Tengdar greinar

Dýrt er að deyja á Íslandi

Þegar andlát verður í fjölskyldum er stundum erfitt að koma sér saman um hver á að gera hvað og hvernig. Einkum á ef ekki liggur fyrir vilji hins látna um síðustu kveðjur. Yfirleitt endar það með því að einhver einn tekur að sér skipulagið og hinir fylgja með. Í þeim tilvikum kann að vera að skipuleggjandinn annað hvort verji of miklum peningum í útförina eða of litlum að mati hinna. Þess vegna er gott að tala sig saman um hversu miklu fé menn vilja verja í þetta og hvar áherslurnar eigi að liggja.

Okkur á Lifðu núna barst til eyrna nýlegt dæmi um útfararkostnað sem fór langt fram úr því sem ættingjar hins látna bjuggust við. Einn þeirra hafði þetta að segja:

„Eitt okkar tók að sér að sjá alfarið um skipulag útfararinnar. Við hin treystum að það yrði gert af skynsemi og ráðdeild og fylgdumst því ekkert mað framvindu mála. Þegar reikningurinn kom reyndist hann vel á þriðju milljón. Hinn látni var alls enginn stóreignamaður og ekki í hópi þeirra sem eru hrifnir af alls konar pompi og prakt. Við vorum þess vegna nokkur frekar ósátt því í dánarbúinu voru litlar eignir. Skýring skipuleggjandans var að hann hefði viljað kveðja viðkomandi fallega og hann hefði alls ekki gert sér grein fyrir að kostnaðurinn yrði þetta hár þegar allt var talið. Ég vil þess vegna benda fólki á að fylgjast vel með þegar verið er að undirbúa útför og passa að hafa alltaf yfirsýn yfir kostnaðinn.“

Kostnaður við útfarir hér á landi er hár. Dæmi um kostnað hér að neðan er tekið af vef Útfararstofu kirkjugarðanna.

Dæmi um útför án athafnar

Kista með sæng kodda og blæju 149.631
Útfararþjónusta 118.900
Organisti   32.311
Umsjónargjald***     3.231
SAMTALS 304.073

 

Dæmi um bálför án athafnar
Kistulagning og þjónusta 98.800
Látlaus kista án sængur,kodda og blæju 85.932
Duftker 19.900
SAMTALS 204.632

 

Annað dæmi um útför:

 

Kista með kodda og blæju                                                                       149.631

Líkklæði                                                                                                         15.225
Útfararþjónusta                                                                                         219.900
Organisti við útför                                                                                       63.000
Kór 6 manna                                                                                                177.814
Sálmaskrá 100 stk.                                                                                       53.950
Kross á leiði                                                                                                   19.772
Skilti á kross                                                                                                12.375
Kistuskreyting                                                                                              33.000
Umsjónargjald                                                                                              24.081
Samtals                                                                                                       774.648

Ofan á þennan kostnað bætast laun annars tónlistarfólks ef fólk kýs að fá einsöngvara, dúett, tríó eða kvartett til að syngja eða spila við útförina. Samkvæmt samningi Félags íslenskra hljómlistarmanna hleypur sá kostnaður á bilinu 54.889 – 324.884. Lægsta upphæðin er fyrir einn söngvara en sú hæsta fyrir fjórtán. Ef við þetta bætist hljóðfæraleikari eða hljóðfæraleikarar er ljóst að kostnaður fyrir athöfnina sjálfa er aldrei undir milljón og ef fólk kýs að hafa erfidrykkju er algengt að þær kosti á bilinu 300 – 550 þúsund. Þá er gert ráð fyrir að menn leigi sal en algeng salaleiga er á frá 70.000 – 150.000 kr.

Þegar þetta er allt tekið saman er ljóst að meðalútför á Íslandi kostar þetta um 1,5 milljónir.  Varnaðarorð viðmælanda Lifðu núna eru því í fullu gildi og gæti verið bæði skynsamlegt og gott að koma sér saman um hámarkskostnað fyrirfram og gæta þess að ekki sé farið yfir þau mörk.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar .

Ritstjórn janúar 3, 2024 07:00