Ásgerður Pálsdóttir fyrrum bóndi á Geitaskarði í Langadal skrifaði nýlega færslu á facebook um endurminningar sínar um jól á Refstað í Vopnafirði fyrir sjötíu árum. Lifðu núna fékk leyfi til að birta pistilinn.
Það var alltaf mikil eftirvænting eftir jólunum í bernsku minni. Miklar annir voru hjá mömmu og eldra kvenfólki bæjarins við undirbúning jólanna. Ég var svo heppin að vera yngst og hafði ekki svo margar skyldur á þeim dögum. Og þetta var nú enginn smáræðis undirbúningur. Húsið var gert hreint allt skyldi verða fínt og glansandi á jólunum. Það voru saumuð jólaföt á okkur krakkana og svo var bakað .. og bakað.
Hvílík firn af smákökum, tertum, niðurskornum tertum, brúnum og hvítum, svamptertubotnum, ávaxtakökum og formkökum.
Það var auðvitað alltaf bakað mikið af kaffibrauði allt árið, því fjölskyldan var stór en smákökur og tertur voru jólabakstur.
Ekki var steikt laufabrauð eins og þekkist nú, en mamma steikti þykkar kökur sem voru mjög góðar. Mig minnir að hún kallaði þær laufabrauð en líklega voru þetta svonefndar soðkökur.
Og svo var allt skreytt eftir föngum. Bræður mínir náðu í sortulyng upp í fjall og úr því voru búnir til kransar sem voru skreyttir með marglitum blómum sem voru búin til úr kreppappír. Þessir kransar voru festir upp í loftið á stofunni og þetta var mjög fallegt skraut. Ég hafði mjög gaman að því að útbúa þetta þegar ég fór að taka þátt í jólaundirbúningnum. Svo voru auðvitað búnir til músastigar og festir allstaðar upp, einnig sælgætispokar til að hengja á jólatréð, sem var úr tré og vafið og skreytt með grænum kreppappír. Ég man ekki eftir því að það væri sérstök hefð fyrir hvað væri í matinn á aðfangadagskvöld, stundum voru rjúpur en sennilega oftast lambakjöt. En á jóladag var alltaf hangikjöt.
Mikið held ég að hún mamma hafi verið orðin þreytt á aðfangadagskvöld eftir allan þennan undirbúning með því að hugsa um þetta stóra heimili. En maður hugsaði ekki út í það á þessum tíma enda var hún söm og jöfn og söng við vinnu sína eins og alltaf.
Ljúka þurfti útiverkum svo snemma að allir gætu verið búnir að hafa fataskipti fyrir klukkan sex, en þá var orðið heilagt eins og amma sagði. Ég á góðar minningar um eftirvæntingu og gleði þegar allir voru prúðbúnir og settust að borðinu, pabbi kominn með jólasvipinn og allir hlustuðu á jólasálmana og ræðu prestsins í útvarpinu. Þannig voru jól bernskunnar fyrir sjötíu árum.