Fá lyftu og aðgang að veislusal

Nýlega var opið hús í íbúð fyrir 60 ára og eldri, í Jónshúsi í Garðabæ. Þangað kom fólk sem er að minnka við sig, en íbúðin sem var til sölu var rúmgóð tveggja herbergja íbúð í lyftuhúsi. Félagsaðstaða eldri borgara í Garðabæ er í sama húsi og þar er hægt að kaupa léttan hádegisverð.  Einnig er hægt að fá leigðan samkomusal á 10.000 krónur ef menn ætla að halda veislur.  Það er ekki sérstök önnur þjónusta sem tengist umræddri íbúð, en Félag eldri borgara í Garðabæ stendur fyrir ýmiss konar félagsstarfi og hreyfingu í grendinni, meðal annars í Sjálandsskóla.  Þá er stutt að fara yfir á Ísafold handan götunnar, en það er hjúkrunarheimili í Garðabæ.

Vilja losna við viðhaldið

Ástþór R. Guðmundsson löggiltur fasteignasali og framkvæmdastjóri Remax Senter sem er með íbúðina á sölu, segir að þeir sem sýni þessari íbúð áhuga, séu þeir sem eru að minnka við sig og komi þá úr einbýlishúsum. En það sé oft sjokk fyrir fólk þegar það áttar sig á því að verðið á einbýlishúsinu er svipað og greiða þarf fyrir íbúðina.  Ástþór nefnir sem dæmi, fólk sem seldi einbýlishúsið á 58 milljónir og keypti íbúð á 48 milljónir í Árbæjarhverfi. En þeir sem vilji flytja úr einbýlishúsunum sínum vilji til dæmis losna við viðhaldið á fasteigninni, komast í húsfélag þar sem einhver þrífur sameign og sér um garðinn.

Meiri þjónusta annars staðar

Íbúð eins og íbúðin í Jónshúsi er í raun íbúð fyrir fólk sem er að mestu sjálfbjarga. Þeir sem eru farnir að missa heilsu og þurfa meiri aðstoð, geta aftur á móti keypt íbúðir sem bjóða uppá meiri þjónustu. Sem dæmi má taka húsið í Árskógum í Mjódd. Þar er mikil sameign og aðgangur að veislusal eins og Jónshúsi. En þar fá íbúar neyðarhnapp auk þess sem þeir eiga aðgang að heimaþjónustu, mötuneyti og félagsþjónustu sem er rekin af Reykjavíkurborg. Hér eru einungis tekin þessi tvö dæmi, en það er ástæða fyrir fólk að kynna sér vel hvaða húsnæði er í boði fyrir eldra fólk, bæði í höfuðborginni og á landsbyggðinni.

 

 

Ritstjórn janúar 20, 2016 10:52