Guðrún Arnalds kynntist óhefðbundum lækningum af eigin raun þegar hún var 17 ára og fékk aðstoð við að laga blöðrur á eggjastokkum. Eitt leiddi af öðru og hún ákvað að læra hómópatíu og heildræna ráðgjöf. Hún fór síðan að stunda jóga þegar hún gekk í gegnum erfiðleikatímabil í lífi sínu og fann hvernig líkamlegur og andlegur styrkur hennar jókst í kjölfarið. Nú er hún að fara gegnum í breytingaskeiðið og hugleiðslan, jógað og heildræn sýn á heilsuna hafa auðveldað henni að takast á við einkennin og dregið úr þeim. Hún telur að konur þurfi að vera betur upplýstar um hvað sé að gerast í líkamanum og vita að hægt sé velja náttúrulegar leiðir til að fara í gegnum þetta skeið.
Ein systra minna stundi gjarnan þegar hún var á breytingaskeiði: „Ég vildi að maður réði í hvað maður breytist á þessu blessaða skeiði.“ Hvað geta konur gert og haft í huga til þess einmitt að stjórna í hvað þær breytast?
„Undirliggjandi hjá flestum konum er streita og hún magnar upp öll einkennin,“ segir Guðrún. „Bara það að finna leiðir til að takast á við og minnka streitu er stórt skref í rétta átt. Hvort sem maður velur að fara náttúrulegu leiðina eða taka viðbótarhormón þarf að huga að heildinni, mataræði, hreyfingu og slökun. Á breytingaskeiði verða konur viðkvæmari fyrir streitu, meltingin verður veikari og við þurfum að finna taktinn upp á nýtt.
Margar konur hafa sagt mér að það hafi komið þeim á óvart hve margt breyttist á breytingaskeiði. Þær fundu einkenni sem þær áttu alls ekki von á. Sumar konur fara auðvitað auðveldlega í gegnum þetta og finna ekkert fyrir því en oft tengja þær ekki ýmis einkenni við þær breytingar sem eru að verða í líkamanum heldur eitthvað allt annað. Þær fara hugsanlega til læknis til að fá svör og fá þau margvísleg. Konur tala lítið saman og partur af því að fara í gegnum þetta skeið er einmitt að ræða um það. Ég uppgötvaði þegar ég fór að tala við aðrar konur að ég var ekki einsdæmi. Ég hafði fram að því haldið að ég væri ein um að finna fyrir mörgum þeim einkennum sem ég fann fyrir.“
Flókin umræða þvælist fyrir
Við tölum oft um að þeir tímar sem við lifum séu hraðir, streituvaldandi og miklar kröfur gerðar til fólks. Getur það gert okkur erfiðara að fara í gegnum breytingaskeiðið?
„Mér finnst oft þvælast fyrir þessi flókna umræða um öll þessi hormón. Hún varð til þess að mér fannst eitthvað óaðlaðandi að fara að setja mig inn í og afla mér upplýsinga um breytingaskeiðið. Hormónakerfið er margbrotið og stundum gæti litið út fyrir að við þurfum að vera með læknapróf til að skilja þau.
Ef við tölum annars vegar um vestræna nálgun og svo austræna nálgast bæði ayurveda og kínverskar lækningar þetta á mun einfaldari og aðgengilegri hátt. Þar er talað um tvenns konar hormón, kynhormón og streituhormón. Flestir þekkja hugtökin yin og yang þá eru kynhormónin yin og streituhormónin yang. Yin stendur fyrir sköpun, innsæi, slökun og flæði. Yang er hitandi, drífandi kraftur. Við þurfum bæði. Yin og yang. Hreyfing sem er drifin áfram af keppni og mikilli áreynslu, óhófleg kaffidrykkja, mengandi umhverfi og mikil streita eru allt þættir sem búa til Yang af vondum gæðum.
Í stað þess að læra að stjórna hverju hormóni fyrir sig þá miðar austræn nálgun frekar að því að bæta umhverfi þeirra í gegn um næringu og lífsstíl. Og hafa þannig jafnvægisgefandi áhrif á hormónabúskapinn.
