Brjálað stuð í Zumba hjá Tanyu

Það fá allir fiðring í tærnar sem ganga inní Zumba tíma hjá Tanyu Dimitrovu líkamsræktarkennara með meiru, en hún er með Zumba tíma hjá Félagi eldri borgara í Reykjavík og nágrenni tvisvar í viku.  Þegar blaðamaður Lifðu núna leit inn í tíma hjá henni, var gríðarlegt stuð í mannskapnum, sem dansaði og söng af mikilli innlifun, í skærlitum æfingafatnaði og konurnar með  glitrandi slæður um mittið.

Rauður varalitur nauðsynlegur

Nemendurnir sem rætt var við eiga varla orð yfir hana Tanyu.  Henni er lýst sem yndislegri, litríkri, líflegri, og auðvitað sem orkubolta. Blaðamaður Lifðu núna var ekki fyrr kominn inn í tíman hjá henni en hann fór allur á ið og steig nokkur dansspor í takt við tónlistina sem var mjög fjörug. Hann hugsar: „Vááá ég vil fara í Zumba!!!“ Hann er hins vegar ekki rétt klæddur, því hún Tanya vill hafa liti, skart og glimmer í búningunum hjá sínu fólki.  Já og rauðan varalit – það virkar!

Fannst hún svo innilega velkomin

Þetta er ótrúlega skemmtilegt eins og sjá má af myndunum sem fylgja þessari grein. (sjá slides hérna neðst) Tónlistin  er heldur ekki af verri endanum fyrir þá sem eru fæddir í kringum 1950, Bítlanir, Abba og fleiri snillingar. Hlíf Anna Dagfinnsdóttir er nýbyrjuð og ljómar af gleði. „Það tóku allir svo vel á móti mér, föðmuðu mig og buðu mig velkomna – líka kennarinn. Þetta er svo góður hópur og mér fannst ég svo innilega velkomin. Ég er með Parkinson og hef ekki hreyft mig í 10 ár“, segir hún alsæl.  Hjónin Aðalsteinn Aðalsteinsson og Elísabet Proppé hafa verið hjá Tanyu í Zumba frá því hún byrjaði með tímana fyrir tæpum 5 árum. Konurnar eru mun fleiri er karlarnir í tímunum, en  Aðalsteinn segir að þeir komi meira og fari. „Þeir koma í svona 1-2 tíma“, segir hann.

Fær alla til að hreyfa sig

Tanya er ljóshærð og glaðleg kona. Hún klæðir sig í mjög litríka líkamsræktarbúninga. Hjá henni eru hlutirnir ekki í svart hvítu. Það er þvílíkt stuð í tímunum hjá henni, ekki dauð mínúta. Það má segja að hún sé leynivopnið í líkamsræktinni hjá Félagi eldri borgara í Reykjavík, því hún hlýtur að geta  fengið alla til að hreyfa sig, sama á hvaða aldri þeir eru. Auk þess að vera líkamsræktarkennari með áherslu á Zumba, er hún með meistaragráðu í ensku, ítölsku,  og enskum og ítölskum bókmenntum frá Háskóla Íslands.  Hún rekur líka lítinn og persónulegan heilsuskóla. Smellið hér til að skoða hreyfingu í Upplýsingabanka Lifðu núna.

Sjáið myndirnar!!

 

Ritstjórn september 28, 2018 16:20