Sextug gamalmenni og níræðir unglingar

Óskar Jón Helgason

Óskar Jón Helgason

„Það er aldrei of seint að byrja að hreyfa sig“, sagði Óskar Jón Helgason á kynningarfundi sem haldinn var nýlega í Heilsuborg fyrir fólk í Félagi eldri borgara í Reykjavík. Óskar Jón er sjúkraþjálfari sem hefur unnið að endurhæfingu fólks á öllum aldri og gegnir núna starfi forstöðumanns heilbrigðisþjónustu hjá Heilsuborg. „Við höfum fengið hingað inn sextug gamalmenni og níræða unglinga“, segir Óskar. Hann sagði á fundinum frá rannsókn sem gerð var á 10 körlum á aldrinum 90-92 ára. Þeir voru fengnir til að stunda átta vikna styrktarprógramm. Við það jókst styrkur þeirra um 174%, ummál vöðva í lærum jókst um 9% og hámarksgönguhraði um 48%.

Auðveldara að viðhalda kjörþyngd

Hreyfingin eykur styrk, þol og liðleika auk þess sem efnaskipti líkamans batna, sem gerir fólki auðveldara að viðhalda kjörþyngd. Hreyfingin hefur áhrif á blóðþrýsting og blóðfitur og styrkir bein svo jafnvægi batnar og menn dettur síður. Hreyfingin bætir svefn og Óskar segir að það sé líka að koma betur og betur í ljós hvað hún hefur mikil áhrif á andlega líðan fólks. Útgáfa hreyfiseðla í stað lyfseðla er til marks um mikilvægi hreyfingar fyrir heilsuna. Læknar senda fólk með hreyfiseðla í Heilsuborg.

Taka strætó og ganga stiga

Það er mikilvægt að vera líka virkur líkamlega í eigin lífi. „Einstaklingur sem er mjög vikur á daginn er í mikilli hreyfingu og það hefur mikið að segja“, segir Óskar. „Þó menn fari tvisvar í viku í ræktina, þá hefur það ekki mikið að segja, ef þeir sitja svo kyrrir heima hjá sér þess á milli“. Og það eru ýmsar leiðir til að auka daglega hreyfingu. Það er til dæmis hægt að leggja bílnum, taka strætó, hjóla eða ganga. Ganga stigana í stað þess að taka lyftuna. Leggja bílnum svolítið fjær þannig að menn þurfi að ganga líka. Svo eru það heimilisverkin og garðurinn. Þá er hægt að viðra barnabörnin, fara út að ganga með vinum sínum, eða viðra hundinn, fyrir þá sem eiga hund. Menn geta mælt daglega virkni með skrefamæli. Þeir sem ganga færri en 5000 skref á dag eru til dæmis taldir kyrrsetumenn.

Heilsuborg, sem býður uppá fjölbreytta hreyfingu fyrir sextíu plús, er í samstarfi við Félag eldri borgara í Reykjaví í heilsuátaki sem miðar að því að fá fólk til að hreyfa sig meira og lifa heilbrigðara lífi.

Ritstjórn október 12, 2015 12:52