Ef við erum búnar að ganga mikið á þá þætti í líkamanum sem sjá um að takast á við streitu erum við illa undirbúnar að takast á við breytingaskeiðið. Við erum með tóman tank og allt verður miklu erfiðara. Þess vegna er mikilvægur hluti af þessu að undirbúa sig. Vita hvert maður er að fara eða réttara sagt hvað bíður manns á þessu skeiði og vera byrjaður að undirbúa sig áður en það hefst. Í því felst að vera búin að taka svolítið til í sínu lífi og finna sinn takt. Ef við horfum á eldri menningarsamfélög sjáum við að viðhorf okkar til þessa skeiðs er allt annað en þar. Þegar konur eldast er borin mun meiri virðing fyrir þeim en gengur og gerist í vestrænum samfélögum, enda fara konur ekki eins illa í gegnum þetta skeið.
Þessi viðhorf og þessi læknisfræðilega nálgun hér á Vesturlöndum, eins og þetta sé sjúkdómur sem þurfi að lækna og að hlutverk eða tilgangur konunnar rýrnar, setur okkur í veikari stöðu. Kannski fá konur meira rými til að fara í gegnum þetta og taka sér sinn tíma í þessum eldri menningarsamfélögum. Þetta eru heilmiklar breytingar sem eru að verða í líkamanum. Stelpur á kynþroskaskeiði sveiflast mikið á þeim tíma og verða oft mjög þreyttar. Konur upplifa einnig þessar sveiflur í orku og líðan á meðgöngu. Þess vegna þurfum við að taka tillit til þess og vera meðvitaðar um að þetta er tímabil þar sem við þurfum að hlúa sérstaklega að okkur og ekki gera þær kröfur til okkar að við séum súperkonur. Breytingaskeiðið gefur okkur í raun færi á að endurforgangsraða. Ég hef heyrt konur segja að þær þurfi að kynnast líkama sínum upp á nýtt meðan á breytingaskeiði stendur og eftir að því lýkur. Þetta er aðeins breyttur fasi í lífinu,“ segir Guðrún.
Hvalaamma leiðir hjörðina
„Ayurveda, systurvísindi jógafræðanna, kennir okkur að við göngum í gegn um þrjú stig í lífinu,“ heldur hún áfram. „Barnæskan er tími vaxtar og þroska. Ayurveda tengir þennan tíma við Kaffa eða jörð og vatn. Fullorðinsárin eru tími árangurs og framkvæmda og tengist Pitta, sem stendur fyrir eld og vatn. Þetta eru blæðingaárin okkar. Seinna á ævinni kemur tími fyrir nýjar áherslur, sköpun og innsæi. Tími til að vinna úr lífsreynslu okkar og umbreyta henni í visku. Þetta er tími Vata, sem er loft og ether.
Það eru ekki margar dýrategundir sem lifa eftir að æxlunarhlutverki þeirra lýkur. Vísindin þekkja bara þrjár. Ein bjöllutegund og tvær hvalategundir, háhyrningar og flipahvalur. Hjá háhyrningum hefur amman, sú kýr sem ekki lengur ber kálfum, alveg sérstakt leiðtogahlutverk. Hún hjálpar til og fylgir sínum afkvæmum og styður við. Hún kann vel á hvar bestu fæðuna er að finna og hefur visku að miðla alveg eins og við getum nýtt okkar reynslu og þekkingu sem safnast yfir ævina.“
Hugleiðsla og öndunaræfingar hjálpa
Nú hefur þú stundað jóga mjög lengi. Hjálpaði það þér að vinna gegn þessum einkennum breytingaskeiðsins sem þú minntist á eða þurftir þú að breyta æfingunum þínum?
„Alveg tvímælalaust en ég fór að sækja meira í hugleiðsluna og hún hjálpaði mér mjög mikið,“ segir Guðrún. „Ég fór einnig að gera fleiri öndunaræfingar og ég sæki ekki í eins kraftmikla jógaiðkun. Ég sæki í svona aðeins mýkri iðkun. Vísindarannsóknir sýna að jógaiðkun getur aukið estrogen í líkamanum.“
Það þarf að huga að mataræði á breytingaskeiði. Konur þurfa að huga vel að prótíninntöku sinni og gæta þess að fá nóg af öllum næringarefnum. Sumar matartegundir innihalda náttúrulegt estrógen, er kannski gott ráð að borða meira af slíkum mat?
Já, það getur hjálpað mikið. Þetta er kallað Phytoestrogen. Sojabaunir og linsubaunir eru mjög ríkar af þeim, alls kyns fræ, sérstaklega hörfræ og spírur. Við þurfum líka að gæta vel að blóðsykrinum eftir að breytingaskeiðið hefst og við þurfum helst að sleppa alveg sykri. Meltingin okkar er veikari meðan á því stendur og við þolum verr eitthvað sem við þoldum áður. Eitt af því sem ég gerði mér grein fyrir var að ég fékk blöðrubólgu af sykuráti og þegar ég fór að tala um þetta sögðu margar konur það sama. Við þurfum að forðast allt sem er bólguvaldandi, sykur og kaffi eru þar á meðal. Best er sleppa kaffinu eða drekka það bara á morgnana, sérstaklega ef konur eru að glíma við svefntruflanir. Kaffi kallar svolítið eftir einhverju sætu eða ákveðnum mat sem maður fer að sækja meira í. “
Þurfum að sigra fullkomnunaráráttuna
Meðal þeirra fæðutegunda sem innihalda náttúrulegt estrógen eru hveitklíð, margir ávextir, hafrar og bygg. Margar konur kjósa að setja eitthvað af þessu í búst á morgnana. Vanvirkni í skjaldkirtli er meðal þess sem margar konur glíma við og það getur byrjað í blábyrjun breytingaskeiðsins áður en önnur einkenni koma í ljós.
„Já þetta tengist oft streituhormónum,“ segir Guðrún. „Þegar eggjastokkarnir byrja hægt og rólega að draga úr starfsemi sinni þá eiga nýrnahetturnar að taka við hlutverki þeirra og framleiða hormónin sem eggjastokkarnir hætta að framleiða. Ef nýrnahetturnar eru undir álagi vegna langvarandi streitu þá ráða þær ekki vel við þetta nýja hlutverk. Hitakóf er í raun afleiðing af krónískri streitu. Og sömuleiðis mikið af því orkuleysi sem konur finna oft fyrir á breytingaskeiðinu. Það má því segja að mörg þeirra einkenna sem eru kennd við breytingaskeiðið stafi af yfirkeyrðum nýrnahettum eða krónískri streitu.“
Það eru miklar kröfur gerðar til kvenna á þessum árum. Þær eru margar í ábyrgðarmiklum störfum, barnabörnin eru farin að koma, foreldrar og eldri ættingjar þarfnast umönnunar og þær reyna að halda öllum þessum boltum á lofti.
„Einmitt, ég sé dóttur mína núna reyna að sigrast á þessari fullkomnunaráráttu og gera ekki svona miklar kröfur til sjáfrar sín. Því meira sem maður nær að vera búin að vinna með þetta áður en maður kemst á breytingaskeiðið því betra. Þunglyndi er líka mjög algengur fylgikvilli og sjálfsvíg aukast meðal kvenna á þessum tíma. Það er því mikilvægt að taka þetta alvarlega og hlúa vel að sér. Margar konur velja hormónameðferð og það getur hjálpað mikið ef einkennin eru ólíðandi. En það er ekki lausn þótt gott sé að geta leitað einhverra slíkra leiða. Þær leysa hins vegar ekki rót vandans og getur í sumum tilfellum orðið til þess að við sniðgöngum það sem við þurfum að gera eða hægja á,“ segir Guðrún en hún hyggst bjóða konum á breytingaskeiði fjögurra vikna frítt námskeið núna í mars.
Hér er hlekkur á frekari upplýsingar: https://namskeid.andartak.is/fritt-netnamskeid
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.