Það er ekki mat Ásdísar Valsdóttur fasteignasala hjá Húsaskjóli í Kópavogi að fasteignamarkaðurinn sé botnfrosinn. Hún segir að menn spyrji gjarnan að því á fasteignasölunni þessa dagana hvort ekki sé best að bíða með fasteignakaup og sölu á meðan markaðurinn sé að rétta úr kútnum. Hennar mat er að markaðurinn sé kominn í ákveðið jafnvægi og hjá Húsaskjóli seldust nokkrar eignir um jól og áramót. „Það er að verða undantekning að eignir seljist yfir ásettu verði, en margar eru samt að seljast á ásettu verði eða rétt undir því“, segir hún.
Lækkun að raunvirði
Húsaskjól sendir mánaðarlega frá sér greiningar á fasteignamarkaðinum, sem hagfræðingurinn Halldór Kári Sigurðsson sér um. Í nýjustu greiningarskýrslunni kemur fram að húsnæðisverð hafi lækkað um 0,3% í nóvember og þar með einungis hækkað um 0.7% að nafnvirði síðan í júlí og lækkað að raunvirði. Kaupsamningum hefur fækkað um fjórðung. Þá er útlit fyrir að byggðar verði 1700 íbúðir umfram langtímaþörf, á árunum 2022-2024. Þetta mun að mati skýrsluhöfundar ýta undir verðlækkanir á fasteignamarkaðinum á næstu árum. Sjá greiningaskýrsluna hér.
Best að selja fyrst og kaupa svo
Hvað sem markaðnum líður, þarf ungt fólk sem er að byrja að búa, helst að eignast húsnæði og eldra fólk sem er orðið eitt í stórum fasteignum vill gjarnan minnka við sig. „ Ef þú átt eftir að kaupa og selja í dag þá er langfarsælast að selja fyrst og kaupa svo, þar sem þú veist þá nákvæmlega hvað þú ert með í höndunum þegar þú festir þér draumaeignina“, segir Ásdís. „Þú ert alltaf betri kaupandi ef þú þarft ekki að gera fyrirvara um sölu og greiðslumat“.
Ef fólk hefur áhuga á að skoða markaðsverð íbúða eftir svæðum, er hægt að nýta sér nýtt forrit Húsaskjóls, Verðsaga heitir það og þar er hægt að skoða alla þinglýsta kaupsamninga frá 2006 til dagsins í dag. Það getur verið bæði gagnlegt og fróðlegt að skoða það. Sjá hér. Þá er einnig boðið upp á fría ráðgjöf hjá Húsaskjóli.