Heilsulind mönnuð færustu sérfræðingum

Það er hægt að fá mikla hreyfingu útúr gönguferðum um húsið

Það er hægt að fá mikla hreyfingu útúr gönguferðum um húsið

Milli 1800 og 2000 manns koma til dvalar á Heilsustofnun Náttúrulækningafélags Íslands í Hveragerði á hverju ári og að meðaltali eru þar um 130 dvalargestir á hverjum tíma. Langflestir eða milli 1600-1800 manns koma í endurhæfingu með beiðni frá lækni. Sumir eru að jafna sig eftir slys eða önnur áföll.   Lifðu núna brá sér í Hveragerði og skoðaði starfsemina þar og á næstunni verða birtar greinar úr ferðinni hér á síðunni. Það sem fyrst vekur athygli manns á staðnum eru langir gangar, sem liggja milli álma í stofnuninni, en húsin eru öll á einni hæð.  Það getur verið mjög hressandi að skokka eftir þessum göngum og við hittum einn starfsmann á hlaupahjóli á göngu okkar um húsið.

Þverfaglegt starf

Á Heilsustofnun starfa hátt í eitthundrað manns. Um helmingur þeirra er með heilbrigðismenntun. Þannig starfa 4 læknar á stofnuninni, 20 manns á hjúkrunardeild, 8 manns í sjúkraþjálfun, 6 manns í nudd og baðdeild en einnig eru sálfræðingar, nálastungulæknir og næringafræðingur starfandi þar. Það er því þverfaglegur hópur sem að meðferðinni kemur. Hérna fyrir neðan er lýsing á endurhæfingunni sem fram fer á stofnuninni, eins og henni er lýst á heimasíðu HNLFÍ.

Hjarta-, æða- og lungnaendurhæfing

Meðferðin hentar einstaklingum sem greinst hafa með hjartasjúkdóma eða áhættuþætti þeirra. Hún hentar einstaklingum með kransæðaþrengsli eða önnur æðaþrengsli og þeim sem gengist hafa undir hjarta- eða kransæðaaðgerðir. Meðferðin hentar einnig einstaklingum með lungnasjúkdóma.

Geðendurhæfing

Meðferð í geðendurhæfingu hentar einstaklingum með þunglyndi eða kvíða, einnig einstaklingum sem glíma við lífskreppur eftir áföll svo sem skilnað, sjúkdóma, atvinnumissi, ástvinamissi, gjaldþrot eða fjölskylduvandamál. Meðferðin gæti einnig hentað þeim sem þurfa aðstoð sem brú milli spítaladvalar og heimferðar.

Gigtarendurhæfing

Meðferðin hentar einstaklingum með skerta færni og/eða lífsgæði vegna gigtarsjúkdóms. Boðið er uppá einstaklingsbundna gigtarendurhæfingu, fjölbreytta hreyfingu, slökun og fræðslu um hollar neysluvenjur og heilbrigðan lífsstíl.

Krabbameinsendurhæfing

Meðferðin hentar þeim sem vilja öðlast aukinn styrk, betri heilsu og bætta líðan í kjölfar krabbameinsmeðferðar, eða á milli meðferða.

Liðskiptaendurhæfing

Meðferðin hentar einstaklingum með skerta færni í kjölfar bæklunaraðgerða, t.d. liðskiptaaðgerða.

Öldrunarendurhæfing

Meðferð í öldrunarendurhæfingu er fyrir eldri einstaklinga sem hafa andlegt og líkamlegt þrek til að taka þátt í virkri meðferð í hóp.

 

Greiða heilsudvöl sjálfir

Nokkur hópur fólks kemur svo í svokallaða heilsudvöl í Hveragerði, en hana panta menn sjálfir og þurfa þá ekki beiðni frá lækni. Þá er hægt að dvelja í Hveragerði í nokkra daga og menn greiða dvölina að fullu sjálfir. Vikudvöl kostar einstakling yfir 60 ára rúmlega 100 þúsund krónur, en þá er allt innifalið, gisting fæði og aðgangur að vatnsleikfimi, gönguferðum undir leiðsögn, slökun og fyrirlestrahaldi.

 

 

 

Ritstjórn mars 19, 2015 12:14