Aldursfordómar helst á vinnumarkaðinum

Aldursfordómar eru víða á dagskrá, til að mynda hjá Evópusamtökum eldri borgara AGE Plattform Europe. Þau berjast hart gegn því að fólki sé mismunað vegna aldurs og aldursmismunun, sem og mannréttindi eldri borgara almennt, eru mjög ofarlega á forgangslista samtakanna. Fólk sem er orðið rúmlega fimmtugt og eldra telur 190 milljónir í Evrópu, en um 40 milljónir manna eru innan vébanda Evrópusamtaka eldri borgara. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin WHO, skilgreinir aldursfordóma þannig.

Að setja alla undir sama hatt  og að mismuna einstaklingum og hópum eftir aldri, er dæmi um aldursfordóma.  Þeir birtast á ýmsan hátt, sem fyrirfram gefnar hugmyndir um eldra fólk, sem kerfisbundin mismunun og mismunun innan stofnana, þar sem bæði reglur og framkvæmd þeirra viðhalda ákveðinni staðalímynd um eldra fólk.

Við spurðum nokkra einstaklinga að því hvort þeir yrðu varir við aldursfordóma hér á landi.

Já, það er ekki spurning. Það er svo oft eins og við séum einskis nýt. En ég spyr mig stundum hvernig yngra fólk ætti að geta unnið vinnuna sína, ef eftirlaunafólk væri ekki til taks til að taka skutlin með börnin, eða annast um þau þegar þau eru veik. Kannski ætti eftirlaunafólk að leggja niður störf í einn dag, eins og konur gerðu 24.okóber 1975 og sjá hvaða áhrif það hefði á þjóðfélagið.

Annar viðmælandi okkar taldi hins vegar að aldursfordómar væru á undanhaldi í þjóðfélaginu.

Í mínum hópi eru mikil tengsl á milli foreldra og barna, meiri en kynslóðarinnar á undan. Mér fannst ég ekki heldur finna fyrir fordómum vegna aldurs síðustu árin mín í starfi … og þó, kannski hjá fólki sem var nýtt, en ekki hjá þeim sem ég hafði unnið með í gegnum árin.  Þar naut ég yfirleitt virðingar vegna reynslu ásamt því að hafa vissa yfirsýn umfram þá sem yngri voru. Oft var leitað til mín með eitt og annað og ég fann aldrei fyrir því að mitt fólk, höfundar og teiknarar, tækju ekki mark á mínum athugasemdum og viðbrögðum. Auðvitað áttu þetta fólk allt undir mér!

En það er að vísu alþekkt að margir eiga erfitt með að fá vinnu sem komnir eru á miðjan aldur og á það  frekar við um konur en karla. Þetta sýnist mér fara mikið eftir starfssviðum.

Á mínu sviði eru ekki margir möguleikar. Það heyri ég hjá konum sem eru komnar undir sextugt, yngra fólk er tekið fram yfir, oft fólk sem er líka með prýðis menntun og starfsreynslu.

Fleiri af þeim sem við ræddum við tóku í sama streng varðandi vinnumarkaðinn. Einn taldi til dæmis að það væri ekki mikið um aldursfordóma í samfélaginu, nema þá einmitt helst þegar kæmi að vinnumarkaðinum.  Og flestir virðast þeirrar skoðunar að fólk eigi að hafa meira sjálfdæmi um það hvort og hvenær það hættir störfum á vinnumarkaði. Það sé mikill munur á einstaklingum hvað þetta varðar og ekki hægt að alhæfa um það hvenær hver og einn eigi að hætta að vinna.

Opinberir aðilar og vinnumarkaðurinn hafa búið til markalínur eftir ákveðnum aldri, 65,67 eða 70 ára. Þær geta eflaust verið hentug viðmið en standast svo sannarlega ekki fyrir alla. Sumir eru með heilmiðkið starfsþrek, njóta sín í starfi og skila góðu verki á meðan jafnaldrar þeirra eru útslitnir og þurfa að fá að hætta. Ég á mér þann draum að þetta veðri miklu sveigjanlegra en nú er og fari eftir áhuga og skynsamlegu mati hverju sinni.

 Annar sagði að það væri mikil ungmennadýrkun í þjóðfélaginu.

Þegar fólk er komið á ákveðinn aldur þá er því kippt til hliðar og má ekki taka þátt í þjóðfélaginu lengur. Það má helst ekki gera neitt, nema þá í sjálfboðavinnu og á ekki að vera fyrir þeim sem yngri eru.

Einn viðmælandi okkar sem er ekki kominn á eftirlaunaaldur sagði þetta um aldursfordómana í samfélaginu.

Þessu skal ég svara þegar ég verð eldri og upplifi á eigin skinni hvort ég mæti fordómum aldurs vegna eða ekki!

 

Ritstjórn júlí 3, 2018 06:03