegi þátturinn mikilvægur

Að sögn Ingu Láru er einnig metið hvort fólk þarf aðstoð við mat, þarf til dæmis að taka til eitthvað gott og nærandi fyrir það að borða. „Það hefur verið mikil umræða um næringarskort meðal eldra fólks eins og við vitum. Við getum hjálpað fólki að gera innkauplista og fara í búð, eða farið fyrir það í búð ef svo ber undir.  Við hvetjum fólk líka til að drekka vökva og reynum að finna eitthvað sem því finnst gott“.  Inga Lára bætir við að stundum sé fólk nýkomið heim af sjúkrahúsi og þurfi aðstoð tímabundið, til dæmis við böðun eða aðra aðstoð því það getur ekki hugsað um sig sjálft á meðan það jafnar sig.

Þá sé félagslegi þátturinn mikilvægur  „Við sýnum fólki áhuga og gefum því tíma. Reynum líka að vekja áhuga hjá þeim sem hafa ekki lengur þrótt til að sinna áhugamálum sínum. Við hjálpum því annað hvort til að uppfylla gamla drauma eða  fara út á meðal fólks. Förum kannski út að ganga og setjumst á bekk til að horfa á litlu börnin á leikskólanum. Eitthvað sem fólk hafði gaman af að gera en getur ekki gert lengur“, segir hún.

Inga Lára

Ekki senda of marga inn á heimilið

Sóltún Heima leggur uppúr því að senda fáa starfsmenn heim til fólks, helst alltaf þann sama. Nema verkefnið sé þeim mun umfangsmeira, þá þurfa fleiri starfsmenn að koma að málum. „Við leggjum áherslu á að ná persónulegum tengslum við fólk til að ná að veita betri þjónustu sem hentar viðkomandi. Fólk er oft vart um sig, sérstaklega til að byrja með, er kannski vant að sjá um sig sjálft og hefur ekki þurft á aðstoð að halda. Það þarf að byggja upp traust og ef það tekst eru fleiri leiðir færar. Ef menn treysta starfsmönnum okkar, náum við betri árangri og sjáum betur hvað fólk er fært um að gera.  Við reynum að fylgjast vel með þróun heilsufars viðkomandi, bæði líkamlegu og andlegu og miðum mönnunina út frá því hversu krefjandi aðstæður eru og ástand viðkomandi er. Ef við sjáum að það er þörf fyrir að huga betur að heilsunni, sendum við heilbrigðisstarfsfólk á staðinn. Stundum blöndum við saman félagslegu aðstoðinni og heilbrigðisþættinum. Ef fólk fær aðstoð við að fara í bað, þá er hægt að skoða í leiðinni hvernig fólk sefur, hvort það er með sár, hvernig það nærist, hvort það er með verki og ýmislegt annað“, segir Inga Lára.

Sorgin sem fylgir því að eldast

„Það er þessi stuðningur við fólk svo það geti búið lengur heima sem er svo mikilvægur. Það er oft rætt um hann, en í hverju felst þessi stuðningur“ spyr Inga Lára. „Það þarf að ræða við fólk og þegar búið er að ná sambandi er hægt að finna út hvers það þarfnast. Stundum þarf fólk einhvern sem er tilbúinn að hlusta á það. Það fylgir því oft sorg að eldast. Menn horfa á eftir mökum og vinum yfir móðuna miklu og ekki má gleyma sorginni sem getur birst ef maki veikist af heilabilun, þarf að dvelja lengi á spítala eða flytur á hjúkrunarheimili. Það er mikill missir þegar fólk er kannski í senn, að missa heimilið sitt, heilsuna, maka og vini.  Þetta er vandmeðfarið.  Það þarf að styðja fólk, gefa því tíma og tala við það“, segir hún.

