Hjónin Dóra Stefánsdóttir og Stefán Rafn Geirsson bjuggu í vetur í þorpinu Arguineguín á eynni Gran Canaría í hinum fræga Kanaríeyjaklasa. Fyrir viku birtum við fyrstu grein Dóru um þessa vetrardvöl og hér kemur önnur. Þriðja greinin verður birt eftir viku.
Áður en ég lagði í þessa vetrardvöl, hafði ég nokkrar áhyggjur af því að mér myndi leiðast. Við hjónin höfum áður dvalið þetta 2-3 vikur í sólinni að vetri til og hefur mér fundist það alveg nóg. Skemmst er hins vegar frá því að segja að ég ákvað finna mér ýmislegt til dundurs og hefur það gengið svona líka ljómandi vel.
Göngur
Hinar daglegu gönguferðir taka sinn tíma. Við búum á lágu nesi sem umkringt er giljum og þarf að fara upp og niður tröppur til að komast niður að sjó eða að krækja fyrir löng og djúp gil. Verslanir eru niðri við sjó og veljum við frekar að fara margar ferðir og kaupa lítið í einu en að burðast með mjög þungar byrgðar. Við leggjum svo lykkjur á leiðir okkar til þess að fá nægilega hreyfingu og setjumst jafnvel á bekk, horfum út á hafið og leysum lífsgátuna (að okkar mati). Við höfum aðeins gengið um í fjöllunum en vorum ekki með nægilega góða skó til þess að fara í alvöru fjallgöngur. Jarðvegur hér er mjög laus í sér og ég þekki því miður fólk sem dottið hefur illa og jafnvel handleggsbrotnað. Því verður pakkað niður bæði góðum skóm og göngustöfum til næstu dvalar.
Prjónles
Norðmenn eru langstærsti hópur erlendra gesta í Arguineguín. Þeir eru hér með margvíslega starfsemi og það sem ég hef nýtt mér mest í vetur eru hinir vikulegu prjónaklúbbar. Við hittumst á veitingahúsi síðdegis á fimmtudögum og prjónum og skvöldrum í 2-3 tíma. Norsk hjón reka litla verslun með garn og prjónavörur og því er hægt að fitja upp á einhverju nýju, jafnskjótt og lokið er við það gamla. Auðvitað gengur svo ekki annað en að prjóna heima á milli klúbbfunda, annað hvort úti á palli eða inni í sófa. Ég bókstaflega gleypi í mig hljóðbækur á meðan prjónarnir tifa og hef ég enga tölu á fjölda hljóðbóka vetrarins. Við hlustum einnig mikið á útvarp að heiman og missum nær aldrei af sjónvarpsfréttunum.
Yoga
Mér tókst að finna mér yogahóp sem hittist tvisvar í viku við sjóinn. Þjálfarinn okkar er kona frá Tékklandi en við þátttakendur eru frá ýmsum löndum Evrópu. Æft er við sólarlag og þegar kaldast var í vetur, var gott að vera í bæði ullarbol og peysu þegar sólin var sest. Margir kostir fylgja því að æfa svona úti, þó talsverðan viljastyrk þurfi til á köldustu dögum.
Ferðalög
Ýmsir möguleikar bjóðast hér til ferðalaga. Ódýrast er vitaskuld að taka strætisvagna sem keyra hér um allt, jafnvel til afskekktustu þorpa. Það getur hins vegar tekið tímann sinn og því er freistandi að leigja sér bíl öðru hverju og skoða sig um á eigin vegum. Malbikaðir vegir liggja upp í hæstu fjallatinda. Þeir eru sumir mjóir og bugðóttir og fer stundum um lofthræddar sálir eins og mig. Það er hins vegar á sig leggjandi, bæði er mikil náttúrufegurð og þorpin hvert með sínu móti.
Hægt er að fljúga eða taka ferjur til hinna eyjanna. Þeir sem eru með fast aðsetur á eyjunum, fá verulegan afslátt af slíkum ferðum, við hin borgum þrefalt þeirra verð. Þegar við komum í haust, lentum við á Tenerife og tókum innanlandsvél hingað til Gran Canaria sem var hin þægilegasta ferð og kostaði um 16 þúsund ÍKR fyrir hvort okkar.
Við keyptum okkur svo eina ferð til útlanda héðan. Fórum með spænskri ferðaskrifstofu héðan í vikuferð til Marokkó. Ekinn var stór hringur um þetta mikilfenglega land og hefðu bæði bílstjóri og leiðsögumaður vart tekið í mál slíkan þrældóm á Íslandi. Við vorum sjálf oft komin að niðurlotum en munum lengi minnast svo ótal margs sem við upplifðum.