Saga af leikkonunni Shelley Winters gengur nú manna á milli á samfélagsmiðlum. Þar er hún sögð hafa mætt í viðtal við Johnny Carson í The Tonight Show og sagt þá sögu að hún hafi verið beðin að koma með andlitsmynd og ferilskrá með sér í leikprufu fyrir hlutverk seint á ferlinum. Hún mætti með stóra Chanel tösku, dró upp úr henni fyrri Óskarsstyttu sína, skellti á borðið og sagði: „Hér er andlitsmyndin,“ síðan þá næstu og bætti við: „Og hér er fjandans ferilskráin.“
Okkur lék forvitni á að vita hvort sagan væri sönn og svo virðist vera. Nokkur vafi leikur hins vegar á hvort Shelley hafi sagt hana í sjónvarpi. Hún upplifði rétt eins og aðrar Hollywood-leikkonur af hennar kynslóð að atvinnutækifærum fór fækkandi með aldrinum. Karlarnir nutu lengur náðar fyrir augum framleiðenda og ýmist lögðu konurnar árar í bát og drógu sig í hlé eða leituðust við að skapa sér tækifæri. Atvikið sem lýst er að ofan átti sér stað þegar Shelley var beðin að koma í leikprufu eða audition fyrir kvikmynd, nokkuð er á reiki hvort um var að ræða mynd sem hét Bloody Mama eða Pete’s Dragon. Hún var yfir sig hneyksluð á að ætlast væri til að hún margverðlaunuð og reynd leikkona mætti í prufu.
Hún sá hins vegar í þessu tækifæri til að kenna ungum casting directors, eða stjórnendum leikaraskipunar, lexíu svo hún mætti eins og áður sagði með stóra töskuna. Önnur útgáfa sögurnnar er svipuð nema að ungi maðurinn sem bað hana að mæta í leikprufu með andlitsmynd og ferilskrá hafi setið á móti henni við skrifborð. Eftir að hafa heilsað og spjallað stutta stund hafi hann sagt: „Jæja, ms. Winters, minntu mig á hvað þú hefur gert.“ Svar Shelley var að draga upp fyrri styttuna leggja hana á borðið og segja: „Þetta er fyrir Dagbók Önnu Frank.“ Síðan þá síðari og bæta við: „Og þetta fyrir A Patch of Blue. Nú mátt þú minna mig á hvað þú hefur gert.“
Lét ekki troða sér mót
Samkvæmt þeim sem til þekktu er þetta lýsandi fyrir Shelley. Hún var sterk kona með mikla innri fullvissu um eigið gildi. Hún lét aldrei segja sér fyrir verkum og á fyrstu árum hennar í Hollywood reyndu forsvarsmenn kvikmyndaveranna að troða henni í mót ljóshærðu kynbombunnar en í það form vildi Shelley Winters alls ekki passa.
Þær Marilyn Monroe, Jayne Mansfield, Anita Ekberg, Betty Grable og Kim Novak máttu, að mati Shelley, sitja á þeim stalli án þess að hún reyndi að velta þeim af palli. Hún var orðheppin, fluggreind og þótt hún hafi sigrað fegurðarsamkeppni þegar hún var ung taldi hún útlitið aldrei meðal sinna helstu kosta. En það var vissulega fegurðin sem varð til þess að hún fékk samning við Universal-kvikmyndaverið seint á fimmta áratug síðustu aldar. Hún sá í því tækifæri og vann þrotlaust að því að bæta tækni sína og læra meira um leiklist meðan hún lék ljóskur á hvíta tjaldinu. Það varð til þess að gagnrýnendur tóku fljótt að veita henni athygli.
Í myndinni, A Place in the Sun, lék hún verksmiðjustúlku sem ungur maður af hærri stétt, leikinn af Montgomery Clift, heillast af og þarf á endanum að velja milli hennar og stúlku af eigin standi sem Elizabeth Taylor lék. Fyrir túlkun sína hlaut hún tilnefningu til Óskarsverðlauna. Árið 1959 vann hún svo sína fyrstu Óskarsstyttu fyrir túlkun sína á Mrs. Van Daan í kvikmyndinni Dagbók Önnu Frank. Síðari styttan bættist svo í safnið árið 1965 fyrir besta frammistöðu í aukahlutverki í A Patch of Blue. Síðasta tilnefningin hennar kom svo árið 1972 fyrir leik í The Poseidon Adventure.
Shelley Winters hélt áfram að leika fram í andlátið og átti eftirminnilega spretti í þáttunum Roseanne í hlutverki ömmu, Roseanne Conner. Þess má geta að Shelley gaf Óskarstyttuna sem hún fékk fyrir Dagbók Önnu Frank, Húsi Önnu Frank í Amsterdam og þar er hún til sýnis.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.