Að halda á sófa

 

Steinunn Þorvaldsdóttir

Steinunn Þorvaldsdóttir

Steinunn Þorvaldsdóttir sjálfstætt starfandi textahöfundur og kennari hjá Líkamsrækt JSB

Óhætt er að fullyrða að flestir átti sig á mikilvægi líkamsræktar. Hins vegar leggja margir ekki næga rækt við líkama sinn og gildir þá einu hvers eðlis hún er, hvort hún felst í heilsubótargöngum, sundferðum, þjálfun í líkamsræktarstöðvum eða einhverju öðru. Fólk slær þessu á frest eða hunsar með öllu eins og um hverja aðra kvöl eða pínu sé að ræða.

Hvað ertu að afplána?

Þessi veruleiki gefur til kynna að líkamsrækt og almennt heilbrigt líferni sé kvíðvænlegt og eigi meira skylt við afplánun en eðlilegar lífsvenjur. Í því samhengi er fróðlegt að velta fyrir sér að hverju við stefnum þegar við tölum um að koma okkur í form. Orðið form kallar ósjálfrátt fram mynd af vöðvastæltum, stinnum og grannvöxnum líkama, sigurbrosi og gríðarlegri seiglu! Þetta er sem sé tómt púl og puð og eitthvað sem maður þarf að taka sér frí frá til að geta verið maður sjálfur inn á milli.

Verkir og þreyta viðmiðið – enda komin á þennan aldur!

Á sama tíma virðumst við líta á það sem eðlilegan hlut að vera með vöðvabólgu, finna til stirðleika, bakverkja og mæðast þegar við tökum stigann í staðinn fyrir lyftuna. Við veigrum okkur við að lyfta hlutum vegna þess að við erum orðin svo fullorðin, eða aum af einhverjum öðrum ástæðum. Við erum alltaf þreytt, stöðugt að reyna að hvíla okkur og verðlauna með einhverjum gómsætindum. Aldurinn er oft nefndur sem ástæða fyrir því að geta ekki eitt og annað. Þú getur ekki haldið á sófanum með syni þínum af því að þú ert um fimmtugt. Svo er engin furða að þú getir ekki lengur beygt þig niður til að reima skóna þína af því að þú ert á sjötugsaldri.

Að geta gert það sem maður vill

Góða formið felst nefnilega í því að geta gert þessa hluti sem við þurfum að gera til þess að lifa góðu lífi. Með því að þjálfa sig reglulega, ekki með neinu offorsi eða yfirlýsingum, heldur reglubundinni þjálfun sem fellur vel að heildarrútínunni, þá finnum við muninn. Blóðið rennur óhindrað um líkamann, öndunin er greið, liðirnir smurðir og líkaminn lætur að stjórn. Á sama tíma er vöðvabólgan ekki að trufla mann tiltakanlega. Þreytuslenið hristir maður auðveldlega af sér og það skemmtilega er að maður gleymir því hvað maður er gamall og gerir bara hlutina.

Ritstjórn mars 10, 2015 10:53