Styktarþjálfun gerir fólk meira sjálfbjarga

Sóltún Heima er með heilsuhópa í tækjasal og vatnsleikfimi en býður fólki líka uppá styrktarþjálfun heima, að danskri fyrirmynd, því það komast ekki allir út af heimilinu til að sækja sér heilsueflingu. Markmiðið með styrktarþjálfuninni á heimilinu er að hjálpa fólki til að vera sjálfbjarga lengur, þannig að það geti búið lengur heima og þurfi ekki að fara inná stofnanir. Það er til mikils að vinna að stunda þessa þjálfun, sem dregur til dæmis úr fallhættu. Inga Lára minnir á að það felast líka í því lífsgæði að geta staðið uppúr rúminu sjálfur, eða farið á salerni. „Við þurfum að fara að stíga inní nútímann og huga að því hvernig við ætlum að mæta þörfum vaxandi hóps eldra fólks.  Menn þurfa félagslegan og andlegan stuðning og hvatningu, allir þurfa hvatningu, og einnig styrktarþjálfun. Það er sterkur leikur að láta á þetta reyna“, segir Inga Lára.  Sóltún Heima þjónustar fjölda einstaklinga á höfuðborgarsvæðinu og er einnig með verkefni í samstarfi við Reykjavíkurborg sem 20 einstaklingar taka þátt í. „Það er okkar markmið að koma því þannig fyrir að sveitarfélögin geti veitt þessa þjónustu með því að þjálfa upp fólk til að sinna þessu. Það er alveg ljóst að við munum ekki hafa nægan fjölda sjúkraþjálfara eða íþróttafræðinga til að þjálfa eldra fólk í framtíðinni, hvað þá á heimili þess, en danska kerfið er einfalt og hægt að nota það með því að þjálfa upp starfsmenn með margvíslegan bakgrunn til að sinna styrktarþjálfuninni.  Inga Lára segir það líka gefandi fyrir starfsmenn heimaþjónustunnar að sjá hvað fólk eflist ótrúlega við styktarþjálfunina, í stað þess að horfa uppá hrörnun og missi.

Eldra fólk vill hafa áhrif á líf sitt

Inga Lára segir að Sóltún Heima vilji hafa þjónustuna sveigjanlega og alls ekki stofnanalega. Það sem sé mikilvægt fyrir einn einstakling sé ekki endilega stórt atriði fyrir annan. Fólk ýmist hringir í Sóltún Heima eða sendir tölvupóst ef það vill kynna sér þjónustuna og starfsmenn mæta síðan og ræða við fólk í fyrstu heimsókninni, því að kostnaðarlausu.  Þjónustan sem veitt er, er vissulega dýrari en sú þjónusta sem sveitarfélögin veita þar sem hið opinbera niðurgreiðir ekki þjónustuna.  „Þrátt fyrir að fólk greiði meira fyrir þjónustuna okkar en það sem býðst hjá sveitarfélögunum, þá eru margir sem taka okkur fram yfir því við leggjum okkur fram við að veita sérsniðna, umfram allt sveigjanlega, persónulega og framúrskarandi þjónustu sem kemur til móts við raunverulegar þarfir og langanir eldri borgara og fjölskyldna þeirra.  Okkar sýn er sú að eldra fólk ætti að eiga meira val um þjónustuna sem það fær, því eitt hentar ekki öllum. Við vonum að með tíð og tíma fái aldraðir  ávísun með þjónustunni sem þeir eiga rétt á frá hinu opinbera og velji hvort þeir þiggi þjónustu frá sveitarfélagi eða einkafyrirtæki. Það er allra hagur.“

Heima eða hjúkrunarheimili

Fólk þarf að skoða vel þegar heilsunni hrakar hvaða valkostir eru í stöðunni og hvaða afleiðingar ákvarðanirnar hafa á fjárhag heimilisins. Það er oft erfitt ef tveir hafa búið saman í áratugi og annar fer á hjúkrunarheimili, sérstaklega ef það er tekjuhærri aðilinn. Það er full ástæða til að skoða það hvort kostnaðurinn við góða heimaþjónustu geti í því tilviki verið minni, en það kostar í tekjulækkun fyrir heimilið að viðkomandi fari á hjúkrunarheimili. Stundum er hægt að velja í staðinn góða heimaþjónustu að minnsta kosti lengur, en það er ekki alltaf. Það er ekkert eitt sem hentar öllum.

Hægt er að hafa samband við Ingu Láru Karlsdóttur í síma 5631400, og í gegnum netfangið soltunheima@soltunheima.is.  Frekari upplýsingar eru einnig á vefnum  www.soltunheima.is.

Sjá líka Upplýsingabanka Lifðu núna þar sem finna má margvíslegar upplýsingar um réttindi og þjónustu við eldri borgara.  www.info.lifdununa.is

 

 

 

Ritstjórn nóvember 27, 2018 07:43