Nýleg bresk rannsókn leiddi í ljós að við tíðahvörf eykst mjög streita og álag á konur á vinnumarkaði. Margar eiga erfitt með að mæta í vinnu vegna erfiðra einkenna breytingaskeiðsins og sumar hrekjast úr vinnu ýmist vegna þess að þær treysta sér ekki til að vinna fulla vinnu meðan þetta gengur yfir eða þær mæta ekki skilningi vinnuveitenda á aðstæðum sínum. Þarna fer verðmætur mannafli oft forgörðum og margt væri hægt að gera til að breyta þessu.
Yfirskrift rannsóknarinnar er: Work outcomes in midlife women: the impact of menopause, work stress and working environment og það eru þær, Claire Hardy Eleanor Thorne, Amanda Griffiths og Myra S. Hunter sem gera hana. Þær könnuðu hvernig kröfur, streita tengd vinnustað og stjórn á aðstæðum hefði á konur á breytingaskeiði.
Í ljós kom að konur voru til dæmis stressaðar og fannst erfitt að fá hitakóf í vinnunni. Svefnleysi háði mörgum og þetta hafði áhrif á sjálfstraust kvennanan gagnvart vinnu sinni og skapað vanlíðan á vinnustaðnum. Sumar sögðust vilja eða ætla að hætta að vinna vegna þessa. Niðurstaða rannsakenda var að margt væri hægt að gera til að koma til móts við þennan hóp og koma í veg fyrir að þær færu af vinnumarkaði of snemma. Kannanir í Bandaríkjunum styðja þessar niðurstöður en ein af hverjum fjórum konum glímir við alvarleg einkenni á breytingaskeiði. Miðað við þátttöku íslenskra kvenna á vinnumarkaði er það því stór hópur sem er líklegur til að eiga erfitt með að skila fullri vinnu vegna óþæginda og kvilla tengdum tíðahvörfum.
Einkenni byrja um 45 ára
Flestar konur byrja að finna fyrir fyrstu vísbendingum um að tíðahvörf nálgist í kringum 45 ára aldur en meðalaldur þegar blæðingar hætta er 51,5 ár. Þegar kona hefur ekki haft tíðir í tólf mánuði er hún komin á hið svokallaða breytingaskeið. Meðal algengust og erfiðustu afleiðinga hormónabreytinga þessa tímabils eru hitakófköst. Þau eiga sér oft stað á næturnar og valda svefntruflunum en þær eru algengar á breytingaskeiði jafnt meðal þeirra sem upplifa hitakóf og hinna sem sleppa við þau. Þá mæta konur oft þreyttar í vinnu að morgni og það getur verið mjög erfitt að vera í starfi þar sem viðkomandi er mjög sýnilegur og fá hitakóf. Skapsveiflur eru einnig algengar og margar konur finna fyrir kvíða, þunglyndi og auknum pirringi. Samstarfsfélagar hafa oft lítinn skilning á þessu og hið sama gildir um fjölskyldur og vini.
Höfuðverkjaköst, hjartsláttartruflanir, húðvandamál, auknar líkur á þvagfærasýkingum og þurrki í slímhúð leggangna eru einnig meðal einkenna sem valda minni lífsgæðum og erfiðleikum hjá konum. Ákveðinna fordóma gætir einnig hjá bæði konunum sjálfum og umhverfinu gagnvart þessum einkennum og sumar eiga erfitt með að tala um það. Í mörgum tilfellum eru yfirmenn karlmenn og þeir eiga erfitt með að skilja líðan kvennanna og því gætir oft lítillar þolinmæði gagnvart veikindadögum eða öðrum fjarvistum. Sú staðreynd að sumar konur þurfa á auknum sveigjanleika að halda með einkennin ganga yfir veldur ákveðnum fordómum gagnvart konum á breytingaskeiði á vinnumarkaði. Þess má geta að missi konurnar vinnuna eða telji sér ekki annað fært en að segja upp vegna vanlíðunar eiga þær erfiðara með að fá aðra vinnu en karlar á sama aldri.
Þegar einkennin eru slæm þurfa konur oft á hvíld að halda en í bresku rannsókninni frá árinu 2018 kom í ljós að flestar neita sér um hana. Þær þora ekki að ræða við við vinnuveitendur sína um einkennin. Margar töluðu einnig um að þær hefðu mætt skilningsleysi þegar þær reyndu það og fordómum. Þær kusu þess vegna frekar að segja starfi sínu lausu en að fara í veikindaleyfi eða vera sagt upp. Í ljósi þess að vinnumarkaðurinn er þessum aldurshópi almennt andsnúnari en þeim sem yngri eru, og konur eru í verri stöðu en karlar, eru margar í þeirri stöðu að fara á eftirlaun eða taka út lífeyri fyrr en þær ætluðu. Þrjár af hverjum fimm konum í rannsókninni sögðust hafa átt í verulegum erfiðleikum með að stunda vinnu sína á tímabilum meðan breytingaskeiðið gekk yfir og viðurkenndu að hafa hugleitt að hætta að vinna.
Verr staddar fjárhagslega
Fæstar konur hafa efni á að taka sér hlé frá vinnu á þessum aldri. Þær eru almennt verr undir eftirlaunaaldurinn búnar, laun þeirra eru lægri en karla og lífeyrisgreiðslurnar því lægri. Það er synd ef raunin er sú að konur á sextugsaldri hverfi af vinnumarkaði of snemma vegna þess að þótt breytingaskeiðið geti reynst konum erfitt er það einnig gefandi tími og flestar konur skapandi og orkumiklar á þessum aldri. Sveigjanlegur vinnutími eða tímabundnar breytingar á skyldum í vinnunni myndu breyta miklu og skapa konunum svigrúm til að ná tökum á starfinu að nýju.
