„Ég legg alltaf ríka áherslu á að erfðaskrá sé lifandi skjal sem við eigum að vakta“ segir Elín Sigrún Jónsdóttir lögmaður og eigandi fyrirtækisins Búum vel, sem sérhæfir sig í aðstoð við eldri kynslóðina. „Ég legg áherslu á að fólk sem hefur gert erfðaskrá, skoði hana að lágmarki á fimm ára fresti og spyrji sig. Er það svona sem ég vil að þetta sé, ef ég fell frá á morgun?“. Hún segir að það geti verið svo margt sem geti breyst í lífi fólks á fimm til tíu árum. „Tengsl við fólk breytast. Við vorum kannski í góðum tengslum við fólk, sem við höfum engin tengsl við í dag. Eigna- og skuldastaða okkar getur breyst og síðan fylgja ákveðnar breytingar hækkandi aldri“, segir hún.
Öðruvísi að gera erfðaskrá á fimmtugsaldri
Hún segir fólk hugsa öðruvísi um erfðamálin þegar það er á fimmtugsaldri en þegar aldurinn færist yfir. Á fimmtugsaldrinum vilji það gera erfðaskrá sem tryggi því setu í óskiptu búi, ef börnin eru ekki öll samfeðra og -mæðra. Þá vilji það einnig tryggja að arfur barnanna verði séreign þeirra. Á sjötugs- og áttræðisaldri, sé annað uppá teningnum. „Þá eru vinirnir farnir að týna tölunni og dauðinn að færast nær, en fjarlægð eða nálægð við dauðann skiptir máli þegar erfðaskrá er gerð. Þeir sem eldri eru, huga oftar að þeim sem minnst hafa í nærumhverfinu, hver er það sem þarf á mestri aðstoð að halda og hver er það sem hefur reynst mér best? En þeir sem eiga skylduerfingja, það er maka eða börn mega ráðstafa allt að 1/3 eigna sinna með erfðaskrá og þeir sem ekki eiga skylduerfingja mega ráðstafa öllum sínum eignum með erfðaskrá, án tillits til lögerfingja.
Muna ekki lengur hvað var í erðaskránni
Elín segir að það sé gott að gera sér grein fyrir því, hvers vegna fólk geri erfðaskrá og hvaða þættir það séu sem þurfi að endurskoða. Algengustu ástæður þess að fólk geri erfðaskrá eru.
- Réttur til að sitja í óskiptu búi.
- Arfur barna verði séreign þeirra
- Réttur til að arfleiða einstakling eða stofnun að öllum eigum sínum, eða þriðjungi þeirra ef skylduerfingjar eru til staðar.
„Það getur verið ástæða til að endurskoða þessa þætti vegna þess hversu margt breytist í tímans rás og einnig viðhorf okkar og afstaða“, segir Elín Sigrún. „Þess eru líka dæmi að fólk muni ekki lengur hvað stendur í erfðaskrá, sem var gerð fyrir fimmtíu árum. Lesið erfðaskrána reglulega og verið viss um að þar sé allt samkvæmt ykkar vilja“, bætir hún við.
Erfðaskráin þarf að vera skýr og skiljanleg
Elín leggur áherslu á að fá fólk sem ætlar að gera erfðaskrá í viðtal til að fá skýra mynd af því sem það vill, hún vill ekki vinna þetta eingöngu í gegnum tölvu og síma. Það sé mikilvægt að heyra vonir og væntingar fólks. „Ef um hjón er að ræða, legg ég áherslu á að þau komi bæði til mín svo þetta sé opið samtal. Þau eru oft búin að hugsa þetta hvort fyrir sig, en hafa lítið rætt saman. En það þarf að gerast til að sameiginleg niðurstaða náist. Fólki er oft mjög létt þegar þetta er allt frágengið“, segir hún og segist líka nota viðtalið til að fara yfir út á hvað grunnreglur erfðaréttarins gangi og hver staðan sé geri fólk ekki neitt. Menn þurfi svo að lesa erfðaskrárnar rækilega til að skilja um hvað málið snýst.
„Stundum þarf að breyta erfðaskrá og þá er mjög mikilvægt að hún sé skýr og skiljanleg“, segir Elín. Hún segir að ef eldri erfðaskrár séu til staðar, sé oft betra að sameina þær í eina nýja erfðaskrá og láta fella eldri skrárnar niður. Sé erfðaskrá breytt oft geti orðið erfitt að túlka hver vilji fólks var í raun og veru og það sé ekki lengur til staðar til að útskýra hugsunina á bak við erfðaskrána. „Það er líka hægt að útbúa viðbót við eldri erfðaskrá, ef hún er ennþá að öðru leyti í góðu gildi“, segir hún. Ef vilji er til að fella alveg út fyrri erfðaskrá er það gert með nýrri erfðaskrá.
Ég hvet fólk til að undirrita erfðaskrá hjá lögbókanda, þá er hún vottuð af fulltrúa sýslumanns og varðveitt hjá viðkomandi embætti. Og þegar tilkynnt er um andlát er erfðaskráin kynnt erfingjum viðkomandi aðila.