Þrjár kynslóðir ungra stelpna hér á landi dreymdi um að verða eitthvað í líkingu við Nancy Drew, Beverly Gray eða Rósu Bennett þegar þær yxu úr grasi. Þessar kvenhetjur stúlknabókanna áttu það sameiginlegt að vera laglegar, greindar, metnaðarfullar og sjálfstæðar. Ekki svo slæmar fyrirmyndir þegar upp er staðið þótt líklega séu fáar ungar konur nú á dögum uppteknar af þeim. Engu að síður voru nýlega gerðir sjónvarpsþættir um Nancy Drew, ekkert líkir bókunum og flugfreyjur heilla enn í dag ef marka má sjónvarpsseríur og kvikmyndir.
Bækurnar um Beverly Gray hófu að koma út árið 1934. Alls urðu bækurnar tuttugu og sex talsins áður en hætt var að gefa þær út. Höfundurinn hét Clarissa Mabel Blank Moyer og kallaði sig Clair Blank. Hún var fædd 5. ágúst 1915 í Allentown í Pennsylvaníu. Hún útskrifaðist árið 1933 úr menntaskóla eða high school og ári síðar kom út fyrsta bókin um Beverly. Hún hafði því fengið útgefna eftir sig bók áður en hún náði átján ára aldri og fjórar þegar hún varð tvítug. Eiginmaður hennar George Moyer sagði eftir dauða hennar að hún hefði verið búin að skrifa þær allar meðan hún var enn í námi.
Beverly var blaðamaður með mikinn metnað og næmt fréttanef. Hún var víðförul og tókst alla tíð vel upp þegar leysa þurfti flókin mál. Ýmsir karlmenn heillast af henni í bókunum meðal annars æskuvinur hennar Jim Stanton en leynilögreglumaðurinn og flughetjan Larry Owens vinnur hjarta hennar að lokum. Ólíkt söguhetju sinni ferðaðist Clair ekki um og skrifaði fréttir og leitaði upp áhugaverðar persónur. Hún þurfti því að nota ímyndunaraflið til að skapa alla þá framandi og fallegu staði sem Beverly heimsótti. Clair lauk háskólanámi og vann eftir það sem einkaritari. Meðan á seinni heimstyrjöldinni stóð bauð hún sig fram til að hjálpar og var fengin til að aka herforingjum um heimabæ sinn þegar þeir komu þangað í heimsóknir. Hún hætti að vinna úti eftir að hún giftist en skrifaði ævinlega meðfram heimilishaldinu. Hún eignaðist tvo syni annan árið 1947 en hinn 1953. Hún varð ekki langlíf en árið 1960 greindist hún með krabbamein og lést árið 1965 nýorðin fimmtug.
„Beverly var blaðamaður með mikinn metnað og næmt fréttanef. Hún var víðförul og tókst alla tíð vel upp þegar leysa þurfti flókin mál. Ýmsir karlmenn heillast af henni í bókunum meðal annars æskuvinur hennar Jim Stanton en leynilögreglumaðurinn og flughetjan Larry Owens vinnur hjarta hennar að lokum.“
Söguhetjan og höfundurinn ólíkar
Hætt var að gefa út bækurnar um Beverly árið 1955 en út höfðu komið sjö bækur þegar nýr útgefandi tók við keflinu og endurútgaf fyrstu sex. Hann kaus hins vegar að sleppa sjöundu bókinni í óþökk höfundarins og því finnst mörgum vanta í seríuna eins og hún liggur oftast fyrir í dag. Ýmis atvik sem verða í bókinni Beverly Gray á heimssýningunni eru nefnilega nefnd í þeim bókum sem á eftir koma. Þetta kom til einmitt vegna þess hve höfundurinn var ólíkur sögupersónu sinni því stór hluti af lýsingum á aðstæðum í París virðast teknar beint upp úr ýmsum ferðabókum. Útgefandinn óttaðist að verða lögsóttur fyrir ritstuld og kaus þess vegna að hætta ekki á endurútgáfu. Hins vegar þarf sennilega ekki að segja áhugasömum að fyrsta útgáfa þessarar sjöundu bókar er safngripur í dag og selst dýrum dómum. Leynist hún í bókaskáp einhverra íslenskra aðdáenda er áreiðanlega hægt að selja hana á e-bay þótt vissulega sé um þýðingu að ræða en ekki frumútgáfu. Clair reyndi fyrir sér með fleiri söguhetjur og hóf að skrifa um ævintýrastelpurnar tveimur árum eftir að hætt var að gefa út Beverly Gray bækurnar. Þær urðu þó aðeins þrjár.
Á sjötta áratug síðustu aldar fóru að koma út hér á landi sögur af Rósu Bennett. Stúlkan sú var yndisfögur en jafnframt ákaflega fórnfús og umhyggjusöm. Hún var tilbúin að leggja allt í sölurnar fyrir sjúklinga sína og lagði sig því alla fram um að leysa ýmis dularfull mál sem ævinlega virtust dúkka upp hvar sem Rósa réð sig í vinnu. Þessar bækur voru upphaflega skrifaðar á ensku og á því máli heitir hjúkkan góða Cherry Ames, fyrra nafnið stytting úr Charity. Hvers vegna það varð að Rósa Bennett á íslensku verður þýðandinn að svara. Fyrsta bókin kom út árið 1943 en sú síðasta árið 1968. Helen Wells skrifaði fyrstu sjö en síðan tók Julie Campell Tatham við frá 8 til 16. Þá tók Helen aftur við keflinu og skrifaði 17-27. Fyrstu bækurnar fjalla um nám og þjálfun Cherry eða Rósu. Í fyrstu var ætlunin að hvetja ungar konur til að læra hjúkrun og hjálpa til við umönnun slasaðra hermanna. Síðar fóru þær að snúast meira um sakamálin sem Rósu tókst ævinlega að leysa hvort sem hún vann á sjúkrahúsi, hvíldarheimili eða heilsugæslu. Hún var alla tíð ógift en af og til skutu upp kollinum læknar sem heilluðust af fegurð þessarar snjöllu konu og vegna þess hve náttúrulega rjóðar kinnar hennar voru var henni reglulega skipað af þessum sömu læknum og þvo framan úr sér andlitsfarðann. Bæði Helen og Julie skrifuðu fleiri stúlknaseríur um aðrar hetjur.
Höfundur bókanna um Nancy Drew, Carolyn Keene, var hins vegar margslungnari persóna. Þetta var nafn valið af útgefendunum Grosset & Dunlap og margir höfundar sem stóðu að baki. Það var Edward Stratemayer sem átti hugmyndina og mótaði ímynd aðalpersónunnar. Eftir 57 bækur árið 1979 tóku Simon & Schuster við Nancy og héldu áfram að segja sögur af henni til 2003. Af einhverjum ástæðum náðu þeir ekki flugi með seríuna og vinsældir Nancyar tóku að dala. Fyrstu bækurnar þykja hins vegar klassík en hin sjálfstæða, snjalla Nancy var ekki bara með athyglisgáfuna í lagi, hún var góður vinur vina sinna, heiðarleg og samkvæm sjálfri sér. Þótt leiða megi getum að því að allir þeir er ljáðu Carolyn Keene penna sína hafi sett ákveðinn svip á sína bók var Nancy samt merkilega staðföst. Hún breyttist þó með tíðarandanum og náði að tileinka sér nýja tækni, klæðaburð og viðhorf. Sú Nancy sem ungar stúlkur nutu þess að lesa um miðbik síðustu aldar var því að talsvert öðruvísi en sú sem kynnast mátti í síðustu bókunum. Hún var engu að síður sterk fyrirmynd og konur eins og hæstaréttardómararnir Susan Sotomayor og Sandra Day hafa sagt að hún hafi verið áhrifvaldur í lífi þeirra. Hillary Clinton hefur einnig nefnt að lestur bókanna um hana hafi hvatt sig til að afla sér menntunar og sjálfstæðis. Hið sama á áreiðanlega við um margar íslenskar konur. Þótt stundum hafi verið talað um þessar stelpubækur af ákveðnu yfirlæti verður ekki framhjá því litið að þær töluðu inn í annan samtíma og sýndu konum að metnaður þeirra var kostur en ekki galli.