Líkamlegt þrek tekur að minnka á þessum árum og bæði karlar og konur finna að þau ráða síður við krefjandi líkamleg verkefni eða störf sem reyna á úthald og styrk. Það myndi bæta mikið ef fólki væri gefinn kostur á að breyta um starfsvettvang í þeim tilfellum eða minnka við sig vinnu tímabundið. Nú þegar er tekið að skoða margvíslega möguleika hvað þetta varðar í löndunum í kringum okkur. Í Bretlandi er einnig vaxandi hópur fólks yfir fimmtugu í hópi svokallaðra „giggara“ en hér á landi hafa þeir verið kallaðir lausfólk eða talað um að viðkomandi sé í lausamennsku. Þessir verktakar kjósa að taka að sér tímabundin verkefni fremur en að fastráða sig. Covid hefur einnig aukið mjög eftirspurn eftir fólki sem getur unnið sjálfstætt og heiman frá sér.
Að takast á við einkennin á vinnustað
Erfið einkenni breytingaskeiðsins hafa aðallega áhrif á mætingar kvenna í vinnu, einbeitingu þeirra á vinnustaðnum og afköst. Sumar konur gera sér ekki grein fyrir að vanlíðanin sem þær glíma við er tengd breytingaskeiði og það hefur komið fyrir að þær fái ýmsar sjúkdómsgreiningar á borð við þunglyndi, vítamínskort og ímyndunarveiki. Hversu erfitt er að takast á við einkennin fer að sjálfsögðu svolítið eftir eðli vinnunnar, andrúmslofti á vinnustað og aðstöðu. Skoðum nokkur dæmi og hvernig hægt er að leysa sum vandamál.
Er þess krafist að þú sért í sérstökum búningi eða ákveðinni gerð vinnufatnaðar?
Sé svo getur verið gott að vera alltaf með hrein föt með sér til taks ef þú skyldir fá kófkast í vinnunni. Ef góð aðstaða er til að þrífa sig í vinnunni ætti einnig að vera sjálfsagt að þú notfærðir þér hana.
Þarftu að keyra mikið?
Ef þú ert mikið á ferðinni og hefur þar af leiðandi ekki tækifæri til að skipta um föt eða þrífa þig, er ráð að stoppa einhvers staðar og fara út úr bílnum. Láta íslensku goluna leika um þig í svolitla stund og kæla þig niður. Hafðu einnig alltaf með þér nokkrar flöskur af vatni í kæliboxi. Blautklútar, svitalyktareyðir og ilmvatn ættu einnig að vera staðalbúnaður.
Er aðgangur að góðri snyrtingu og köldu vatni?
Allir vinnustaðir eiga að veita starfsfólki aðgang að góðri snyrtiaðstöðu og vatni. Sé það ekki til staðar á þínum vinnustað gerðu þá yfirmanni þínum grein fyrir að þú þurfir að taka pásur reglulega og hafðu með þér vatnsflösku.
Ertu alltaf pirruð?
Eitt af þeim einkennum sem margar konur glíma við eru skapsveiflur og andleg vanlíðan. Slökunaræfingar geta hjálpað til að koma ró á hugann og draga úr pirringnum. Sumar konur hlusta á tónlist eða hlaðvörp um margvísleg efni til að skapa sér athvarf í huganum frá vanlíðaninni.
Alltaf þreytt?
Sumar konur eru alltaf þreyttar meðan á tíðahvörfum stendur. Þeim finnst þær ekki hafa þrek til að vinna fullan vinnudag og eru dauðþreyttar að lokninni fimm daga vinnuviku. Þær sofa illa og það kemur niður á starfsþreki og einbeitingu. Slökunaræfingar á kvöldin áður en farið er að sofa geta hjálpað, sömuleiðis jóga, tai chi og hugleiðsla. Í sumum tilfellum er hægt að semja við vinnuveitendur um sveigjanlegan vinnutíma eða minna starfshlutfall tímabundið. Oftast gengur þetta yfir og konur fá orkuna aftur.
Gleymir þú öllu?
Minnistap er algengur fylgifiskur breytingaskeiðsins. Óháð því er fólk einnig að komast á þann aldur að minnið er tekið að svíkja. Þegar konur finna að gleymskan er farin að hafa áhrif á frammistöðu þeirra í vinnunni verða þær hræddar og það veldur aukinni streitu sem aftur hefur áhrif á minni. Besta ráðið er að ræða við yfirmenn og útskýra stöðuna. Einnig getur verið gott að skrifa lista yfir öll verkefni dagsins á hverjum morgni og skrifa stöðuuppfærslur reglulega. Sömuleiðis er gott að setja alla fundi, mikilvægar dagsetningar og lokaskil inn í símann og láta hann hringja viðvörunarbjöllum áður en að því kemur.
Styrkur í fjöldanum
Það er mikilvægt að konur mæti skilning og stuðningi á vinnustað meðan á breytingaskeiðinu stendur. Það getur líka verið mikill styrkur ef fleiri konur hjá fyrirtækinu eru að ganga í gegnum það sama á sama tíma. Nú orðið er að finna upplýsingar víða á netinu og á facebook er hópurinn, Breytingaskeiðið, frábær uppspretta upplýsinga og samráðsvettvangur.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna.