Tengdar greinar

Sparaðu sturtuna

Það er fátt notalegra en að ganga inn í sturtuna á morgnana og skola af sér svefndrungann. Margt bendir þó til að það sé ekki hollt að fara í sturtu eða bað á hverjum degi. Aukið hreinlæti hefur vissulega fært okkur betri heilsu og lengra líf en ýmislegt bendir til að ákveðinn sóðaskapur geti hreinlega verið hollur.

Undir sturtunni skola menn nefnilega burtu olíu eða fitu sem húðin framleiðir og ver hana fyrir mengun og geislum sólar. Í henni eru hollar og góðar bakteríur sem húðin nærist á. Það að nota sápu og vatn á hverjum degi, stundum oft á dag til að þrífa sig veldur því að húðin þornar og hún verður viðkvæmari fyrir áreiti. Exam, kláði og erting í húðinni getur einfaldlega stafað af of miklu hreinlæti. Ekki er langt síðan mælt var með því að fólk færi í bað einu sinni í viku en fæstir eru líklega tilbúnir til þess nú orðið en tvisvar í viku er fyllilega nóg til að tryggja nægilegt hreinlæti og varnir gegn helstu sjúkdómum. Öðru máli gegnir hins vegar um handþvott. Hann er nauðsynlegur oft á dag vegna þess að við berum mjög mikið af bakteríum af höndum upp í andlitið þaðan sem þær eiga greiðan aðgang að innri líffærum.

Lífstíll og hreyfing

Vissulega er persónubundið hversu oft fólk þarf að baða sig. Sumir svitna meira en aðrir og þeir sem hreyfa sig mikið eða stunda útvist eru líklegri til að þurfa að baða sig oftar en hinir. Þeir svitna einfaldlega meira og óhreinindi úr umhverfinu eiga greiðari leið að þeim.

Loftslag og umhverfi

Við vitum öll hversu gott það er í miklum hitum að kæla sig undir sturtunni eða úti í sundlaug. Það er sjálfsagt að taka tillit til þess og baða sig oftar ef menn eru í heitu loftslagi eða þegar sólardagar koma á sumrin. Á veturna er loftslagið hér á landi mjög þurrt og húðin þornar bara vegna þess og óþarft að bæta á það með of tíðum baðferðum.

Sundlaugarnar

Mjög mismunandi eru milli menningarheima þær venjur og siðir sem eru ríkjandi hvað varðar böð og hreinlæti. Hér á landi fara margir í sund daglega og krafan um að menn þvoi sér vel undir sturtunni áður en haldið er út í laugina er sér íslensk. Þeir sem vilja halda í sína daglegu sundlaugarferð ættu að vera meðvitaðir um að húðin verður oft mjög þurr vegna baðanna og hreinsiefna í vatninu. Að bera á sig góð rakagefandi krem eftir sundið er góð regla.

Hárið

Þurrsjampó er góður kostur ef fólki finnst hárið ekki nægilega hreint eða fallegt milli þvotta. Það er staðreynd að það þurrkar hárið að þvo það of oft og þeir sem hafa litað hár ættu að hafa í huga að liturinn endist ekki eins vel ef hárið er þvegið með sjampói á hverjum degi. Hársvörðurinn getur einnig þornað og þar komið þurrblettir og myndast erting. Það er mjög mikilvægt þegar fólk eldist að hárssvörðurinn nái að viðhalda eðlilegri olíumyndun. Hún er leið náttúrunnar til að viðhalda heilbrigði hársins og hár sem er þurrt þynnist og skemmist. 

Sumt má þvo daglega

Þótt fólk fari ekki í sturtu daglega eru ákveðnir hlutar líkamans þannig að sjálfsagt er að þvo þá daglega. Andlit, hendur og kynfærasvæði þvo flestir kvölds og morgna og hendurnar eins oft og nauðsyn krefur. Með því að velja mildar sápur eða hreinsiefni má draga verulega úr hættu á þurrki á þessum svæðum.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn apríl 13, 2024 07:00