Ekki einu sinni boðuð í viðtal

Margrét Júlísdóttir

Margrét Júlísdóttir

„Ég fékk áhuga á að skoða þetta sérstaklega vegna þess að fólk sem er í mínum vinahópi og er komið yfir fimmtugt staðhæfir að það eigi erfitt með að fá vinnu. Ef það sækir um störf sem eru auglýst þá er það yfirleitt aldrei boðað í viðtal og margir upplifa það að fá ekki einu sinni svör. Flestir sem ég þekki sem komnir eru á miðjan aldur og hafa fengið nýja vinnu hafa fengið hana í gegnum kunningsskap,“segir Margrét Júlísdóttir, viðurkenndur bókari.

Hefur aldur áhrif á ráðningar?

Margrét er að ljúka B.Sc prófi í viðskiptafræði frá Háskólann í Reykjavík. Lokaritgerð hennar ber titilinn „Hefur aldur umsækjenda áhrif á ráðningar.“  Margrét lagði spurningalista fyrir fjóra mannauðs- og ráðningarstjóra í jafnmörgum fyrirtækjum. Niðurstaðan var að enginn þeirra taldi að hann mismunaði fólki á grundvelli aldurs þegar kæmi að ráðningum. Margrét segir að hún eigi erfitt með að trúa þessum niðurstöðum en hún hafi hins vegar ekkert annað í höndunum en þau svör sem hún fékk.  „Ég held persónulega að það sé skekkja í niðurstöðunum og því tel ég fulla þörf á að skoða þetta nánar. Ég hef fullan hug á að rannsaka þessi mál betur í framtíðinni, stækka hópinn sem er spurður og láta rannsóknina einnig ná til þeirra sem eru að sækja um störf,“ segir hún og bætir við takmarkanirnar í þessu verkefni hafi verið að eingöngu var skoðað út frá þeim sem ráða í störfin og þeirra upplifun sé ekki upplifun umsækjendanna sem fengu ekki störfin sem sótt var um. Það er því óvíst hvort mismunun eftir aldri eða öðrum þáttum á sér stað í samfélaginu, en gaman væri að með einhverjum hætti geta skoðað hvort upplifun atvinnuleitanda sé með öðrum hætti en þeirra sem sjá um ráðningarnar,“ segir hún.

Minna frá vegna skammtímaveikinda

Fleira forvitnilegt er að finna í ritgerð Margrétar til dæmis um heilsufar eldri starfsmanna en ein af spurningunum sem lagðar voru fyrir mannauðs- og ráðningarstjórna laut að heisufari eldri starfsmanna. Gefum Margréti orðið. „Hvað varðar heilsufar fólks eldra en 50 ára þá voru viðmælendur mínir, að einum undanskyldum sammála um að eldri starfsmenn væru minna frá vegna skammtímaveikinda en yngri starfsmenn. Það þýddi þó ekki að þegar yfir heildina væri litið þá gætu eldri starfsmenn verið með jafn marga veikindadaga og þeir yngri, sem orsakast af því að ýmsir aldurstengdir sjúkdómar fara að láta á sér kræla þegar fer að líða á seinni ár starfsævinnar. Þegar viðmælendur voru spurðir um tryggð eldri starfsmanna gagnvart fyrirtækinu sagði einn viðmælandi minn að tryggð þeirra eldri væri mun meiri, hvorki meiri né minni sagði einn þeirra, einn gat ekkert um það.“  Fyrir þá sem hafa áhuga á að lesa ritgerð Margrétar er hægt að smella hér og lesa hana í heild.

Ritstjórn september 29, 2015 10:17