Gott að eldast en ekki að verða gömul í hugsun

Sigurjón Þórðarson

„Til að eiga góða starfsævi og eldast vel á vinnumarkaði þurfum við að passa upp á tvennt, líkamlega heilsu og ekki síst andlega, viðhorf okkar og hugarfar. Getan til að takast á við breytingar byrjar í hausnum. Það er gott að eldast en ekki gott að verða gamall í hugsun. Ólíkt baráttunni við elli kerlingu sem tapast auðvitað alltaf, getum við náð árangri í baráttunni við að verða gömul í hugsun“, segir Sigurjón Þórðarson stjórnunar- og mannauðsráðgjafi hjá fyrirtækinu Nolta. Blaðamaður Lifðu núna ræddi við hann um það, hvernig hann sæi vinnumarkaðinn fyrir sér í framtíðinni og stöðu eldra fólks þar.

Gæfa að eldast – bara ekki á vinnumarkaði

Sigurjón segist í sínu starfi, oft hitta fólk sem sé á tímamótum á sínum atvinnuferli, stundum fólk sem vilji þróast í núverandi starfi og stundum fólks sem  þurfi og ætli að takast á við nýjar áskorarnir.„Sjaldnast hitti ég þó fólk á heppilegasta aldrinum fyrir breytingar“, segir hann.  „Sum eru of gömul,  önnur of ung og einhver jafnvel of mikið miðaldra, allt að eigin sögn. Auðvitað eru allir samt sammála því að það sé mikil gæfa að eldast, bara ekki svona hratt og ekki á vinnumarkaði“.

Sumir strax tilbúnir að takast á við nýjar áskoranir

Þó að fólkið sem Sigurjón hittir sé á öllum aldri og kynjum, með fjölbreyttan bakgrunn og margþætta reynslu, þá er eitt og annað sem það á sameiginlegt.  Einn af þeim þáttum er viðhorfið til starfsþróunar og símenntunar. „Þannig má gróflega skipta hópnum í fernt, sum eru áköf, önnur jákvæð, einhverjir fráhverfir og enn aðrir andsnúnir“, segir hann. „ Reynslan mín er sú að þau áköfu og jákvæðu eru mikið betur undirbúin heldur en hinir tveir hóparnir. Þau hafa lengi iðkað símenntun og haldið við þekkingu sinni og tækni. Þau eru því strax tilbúin að takast á við nýjar áskoranir. Hinir hóparnir hafa vegna viðhorfs ekki gætt nægjanlega vel að menntun sinni. Þau eru því í erfiðari stöðu á tímamótum. Þurfa að byrja á því að snúa sínu viðhorfi og bretta svo upp ermarnar og takast á við verkefnin“.

Hraðinn á vinnumarkaði á enn eftir að aukast

Sigurjón segir að vinnumarkaðurinn sé á miklu þróunarferðalagi. „Hraðinn þar hefur sennilega aldrei verið meiri og allar spár segja að hann muni frekar aukast en hitt, svo gripið sé til myndlíkingar. Á tímum þar sem aldrei hefur verið eins mikið framboð af menntun, námskeiðum og leiðum til sjálfsmenntunar eru í raun engar afsakanir fyrir því að viðhalda ekki, eða bæta við sína þekkingu. Vinnustaðir og verklýðsfélög eru virkir þátttakendur í þessari þróun og bjóða einnig upp á stuðning“.

Að nýta menntun þekkingu og reynslu í lok starfsferils

„Mitt helsta ráð til allra sem eru á vinnumarkaði og vilja vera þar áfram er að huga strax að sínum starfsferli og hvernig hann muni þróast“, segir hann.  „Það má líta á starfsævina í þrennu lagi, fyrsta skeiðið þegar atvinnuþátttaka byrjar og ferillinn byrjar að mótast, menntun og reynsla hleðst inn. Á öðru skeiðinu bætist við meiri reynsla, þekking og ábyrgð í starfi eykst, einnig byrjar að skapast þörf fyrir símenntun. Þriðja skeiðið þegar komin er í hús mikil reynsla, menntun og þekking. Þarna skapast oft tækifæri til að staldra við og jafnvel gera breytingar þar sem ávinningur á hinum tveimur fyrri skeiðum er nýttur á nýjan hátt. Ég stikla á stóru hérna en það er gert til að minna á að skoða þarf stóru myndina með reglulegum hætti“, segir Sigurjón að lokum.

Ritstjórn september 26, 2017 10:02