Tískuhönnuðnum Chanel er jafnan þakkað það að konur fóru almennt að ganga í buxum. Hún er líka höfundur litla svarta kjólsins en flestar konur eiga einn slíkan í fataskápnum. Sjaldnar er þó talað um að Chanel varð fyrst til að nýta sér innblástur úr karlmannafatatísku tila ð skapa fatnað handa konum. Hún bjó til pilsdragtina og Chanel-dragtir eru tímalausar og einstaklega klæðilegar.
Það var árið 1925 að Coco Chanel sendi fyrstu dragtina niður sýningarpallinn og sú var úr góðu ullarefni með fjórum vösum framan á jakkanum. Hann var kragalaus og pilsið beinsniðið og meðalsítt. Þótt í dag þætti hún ekki sérstaklega nýstárleg var þetta einfaldlega bylting á sínum tíma. Þarna voru kominn hinn fullkomni fatnaður fyrir hina vinnandi konu, þægilegur, virðulegur og hindrað hvergi hreyfingar konunnar.
Síðan hafa ótal tilbrigði við þessa fyrstu orðið til og dragtir frá tískuhúsinu eru til í margvíslegum efnum og sniðum en líklega eru tweed-efnin þekktust. Líningar á ermum og við vasana eru meðal þess sem setur sérstakan svip á margar Chanel-dragtir, skínandi gylltir hnappar og kögur eru einnig einkenni klassískra Chanel-jakka. Chanel notaði einnig svokallað bouclé-efni, en það er ullarefni ofið þannig að er gróft og jafnvel eins og svolítið loðið. Stjörnurnar hrifust strax af drögtunum og Grace Kelly, Jackie Kennedy og Audrey Hepburn voru meðal þeirra. Díana prinsessa klæddist einnig oft fatnaði frá Chanel og átti margar dragtir með hinu hefðbundna sniði.
Chanel-dragtir eru einkar kvenlegar og klæðilegar í sniðinu og hafa yfir sér einhverja fágun sem gerir þær klassískar. Dragtirnar urðu þegar ómissandi hluti af tískulínum Chanel uppfrá þessu og Karl Lagerfled hefur fylgt þeirri hefð í sínu starfi. Hann tók við sem listrænn stjórnandi árið 1983 og hefur nokkrum sinnum endurskapað nokkrar af þekktustu drögtum Coco. Hann lengdi stundum pilsinn, breytti jakkanum í boleró og nýtti bæði hin þekktu ullarefni sem þær voru upphaflega í eða sneið þær úr fínlegum blúndu- og chiffon-efnum. Enn ganga upprunalegu dragtirnar kaupum og sölum á Netinu og í verslunum með notaðan fatnað.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.