Heima eins lengi og hægt er

Tæplega fimmþúsund borgarbúa eru eldri en áttatíu ára. Af þeim búa rúm 84 prósent heima en 16 prósent búa á dvalar- og hjúkrunarheimilum.

„Það er stefna að fólk geti verið heima eins lengi og hægt er,“ segir Elfa Ellertsdóttir, upplýsingafulltrúi á velferðarsviði i Reykjavíkurborgar.

Elfa segir að áður en fólk fái þjónustu frá borginni undirgangist það ákveðið mat, að því loknu sé tekin ákvörðun um hversu mikla þjónustu fólk geti fengið, það sé svo á valdi hvers einstaklings hversu mikla þjónustu hann vilji þiggja.

„Fólk ætti að hafa í huga að alltaf er hægt að fá mat endurskoðað ef aðstæður fólks breytast og þörf fyrir þjónustuna eykst,“ segir Elfa.

Hægt er að fá heimahjúkrun tvisvar á dag en einnig er hægt að fá félagslegt innlit, þrif og kvöld- og helgarþjónustu.

„Á vegum borgarinnar er einnig baðþjónusta hjá sumum félagsmiðstöðvum velferðarsviðs og hægt er að sækja um dagvist og fá heimsendan mat. Starfsmenn starfa hins vegar ekki daglangt inn á heimilum fólks,“ segir Elfa.

Ásdís Jónsdóttir, 65 ára þarf að eyða löngum stundum í að annast um háldraða móður sína og eldri systur.

í viðtali við Lifðu núna lagði hún til að dagvistarplássum verði fjölgað og að fólki gefist kostur á að vera hálfan daginn í dagvistun. Þá telur hún þörf á að setja aukið fé í málaflokkinn og bendir á að það þurfi að fjölga starfsfólki.

Borgaryfirvöld viðurkenna að það vanti úrræði og segja að það samfara fjölgun aldraðra í borginni og hækkandi meðalaldri þurfi dagþjálfunarúrræðum að fjölga.

Ritstjórn nóvember 13, 2014 18:02